19.11.1970
Efri deild: 19. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (485)

6. mál, Lífeyrissjóður bænda

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls lét ég í ljós álit mitt á frv. þessu jafnframt því, sem ég gat þess, að frv. þetta mundi þurfa mjög mikillar athugunar við. Þótt ég flytji enga brtt. við frv. nú, þá er það ekki vegna þess, að engu þurfi að breyta, heldur vegna hins, að það er svo margt, sem er samofið í frv., og sé einu atriði breytt, knýr það á um að breyta ýmsu öðru — nákvæmlega eins og hv. 5. þm. Sunnl. lýsti því í sinni framsöguræðu hér áðan. Þess vegna er það skoðun mín, að bezt sé á þessu stigi málsins, að lögfesta þetta frv. og breyta síðar l., eftir að reynsla er fengin á framkvæmd þeirra. Það virðist ekki vera reynt að sneiða hjá skriffinnskunni í frv., því að þar úir og grúir af greiðslum og endurgreiðslum og skráningu á gjaldendum, sem aldrei munu öðlast lífeyrisréttindi samkv. frv. þessu, en hafa smáinnlegg og eiga að fá endurgreidd þau gjöld, sem af þeim verða tekin.

Það, sem ég tel mikilsverðast í sambandi við þetta mál, eru þau réttindi, sem bændastéttin öðlast, er frv. þetta verður að l. — fyrst og fremst örorkubætur. Þegar heilsan bilar eða slys ber að höndum, þá eru greiðslur úr lífeyrissjóði mikils virði til að fleyta áfram heimili, sem annars væri engin von til, að gæti komizt af án hjálpar annars staðar að. Sama máli gegnir, þegar bóndinn eða húsfreyjan falla í valinn, þá skapar lífeyrissjóður meira fjárhagslegt öryggi en annars væri fyrir hendi. Og þegar þreyta og elli fara að gera vart við sig, er auðveldara fyrir hina öldnu, sem öðlast réttindi við 67 ára aldur, að hægja á sér við búskapinn og njóta meiri hvíldar en ella væri. Það er enginn vafi á, að þegar tímar líða, verða bændur einnig búnir að leggja drjúgan pening í lífeyrissjóð á langri starfsævi. Þá má einnig á það minna, að mjög trúlegt er það, að bændur fái aukin lán til framkvæmda úr lífeyrissjóðnum, t. d. til íbúðarhúsabygginga með meira. En það, sem eykur erfiðleika margra bænda nú, er það, hve öll framkvæmdalán eru lítil miðað við kostnað, og þess vegna er lausaskuldasöfnun hjá þeim mikil. Hér er stiklað á stóru varðandi þau réttindi, sem bændur öðlast við myndun lífeyrissjóðs.

Sú sérstaða er hér um lífeyrisréttindin, að þau eru jöfnuð. að nokkru, þannig að sá bóndi, sem framleiðir minna en meðalbóndinn, fær hlutfallslega meiri réttindi miðað við það, sem hann hefur greitt í lífeyrissjóð, en sá, sem hefur meiri framleiðslu, en meðalbúið fær hlutfallslega minni réttindi en framleiðslumagn þess segir til um — það verður jafnað á milli með því stigakerfi, sem frv. gerir ráð fyrir. Þessi jöfnuður er gerður að ósk bændasamtakanna. Mikill meiri hluti þeirra bænda, sem um þetta mál hafa fjallað, eru þessu fylgjandi. Bændurnir eru félagshyggjumenn, sem á mörgum sviðum hafa byggt sinn félagsskap á því að greiða götu hver annars. Það nægir í því sambandi að minna á samvinnufélögin og búnaðarfélögin, sem hafa fleytt mörgum þeim, sem minna máttu sín, yfir örðugan hjalla á lífsleiðinni.

Um leið og maður hugleiðir þau réttindi, sem í frv. þessu felast, kemst maður ekki hjá því heldur að gera sér grein fyrir því, að réttindi þessi öðlast bændur með þeim fjármunum, sem þeir leggja fram ásamt því mótframlagi, sem á að innheimta af búvöruverði. Samkv. ákvæði því til bráðabirgða, sem fylgir frv. þessu, inna bændur af hendi fulla lífeyrisgreiðslu frá og með ársbyrjun 1974, en iðgjaldið, sem þeir eiga að greiða, hækkar í áföngum og er komið í hámark á fjórða ári frá stofnun lífeyrissjóðsins eða í ársbyrjun 1974. Sérstakar greiðslur frá Stofnlánadeild landbúnaðarins og ríkissjóði eiga að veita þeim réttindi, sem þegar eru orðnir 70 ára og verða það næstu árin og hafa hætt búskap, og innir stofnlánadeildin og ríkissjóður greiðslur af hendi í þessu skyni til þessara aðila til ársloka 1985. En eftir að 15 ár eru liðin frá því, að Lífeyrissjóður bænda er stofnaður, á hann að vera þess megnugur að standa undir öllum þeim skyldum, sem á hann eru lagðar. Mér er það ljóst, að það verður mörgum bóndanum erfitt fjárhagslega að borga í lífeyrissjóð nema því aðeins að geta létt af sér gjöldum á öðrum sviðum, og minna vil ég á það í þessu sambandi, að bændahallargjaldið er þegar niður fallið, en það hrekkur skammt upp í lífeyrissjóðsgjaldið.

Hins vegar liggur hér fyrir hv. Alþ. frv. til l. um breyt. á l. um Stofnlánadeild landbúnaðarins með meira um að fella niður þetta gjald á 20 árum, sem bændur hafa greitt nú frá árinu 1962, að ég ætla. Þessi tími er of langur. Það þarf að létta þessum skatti af bændum á skemmri tíma, og kem ég nánara inn á það mál, er það verður hér til umr., áður en langir tímar liða. En þessa vildi ég geta hér nú af því, að þessi mál eru nátengd og bæði ætluð til að standa straum af fjárhagslegu öryggi lífeyrisréttinda bænda.

Það er trú mín, að í framtíðinni hafi bændur sjálfir ráð yfir lífeyrissjóðnum og Stofnlánadeild landbúnaðarins og það fjármagn, sem þar til fellur, megi verða bændastéttinni styrkur og stoð í allri uppbyggingu. Stofnun Lífeyrissjóðs bænda er stórt spor í áttina til þess, að landsmenn allir megi búa við sömu kjör á þessu sviði, og það er ósk mín, að þess verði skammt að bíða, að þeim áfanga verði náð, að til sé lífeyrissjóður, sem allir landsmenn hafa aðgang að.

Herra forseti. Ég hef í stórum dráttum gert grein fyrir afstöðu minni til þessa frv. Ég mun fylgja því, þótt mér sé ljóst, að það þurfi ýmissa breytinga við, sem munu koma betur í ljós, þegar til framkvæmdanna kemur, og þá ber að taka afstöðu til málsins á nýjan leik.