30.03.1971
Sameinað þing: 38. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í D-deild Alþingistíðinda. (4682)

369. mál, raforkumál Þistilfjarðarbyggða

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Sennilega hefði hv. fyrirspyrjandi eins getað svarað þessari fsp. og ég. Ef ég man rétt, á hann sæti í orkuráði, sem um þessi mál fjallar, og er þess vegna kunnugur öllum hnútum um fjárreiður rafvæðingarinnar og viðhorf iðnrn. Í þessum efnum eru einnig hæg heimatökin að fá upplýsingar hjá ráðuneytisstjóranum, sem situr fundi orkuráðs og hefur gert það síðan orkumálin féllu undir iðnrn.

Spurt er, hvort rn. hafi gert nokkrar ráðstafanir til þess að leysa raforkumál Þistilfjarðarbyggðar og hvernig þá og hvenær það hyggist hrinda þeim fyrirætlunum í framkvæmd. Svarið er eftirfarandi: Á vegum Rafmagnsveitna ríkisins hefur verið gerð áætlun um tengingu Raufarhafnar og Þórshafnar með 30 kw háspennulínu og tengja þar með þessa staði Laxársvæðinu. Háspennulögn milli Kópaskers og Raufarhafnar er nú að ljúka. Að lokinni þessari háspennulögn er ráðgerð rafvæðing Þistilfjarðarbyggðar út frá Þórshöfn frá Kollavík við vestanverðan Þistilfjörð að Eiðisvík á Langanesi. Þá er rétt að geta þess, að gerðar hafa verið fyrstu athuganir á virkjun við Sandá í Þistilfirði. Þessi frumathugun bendir ekki til sérlegrar hagkvæmni. Þessi valkostur verður þó athugaður nánar og borinn saman við fyrrgreinda tengingu við Laxársvæðið. Framangreindar ráðagerðir falla að öðru leyti inn í þær framtíðaráætlanir um rafvæðingu sveitanna, sem nú er unnið að og ég hef áður gert grein fyrir.