30.03.1971
Sameinað þing: 38. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í D-deild Alþingistíðinda. (4675)

289. mál, rafvæðingaráætlun Vestfjarða

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Spurningunni um það, hvort gerðar hafi verið rafvæðingaráætlanir fyrir eftirtalin byggðarlög: Vestur- og Austur-Barðastrandarsýslu, Ísafjarðarsýslu, í Strandasýslu: Óspakseyrarhrepp Fellshrepp og Kaldrananeshrepp, er þannig svarað: Á vegum Orkustofnunar hafa verið gerðar frumáætlanir um rafvæðingu allra þessara byggðarlaga, að svo miklu leyti sem hugsanlegt er, að unnt sé að tengja þær samveitum.

Í öðru lagi. „Hve margir bæir á ofangreindu svæði er áætlað, að fái rafmagn frá samveitum fyrir árið 1971, og hvenær er áætlað, að rafvæðingu þessara byggðarlaga verði lokið?“ Svarið er eftirfarandi: Á þessu svæði mun ekkert byggðarlag órafvætt, sem uppfyllir skilyrði um 1.5 km meðalfjarlægð á milli bæja. Af þeim sökum er ekki um rafvæðingu frá samveitu að ræða á þessu ári. Þó skal bent á, að í Vestur-Barðastrandarsýslu er þéttbýlt svæði, sem út af fyrir sig uppfyllir nefnd skilyrði, ef ekki er talin með löng aðfærslulína. Til þess að unnt verði á næsta ári að rafvæða þessa sveit, hefur nú verið ákveðið að leggja háspennulínu frá Patreksfirði um Kleifaheiði að Holti á Barðaströnd á þessu ári. Framkvæmdaáætlun þessa árs er ekki enn fullfrágengin, en verður tekin fyrir í orkuráði einhvern næstu daga. Sömuleiðis er verið að vinna að heildaráætlun næstu ára. Fyrr en þessum áætlunum er lokið, er ekki unnt að gefa endanlegt svar við þessum lið fsp.

Í þriðja lagi. „Hafa verið gerðar áætlanir um nýjar vatnsaflsvirkjanir á Vestfjörðum?“ Svar er þetta: Gerð hefur verið vinnsluáætlun fyrir allt Mjólkársvæðið. Sem liður í þeirri heildaráætlun er stíflugerð í Langavatni til vatnsmiðlunar fyrir núverandi Mjólkárvirkjun, sem Rafmagnsveitur ríkisins byggðu á þessu ári. Stífla þessi er einnig gerð með það fyrir augum, að virkja megi síðar fallið milli Langavatns og Borgar. Fengist með því 2800 kw ný virkjun, en núverandi Mjólkárvirkjun er 2400 kw. Þá hefur verið gerð áætlun um virkjun í Suðurfossá á Rauðasandi, en ákvörðun um framkvæmdir hefur ekki verið tekin. Rafveita Snæfjalla hefur fengið leyfi ráðh. til að reisa 200 kw virkjun í Blævardalsá í Nauteyrarhreppi. Hyggst rafveitan byggja þessa virkjun nú á næstunni með rafvæðingu Nauteyrar- og Snæfjallahrepps fyrir augum.