18.12.1970
Neðri deild: 37. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

161. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég mun nota þetta tækifæri, þó að við 3. umr. sé, til að þakka hv. fjhn. fyrir mjög rösklega afgreiðslu á þessu máli. Það þurfti að gera lagfæringar, eins og hv. frsm. þeirrar n. gat um, vegna þess að ekki höfðu verið athuguð til hlítar við afgreiðslu málsins í Ed. ýmis formsatriði. Þar sem hér er um, eins og þdm. öllum er vel kunnugt, ákaflega flókið mál að ræða, þá gat vel komið fyrir, að slíkir annmarkar yrðu við skjóta athugun málsins, úr því að þar var valinn sá kostur að gera nokkrar fleiri brtt. Ég er mjög sáttur við þær brtt., sem hér hafa verið samþykktar, en hins vegar hefur verið gerð sérstök athugun á málinu í dag í fjmrn. í samræmi við óskir Félags ísl. iðnrekenda, og eru þar nokkur atriði, sem eru nánast í samræmi við það, sem nú er búið að samþykkja hér í hv. d. og rétt þykir að breyta. Og ég hef leyft mér að flytja á sérstöku þskj., sem nú var verið að útbýta, að ég hygg, nokkrar brtt., sem fyrst og fremst eru til þess að lækka í tolli ýmsa svokallaða „komponenta“ til rafmagns- og rafagnaiðnaðar, en ýmis slík tæki og hliðstæðar vörur voru einmitt lækkaðar í tolli með þeim breytingum, sem gerðar voru í hv. Ed., og einnig því, sem hér hefur verið breytt í hv. Nd.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta frekar. Hér er ekki um veigamiklar breytingar að ræða, en nánast til samræmingar við annað, sem hér hefur verið samþ., og vildi ég leyfa mér að vonast til, að hv. d. gæti á það fallizt, án þess að við þyrftum að tefja tímann við það að láta málið fara aftur til n.