22.10.1970
Efri deild: 4. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

6. mál, Lífeyrissjóður bænda

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég vildi þakka hæstv. fjmrh. fyrir það, að hann hefur lagt þetta frv. fram á hv. Alþ. Það má með sanni segja, að lífeyrissjóður hafi lengi verið óskadraumur bænda, og vonandi er, að þegar til framkvæmdanna kemur, verði þetta mál þannig vaxið, að bændur telji sig hafa mikið gagn af og ekki sízt bændur framtíðarinnar, því að eins verður það með þennan lífeyrissjóð og aðra, að það tekur sinn tíma að byggja hann upp þannig að hann geti sinnt þeim fyllstu skyldum, sem lífeyrissjóðir almennt gera, þegar þeim hefur vaxið fiskur um hrygg.

En frv. þetta um Lífeyrissjóð bænda er fyrst og fremst ávöxtur af frv. því, sem samið var af mþn., sem Búnaðarþing kaus 1969, og í þeirri n. áttu sæti Sigurður Líndal bóndi á Lækjamóti, sem bar þessa till. um Lífeyrissjóð bænda fram á Búnaðarþingi 1969, og með honum voru kosnir í n. þeir Gunnar Guðbjartsson, form. Stéttarsambands bænda, og Lárus Ágúst Gíslason, bóndi í Miðhúsum. Eftir að stéttarsambandsfundur hafði verið haldinn, var fjölgað í þessari nefnd, og kom þá Páll Diðriksson bóndi á Búrfelli í nefndina. Þessi nefnd gekk frá allítarlegu frv. ásamt grg., og er það frv. uppistaðan í því frv., sem hér er til umræðu á Alþ. En eins og hæstv. fjmrh. drap á, er við meiri vanda að etja, þegar stofna skal lífeyrissjóð bænda, en þegar stofna skal aðra lífeyrissjóði, þar sem um er að ræða atvinnurekendur og launþega. Það liggur nokkurn veginn ljóst fyrir þar, hver mótaðilinn er, en hér er það hins vegar ekki, þar sem um lífeyrissjóð bænda er að ræða. Þó held ég, að í meginatriðum í þessu frv. sé stuðzt við þau lög, sem til eru um lífeyrissjóði, og sömuleiðis höfðu þá nýlega verið gerðir samningar á milli Alþýðusambands Íslands um kaup og kjör og myndun lífeyrissjóðs fyrir verkamenn, og er einnig í þessu frv. stuðzt við þann lífeyrissjóð, sem nýlega hefur verið myndaður fyrir verkamenn.

En margt er og verður sameiginlegt um lífeyrissjóði, hver sem í hlut á, en sjóðsmyndanir hljóta alltaf að taka sinn tíma til að geta veitt full réttindi og ekki sízt hér á landi, þar sem taumlaus verðþensla hin síðari ár rýrir sparifé og alla sjóði mjög mikið með hverju ári, sem liður. En mér sýnist á frv. þessu, að ákvæði þessi um lífeyrissjóðsréttindi séu ekki mjög frábrugðin því, sem gerist í öðrum lífeyrissjóðum nema að því leyti, að yfirleitt mun það vera þannig í lífeyrissjóðum, að menn öðlast réttindi samkvæmt greiðslum, sem þeir inna af hendi. En hér gegnir öðru máli. Samkv. þessu frv. öðlast menn ekki réttindi í hlutfalli við þær greiðslur, sem þeir inna af hendi í lífeyrissjóðinn, vegna þess að hér er gert ráð fyrir svokölluðu stigakerfi, þannig að sá, sem hefur það litla framleiðslu, að hann innir ekki af hendi fulla greiðslu til sjóðsins, öðlast í raun og veru meiri réttindi en þær greiðslur segja til um, sem hann innir af hendi. Aftur á móti fær sá, sem hefur mikla framleiðslu eða er stórbóndi, eins og maður segir, stundum ekki réttindi í hlutfalli við það, sem hann greiðir í lífeyrissjóðinn. Þarna er um nokkurn jöfnuð að ræða til að brúa þann mikla aðstöðumun, sem er á milli einstakra bænda innan bændastéttarinnar. Ég vil, að það komi skýrt fram strax, að þetta er ósk bændanna sjálfra og þeirra samtaka, að það sé gerður þarna nokkur jöfnuður á milli, og hygg ég, að í tillögum bændafulltrúanna, sem áttu sæti í mþn., hafi verið gengið nokkru lengra í þessa jöfnunarátt en þetta frv. gerir þó ráð fyrir.

