30.03.1971
Sameinað þing: 38. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í D-deild Alþingistíðinda. (4684)

369. mál, raforkumál Þistilfjarðarbyggða

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég sé nú ástæðu til þess að þakka hv. 9. landsk. þm. fyrir þann áhuga, sem hann hefur fyrir rafvæðingu Þistilfjarðarbyggðar, og ég hygg mega ganga út frá því, að hann muni sem starfandi í orkuráði stuðla að þeirri rafvæðingu og þá ekki sízt rafvæðingu sveitanna, sem eiga við erfiðleika að stríða í þessu sambandi vegna vegalengda milli bæja. Þar sem hv. þm. talar um Þistilfjarðarbyggðir, þá geri ég ráð fyrir, að hann eigi við hreppana þrjá austan heiðar í Norður-Þingeyjarsýslu, Svalbarðshrepp, Sauðaneshrepp og Þórshafnarhrepp, en líklega ekki það, sem Efnahagsstofnunin kallar í Norðurlandsáætlunarskýrslu sinni Þistilfjarðarbyggð, sem er reyndar miklu stærra svæði. En það er rétt, sem hér hefur komið fram, að það hefur verið rætt um það undanfarið, að lögð yrði lína frá Laxá austur, allt til Þórshafnar, og er búið að leggja nokkuð mikið af þessari línu, þ. e. um sýsluna vestan heiðar. En eftir er að leggja línuna fyrir austan heiði. Í þessu sambandi er þess að geta, að fyrir nokkuð mörgum árum var veitt lagaheimild til þess að fela rafmagnsveitunum að reisa orkuver við Sandá í Þistilfirði. Og af ýmsum ástæðum hefur verið áhugi á því hjá mörgum innan héraðs, að sú heimild verði notuð. En stærð orkuvers við Sandá yrði sem svarar 2000 eða 2100 kw og mundi nægja fyrst um sinn til þess að sjá allri Norður-Þingeyjarsýslu fyrir rafmagni og e. t. v. einnig tveimur nyrztu hreppum Norður-Múlasýslu norðan Smjörvatnsheiðar, Skeggjastaðahreppi og Vopnafjarðarhreppi að meðtöldu Vopnafjarðarkauptúni. Það er ýmislegt, sem mælir með því, að þessi leið verði valin eða að hún verði a. m. k. nákvæmlega athuguð, og eins má geta þess í þessu sambandi, að við höfum þrír þm. leyft okkur að flytja á þskj. 549 þál. um að fela ríkisstj. að láta hefja undirbúning að virkjun Sandár.

Ég vil þakka hæstv. raforkumrh. fyrir það, sem hann sagði áðan, að þessi möguleiki yrði að nýju tekinn til endurskoðunar, að virkja Sandá þó að um sinn hafi Orkumálastofnunin frekar hallazt að því, að rafmagnið kæmi frá Laxá. En þó að horfið yrði að virkjun Sandár, þá er það að sjálfsögðu mjög gagnlegt, að þessi háspennulína hefur verið lögð, bæði af því að mestur hluti hennar kæmi að notum við dreifingu raforku frá Sandá um þau svæði, en einnig er það að sjálfsögðu mjög heppilegt að tengja saman væntanlegt orkuveitusvæði Sandár og orkuveitusvæði Laxár, sem gert yrði með því, að línan lægi einnig um Reykjaheiði og yrði þannig í sambandi við Laxárvirkjun.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en mér þykir vænt um það, að þetta mál hefur komið hér á dagskrá, og vænti þess, að það ásamt till., sem ég nefndi áðan og flutt hefur verið, verði til þess, að það verði úr því, sem hæstv. ráðh. vék að hér áðan, að rækilega verði bornir saman þessir valkostir, sem hér er um að ræða, og þykir mér ekki ólíklegt, að sá samanburður mundi leiða það í ljós, að af ýmsum ástæðum yrði virkjun Sandár heppilegasta leiðin.