22.10.1970
Efri deild: 4. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

6. mál, Lífeyrissjóður bænda

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta um Lífeyrissjóð bænda, sem hér liggur fyrir, var lagt fram á síðasta Alþ., en það seint á þinginu, að þess var enginn kostur, að það gæti fengið afgreiðslu, enda var það í rauninni flutt þá, svo sem ég gerði ráð fyrir í framsögu, til þess að sýna hv. þm. málið, þar sem hér er um nokkuð nýstárlegt mál að ræða, eins og ég mun nánar víkja að, en ekki gert ráð fyrir því, að það yrði þá endanlega afgreitt. Þá fylgdi frv. sérstök grg., sem ekki hefur verið talin ástæða til að endurprenta hér með þessu frv., en vísað er til hennar til nánari skýringar á hinum einstöku atriðum frv., en frv. er þannig til orðið, að hæstv. landbrh. skipaði 12. jan. s. l. nefnd til þess að semja frv. til l. um lífeyrissjóð fyrir bændur, og var tekið fram í skipunarbréfi þeirrar nefndar, að höfð skyldi hliðsjón af sérstöku lagafrv., sem n., er skipuð hafði verið á Búnaðarþingi og af stjórn Stéttarsambands bænda, hafði afhent landbrh. í s. l. desembermánuði. Þetta mál hefur verið alllengi á dagskrá og verið lengi áhugamál bændastéttarinnar, að það næði fram að ganga og komið yrði á fót lífeyrissjóði fyrir bændur, og till. um það efni hafa margsinnis komið fram.

En þegar farið var að vinna að athugun á möguleikum á því að koma upp lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn, varð nokkurt hlé á þessu sérstaka lífeyrissjóðsmáli bænda, þar sem gert var ráð fyrir, að það mundi falla undir það viðfangsefni. En hins vegar tók lífeyrissjóðsmálið í heild eða hugmyndin um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn aðra stefnu, þegar það gerðist með samningum bátaútvegsmanna og sjómanna í febrúar 1969 og síðan annarra samtaka vinnumarkaðarins, þ. e. í sambandi við kjarasamninga vinnuveitenda og verkalýðsfélaga í maímánuði sama ár, að samið var um sérstaka lífeyrissjóði fyrir þessar stéttir og með nokkuð sérstökum hætti. Þá var ljóst, að hugmyndin um lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn mundi þurfa að þróast með öðrum hætti og stefnan mundi verða sú, að það yrði haldið áfram á þeirri braut að mynda sérstaka lífeyrissjóði fyrir einstakar stéttir, sem síðan gæti þá aftur komið til álita, að unnið yrði að heildarathugun á, hversu mætti samræma með þeim hætti, að komið yrði á lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn, hvort sem það yrði einn sjóður eða með einhvers konar samstarfi eða samræmingu á lagaákvæðum og reglum um hina einstöku lífeyrissjóði. Eftir að málið hafði tekið þessa stefnu, var eðlilegt, að það yrði einnig tekið upp af hálfu bændasamtakanna, enda var það svo, að á Búnaðarþingi 1969 var kosin milliþinganefnd til að fjalla um málið, og á aðalfundi Stéttarsambands bænda skömmu síðar var skorað á stjórn sambandsins að taka upp baráttu fyrir stofnun Lífeyrissjóðs bænda. Og mþn. Búnaðarþings og stjórn Stéttarsambandsins störfuðu síðan saman að framgangi málsins, svo sem áður hefur verið sagt.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er í öllum meginefnum mjög í samræmi við þær till., sem Stéttarsamband bænda og Búnaðarþing höfðu gert, og áður en endanlega var gengið frá frv., var rætt við stjórn Stéttarsambands bænda, og vona ég, að ég fari ekki með rangt mál í því sambandi, þó að ég segi, að í öllum meginatriðum hafi forráðamenn bændasamtakanna talið, að þetta frv. væri viðhlítandi, eins og frá því er gengið í frv. er gert ráð fyrir því, að yfirleitt verði allir bændur á lögbýlum, með örfáum undantekningum, skyldaðir til þátttöku í sjóðnum, þannig að hér verði um skylduþátttöku að ræða, en ekki frjálsan lífeyrissjóð, og jafnframt verði heimilað að taka fastráðið starfsfólk við landbúnað í tölu sjóðfélaga.