Það eru að sjálfsögðu ýmis ákvæði í þessu frv., sem eru óljós og þurfa mikillar athugunar við, og vil ég sérstaklega í því sambandi benda á 11. gr. frv., sem er mjög óljóst orðuð og þarf frekari skýringa við. En vafalaust er þarna um að ræða margt fleira, og ég get tekið það fram, að ég hef ekki ítarlega kynnt mér þetta frv., en við fljótan yfirlestur virðist vera ýmislegt, sem þarf að tilgreina nánara, og vera má, að það hafi verið hugmynd þeirra, sem sömdu frv., að reglugerðir kvæðu nánara á um það, sem mjög er óljóst í frv. sjálfu. En þó þarf að vera einhver fótur fyrir því, sem í reglugerð er sett; það þarf að vera stoð í lögunum sjálfum.

En það, sem ég vil aðallega gera hér að umræðuefni, er fjáröflun í Lífeyrissjóð bænda, og þar hljóta að gilda aðrar reglur en almennt um lífeyrissjóði, vegna þess að bændur eru hvort tveggja í raun og veru — atvinnurekendur og eigin verkamenn. Aðalreglan í lífeyrissjóðum er sú, að atvinnurekandinn borgar 6% af kaupi hlutaðeigandi aðila, en sá, sem á launum er, borgar 4%, þannig að 10% af launum renna í lífeyrissjóð, og eins og ég gat um áðan, er þetta auðvelt, þegar um tilgreinda atvinnurekendur er að ræða og starfsmenn hjá þeim. Ýmsar þjóðir, sem hafa komið sér upp lífeyrissjóðum undir svipuðum kringumstæðum og hér um ræðir, hafa mætt þessu misjafnlega, og vil ég benda á það, að t. d. Finnar, sem hafa stofnað lífeyrissjóð bænda, borga mótframlagið að mjög verulegu leyti úr ríkissjóði. En í frv. því, sem hér um ræðir, er samkv. 7. gr. frv. gert ráð fyrir, að kvæntur bóndi borgi 4% af hálfum öðrum launum samkv. verðlagsgrundvelli landbúnaðarvara næsta haust á undan. Og í grg. frv. frá s. l. vori á bls. 13 er gert ráð fyrir, að þessi meðallaun, sem þar um getur, séu 214 þús. kr. eða hálf önnur laun 321 þús. kr., og 4% af því mundu því vera 12.840 kr., eða nálægt 13 þús. kr., sem væri framlag hjónanna sjálfra í lífeyrissjóðinn. Og ef maður reiknar með þeim verðhækkunum, sem orðið hafa síðan, mundi þessi upphæð vera sem næst 15 þús. kr. á næsta ári eða 1971 eða sem næst um 20%, eins og verðlagsgrundvöllur hækkaði á s. l. ári. Iðgjöld skulu samkv. ákvæðum til bráðabirgða hækka úr einum fjórða á fyrsta ári í fullt iðgjald á fjórða ári, þannig að innan fjögurra ára frá því, að lífeyrissjóður hefur verið stofnaður, borga bændur fullt iðgjald í sjóðinn, eins og 7. gr. frv. gerir ráð fyrir.

Í grg. frv. í fyrra segir enn fremur, að full iðgjöld og mótframlög muni verða 90–100 millj. kr. á ári miðað við þágildandi verðlag. En ekki er ósennilegt miðað við núgildandi verðlag, að ársiðgjöld og mótframlög nemi 120 millj. kr. Þessi tala er að vísu ónákvæm og getur orðið mun hærri, en það er erfitt að reikna þetta nákvæmlega, vegna þess að það er margt, sem hefur þarna áhrif á, og reynslan ein sker úr um það, hvað mikið kann að falla til þessa sjóðs á ári hverju, þegar full iðgjöld renna til hans. Bæði eigið iðgjald og mótframlagið á að koma í lífeyrissjóð af búvöruverði. En ég hef dálítið um það hugsað, að ef til þess kæmi, að grundvallarverðið skilar sér ekki til bændanna, hver borgar þá mótframlagið í raun og veru? Og þetta hefur býsna oft komið fyrir, að bændur hafa ekki fengið fullt grundvallarverð fyrir sínar afurðir. En það er svo ráð fyrir gert, og í 7. gr. frv. segir, með leyfi forseta:

