18.12.1970
Efri deild: 39. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (475)

161. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Tollskrárfrv. er komið hér aftur til hv. Ed. vegna allmargra breytinga, sem á því voru gerðar í hv. Nd. Það kom í ljós við athugun á frv. eftir samþykkt þess hér í hv. d., að það voru ýmsir tæknilegir annmarkar á orðalagi þess og flokkun, þannig að það var tekið til ítarlegrar athugunar í fjmrn. í samráði við hv. fjhn. Nd. Varð um það samkomulag, að gerðar voru nauðsynlegar breytingar á málinu, til þess að hægt væri að orða það með eðlilegum hætti og til þess að það gæti ekki valdið neinum misskilningi, hvað við væri átt. Ég skal taka það fram, að hér er ekki um neinar efnisbreytingar, sem máli skipta, að ræða, heldur aðra flokkun og atriði, sem hv. þm. munu væntanlega reka augun í, þ. e. að færðir hafa verið aftur upp í 100% tollar á ýmsum búsáhöldum og borðbúnaði vegna hótelrekstrar, en það stafar af því, að það þótti heppilegra að hafa tollinn óbreyttan, en hafa hins vegar heimildargr. um að lækka þetta, svo sem lagt hafði verið til í þessari hv. d., vegna þess að vitanlega getur verið hætta á því, að þetta verði misnotað, ef það er skilyrðislaust ákveðið svo, að það þurfi ekki annað en vera merkt tilteknum hótelum, til þess að það sé tollfrjálst, heldur verður að gera sér fulla grein fyrir því hverju sinni, hvort hér er raunverulega um innflutning til hótels að ræða eða ekki. Hér er auðvitað ekki um efnisbreytingu að ræða, því að ég veit það, að þessi hv. d. er sammála um það, að það verði að koma í veg fyrir misnotkun á þessari heimild, sem hér var veitt.

Þá voru einnig að minni till. gerðar nokkrar breytingar, sem ekki skipta höfuðmáli, á frv. í hv. Nd., og allar eru þær til samræmis við það, sem gerzt hafði hér í þessari hv. d., og það, sem áður hefur verið gert í samráði við Félag ísl. iðnrekenda. Það er fyrst og fremst um að ræða, að lækkaðir eru nokkrir tollar af nokkrum „komponentum“ til rafmagns- og rafagnaiðnaðar, og er það í fullu samræmi við það, sem gert hefur verið hér við meðferð málsins og reyndar var að nokkru leyti gert í breytingu þeirri, sem gerð var á tollskrárlögunum fyrr á þessu ári. Þó að hér sé um allmargar breytingar að ræða, eins og ég segi, þá er hér ekki um nein atriði að ræða, sem efnismáli skipta, þannig að ég vildi leyfa mér að vonast til, að hv. d. gæti fallizt á það að afgreiða frv. án þess, að það þyrfti að fara hér aftur til n.