Það var alveg sérstakt vandamál, sem reis varðandi Lífeyrissjóð bænda, þ. e. hvernig ætti að byggja upp iðgjaldagreiðslur til sjóðsins. Allir þeir sjóðir, sem hingað til hafa verið settir á laggirnar — þ. e. á því eru að vísu örfáar undantekningar, en það er kannske réttara að segja nær allir þeir sjóðir — eru þannig til komnir, að launþeginn greiðir ákveðinn hluta launa sinna, sem í flestum tilfellum er 4%, til sjóðsins, en vinnuveitandi greiðir á móti 6%. Ég sagði, að á þessu væru örfáar undantekningar, en það munu vera til einstaka sjóðir, þó að ekki séu þeir stórir, þar sem menn, sem vinna sjálfstætt, hafa byggt upp lífeyrissjóði og greiða þá að öllu leyti iðgjald til sjóðsins sjálfir. Varðandi bændur er sýnilega ekki um neinn vinnuveitanda í venjulegum skilningi þess orðs að ræða, og þá var spurningin sú, hvernig mætti finna grundvöll til þess að ákvarða iðgjaldagreiðslurnar og hver ætti hér að greiða á móti. Og sú aðferð hefur verið valin í þessu sambandi, sem ég hygg, að menn við nánari athugun geti fallizt á, að sé ekki óeðlileg, þ. e. að líta svo á, að það séu í raun og veru neytendurnir, sem séu vinnuveitendur bænda. Frv. er því þannig upp byggt, að bændur greiði af sínum eigin launum — eða það mundi reiknað þeim til frádráttar í launum þeirra í verðlagsgrundvelli búvöru — 4%, eins og launþegarnir greiða, og síðan komi til mótframlag, sem svari til 6%, þegar það kemur til fullra framkvæmda, og verði það lagt ofan á búvöruna. Má gera ráð fyrir, að útsöluverð hækki af þessum sökum um tæp 2%, en þessi hækkun kemur þó ekki að fullu fyrr en að þremur árum liðnum, því að það er gert ráð fyrir því í frv. að iðgjaldagreiðslur verði lægri fyrstu þrjú starfsár sjóðsins, og það er í samræmi við ákvæði, sem eru í l., sem sett voru til staðfestingar á samkomulagi verkalýðsfélaganna og vinnuveitenda um lífeyrissjóð fyrir verkalýðsfélögin.

Það er gert ráð fyrir því einnig í þessu frv., svo sem í l. um lífeyrissjóði verkalýðsfélaga, að það taki þegar gildi varðandi aldraða bændur eða þá, sem réttindi geti átt að hluta til strax eftir gildistökuna. Gildistakan er áætluð í frv. 1. jan. 1972, og með hliðsjón af þessu er ljóst, að það verður halli á sjóðnum um alllangt árabil, og er gert ráð fyrir því, að hann geti orðið allt til ársloka 1985. Gert er ráð fyrir því, að þessi halli verði borinn uppi að 2/5 hlutum af Stofnlánadeild landbúnaðarins og 3/5 hlutum af ríkissjóði, en það er þannig með sjóði stéttarfélaganna — verkalýðsfélaganna, svo sem kunnugt er, að þar tók ríkissjóður á sig að greiða hluta af halla sjóðsins fyrstu árin, en að öðru leyti er það Atvinnuleysistryggingasjóður, sem ber hallann af þeim sjóði.

Gert er ráð fyrir því varðandi þennan sjóð, að nokkur hluti af ráðstöfunarfé hans sé bundinn eða sem nemi um 25% af árlegum iðgjöldum og framlögum til sjóðsins og fái Stofnlánadeild landbúnaðarins rétt til lána að þessum hluta til. Þykir það sanngjarnt með hliðsjón af því, að Stofnlánadeildin á að bera halla af rekstri sjóðsins, svo sem ég áður gat um, og að auki er svo heimilt að veita eins og úr öðrum lífeyrissjóðum lán til íbúðabygginga fyrir sjóðfélaga gegn veðrétti í fasteigninni.