„Þeir aðilar, sem taka búvörur bænda til sölumeðferðar, svo sem mjólkurbú, sláturhús og verzlanir, skulu innheimta iðgjöld og framlög samkv. 1. og 3. mgr. eftir fyrirmælum sjóðsstjórnar, gera skil á heim til sjóðsins og sundurliða jafnframt eftir sjóðfélögum iðgjaldagreiðslur samkv. 1. mgr.

Þannig skilst mér, að það sé svo ráð fyrir gert, að bæði iðgjaldi bænda og mótframlaginu sé haldið eftir af verðlaginu. Og þegar verðið skilar sér ekki til bændanna sjálfra, þ. e. vörurnar seljast ekki fyrir fullt verð, hver borgar þá mótframlagið? Mér er spurn, og ég spyr þá, sem eru mér fróðari í þessum efnum: Eru það ekki bændurnir sjálfir, sem borga þá hvort tveggja? Það er mjög æskilegt, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, kanni þetta mál allítarlega, því að þetta er nokkuð stór liður í þessu máli.

Það þarf ekki hér að vekja athygli hv. þm. á efnahag bænda, né heldur á því, hversu tíðarfarið hefur leikið þá grátt og hve mikið hefur vantað á, að þeir hefðu það kaup fyrir vinnu sína, sem verðlagsgrundvöllur landbúnaðarvara reiknar með. Ég vildi í því sambandi minna á það, að í úrtaki Hagstofu Íslands á yfirstandandi ári yfir tekjur bænda 1969 kemur í ljós, að þeir hafa haft í kaup 149 þús. kr. á sama tíma og viðmiðunarstéttirnar, sem kaup bændanna er reiknað út frá, höfðu 277 þús. kr. Þeir höfðu 128 þús. kr. minna í árslaun en þeim bar samkv. verðlagsgrundveili árið 1969.

Það gefur auga leið, að þegar um er að ræða lífeyrissjóð fyrir bændur, verða vandamálin mörg, sem þarf að athuga og ekki eiga sinn líka, þegar um lífeyrissjóði annarra stétta er að ræða, og það vænti ég, að hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, íhugi gaumgæfilega.

Herra forseti. Ég vil að lokum undirstrika það, að ég tel það mikilvægt fyrir bændastéttina að fá lífeyrissjóð og njóta á því sviði þeirra réttinda, sem fjöldinn allur af þjóðinni nýtur í dag, og vonandi kemur öll þjóðin til með að njóta fullra lífeyrissjóðsréttinda, áður en langir tímar liða, og vart er annað sæmandi menningarríki en að gera þjóðfélagsþegnana jafna að þessu leyti til. Ég vil einnig minna á það, að þegar fjallað er um frv. þetta, þarf margs að gæta og vel um að búa, svo að mál þetta nái tilgangi sínum. En bezta leiðarvísinn í þessu máli tel ég vera þann, að frv. það, sem mþn. samdi á sínum tíma, verði gert að leiðarljósi, því að þar ætla ég, að sé komið inn á flest þau vandamál, sem ég hef drepið á, og ég held, að við yfirvegun málsins og samanburð á þessum tveimur frv. getum við með því að tileinka okkur í ríkara mæli það frv. lagað ýmsa agnúa, sem ég tel, að e. t. v. komi greinilega í ljós í því frv., sem hér liggur fyrir.

Ég vonast líka eftir því, að sú n., sem fær þetta mál, leiti umsagnar bændasamtakanna, þ. e. Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda um þetta frv. Ég ætla ekki að gera till. um, í hvaða n. þetta mál fer. En ég verð að taka undir orð hæstv. ráðh. með það, að ég tel ekki óviðeigandi, að landbn. þessarar d. fái málið, þar sem mér finnst, að það varði mun meira bændastétt landsins en það falli undir það, sem hægt er að segja, að séu almenn fjárhagsatriði, sem yfirleitt munu vera látin fara til umsagnar hv. fjhn.