Ég held ekki, herra forseti, að það sé ástæða til þess að rekja nánara einstök atriði frv. Meginhluti þeirra er tæknilegs eðlis og er alveg í samræmi við þau ákvæði, sem gilda varðandi aðra lífeyrissjóði, og eru til nánari skilgreiningar á því, með hverjum hætti menn fá rétt til lífeyris úr sjóðnum, hvernig lífeyrisréttindi skuli reiknuð, um lífeyrisréttindi maka sjóðfélaga, ef sjóðfélagar falla frá o. s. frv., og tel ég ekki ástæðu til þess að tefja tíma hv. d. við að reka það mál allt saman í einstökum atriðum.

Ég vil að lokum aðeins skýra frá því, að snemma í vor var skipuð af hálfu fjmrn. n. til þess að kanna það, hvaða stéttir þjóðfélagsins byggju enn ekki við nein lífeyrisréttindi og með hvaða hætti auðið væri að koma á laggirnar lífeyrissjóðum fyrir þessar stéttir. Ég hygg, að það geti orðið um nokkra lífeyrissjóði að ræða og unnið verði þá eftir þeirri áætlun, sem þegar hefur verið gerð, þ. e. að mynda sérsjóði fyrir hina ýmsu starfshópa. Það getur vafalaust orðið ýmsum vandkvæðum bundið að finna gagnaðila til þess að greiða mótframlag til lífeyrissjóðsins — jafnvel erfiðara en það hefur reynzt hér í sambandi við bændastéttina. En þó hygg ég, að með því sé mörkuð nokkuð ákveðin stefna í því, hvernig hugsanlegt sé að leysa það vandamál og hver eigi að greiða mótframlög á móti framlögum viðkomandi sjóðfélaga. Ætlunin var sú, að að þessu máli yrði unnið nú í sumar, og hefur það nokkuð verið gert, en þetta er töluvert flókið mál, og hér er um fleira starfsfólk að ræða en jafnvel hefur verið reiknað með. En það verður unnið að því að móta þessi mál á þann hátt að lögfesta lífeyrissjóði fyrir aðrar stéttir, eftir því sem undirbúningi þeirra mála er þokað áfram, með þá meginstefnu í huga, að stofnaðir verði sem allra fljótast fyrir alla þjóðfélagsborgara sérsjóðir, sem veiti þeim lífeyrisréttindi, og síðan verði það vandamál skoðað ofan í kjölinn, hvernig auðið verði að samræma þetta mál allt með þeim hætti, að það geti fallið inn í viðhlítandi lífeyriskerfi fyrir landsmenn alla.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. þessu verði að lokinni umr. vísað til 2. umr., og ég hygg, að efni málsins samkvæmt ætti það að fara til fjhn., en tel þó a. m. k. álitamál, hvort ekki væri rétt, að það færi til landbn., vegna þess að þessu frv. fylgir annað frv., sem flutt er af hæstv. landbrh., þar sem um er að ræða nauðsynlegar breyt. á l. um Stofnlánadeild landbúnaðarins, og það gæti því eins komið til álita, að málið færi til landbn., ef mönnum sýndist svo. Þó að hér sé um lífeyrissjóðsmál að ræða, er hér að sjálfsögðu fyrst og fremst um hagsmunamál bænda að ræða, en hins vegar munu lífeyrissjóðsmálin almennt hafa verið í fjhn. Ég tel því ekki rétt á þessu stigi að gera ákveðna tillögu um það efni, en vildi gjarnan, ef fleiri töluðu hér, heyra skoðanir manna á því, í hvora n. eðlilegt væri, að málið færi, en að öðru leyti leggja það í vald forseta, til hvorrar n. hann teldi rétt, að málinu væri vísað.