30.11.1970
Neðri deild: 25. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

6. mál, Lífeyrissjóður bænda

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég mun ekki tala langt mál nú, þar sem ég á sæti í þeirri hv. n., sem þetta mál mun fara til. En hins vegar vil ég ekki láta það hjá líða að fagna því, að þetta mál skuli vera þó komið á það stig, að við eygjum það, bændur, að þetta verði lögfest á þessu þingi. Þetta er gamalt baráttumál bændastéttarinnar, sem hefur staðið yfir í rúman áratug. Hins vegar vil ég líka taka það fram í þessu sambandi, að það er ýmislegt, sem ég tel þó, að þurfi að athuga. Jafnvel þó að þetta frv. verði lögfest nú í því formi, sem það liggur fyrir, þá mun ekki verða hægt að komast hjá því að taka það upp strax á næsta þingi til athugunar, og þar á ég fyrst og fremst við það, að frv. gerir ráð fyrir því, að bændur greiði 4% af hinum tryggðu tekjum, sem eru langt fram yfir það, sem þeirra tekjur í raun og veru eru. Þannig að ef við miðum við það, sem hefur verið, þá er þetta ekki 4%, sem þeir mundu borga, heldur miklu fremur 8% af hinum raunverulegu nettótekjum. Og þar sem hér er einnig um að ræða annað frv., sem er nokkurs konar fylgifrv., um stofnlánasjóðsgjaldið og þar sem það gjald á ekki að lækka fyrr en á árinu 1976, þá mundu bæði gjöldin hvíla af fullum þunga á bændum í tvö ár, þ. e. 1974 og 1975 —lífeyrissjóðsgreiðslan er komin alveg á af fullum þunga 1974. Og ef þetta verður þannig, að munurinn verður jafnmikill á hinum raunverulegu tekjum bændastéttarinnar og þeim tekjum, sem þeim er ætlað að hafa eða aðrir hafa, þá sjá allir, að þetta verður það mikil byrði, að það verður að finna einhverja leið til þess að losa þá við eitthvað af þessum greiðslum.

Þá komum við að öðru atriði í þessu sambandi, sem bændurnir hafa lagt áherzlu á, og það er það, að stofnlánasjóðsgjaldið sé fellt niður á þessu tímabili, þ. e. á þessum fjórum árum, og það væri náttúrlega annað mál. En ef við förum að athuga aftur hvernig Stofnlánasjóður landbúnaðarins stendur og hvernig þróunin hefur verið, þá sjáum við það, að með þeim greiðslum, sem honum er nú ætlað að inna af hendi, eins og hæstv. fjmrh. sagði áðan á þessum næstu 15 árum, þá lítur þetta dæmi ekki nógu vel út. Ég vil bara minna á það, að þegar hæstv. ríkisstj. komst til valda, þá var það þannig, að í árslok 1958 átti Ræktunarsjóður 61.7 millj. kr. og Byggingarsjóður 43.4 millj. kr. eða samtals rúmar 105 millj. kr. En í árslok 1969 á Stofnlánasjóður landbúnaðarins, sem er nú samsettur af þessum tveimur sjóðum, tæpar 125 millj. kr. En á þessu tímabili hafa bændurnir með sínu stofnlánasjóðsgjaldi greitt um 100 millj. kr., þannig að staða stofnlánadeildarinnar í krónutölu er nú ekki nema tæpum 20 millj. kr. skárri en hún var, þegar stjórnin kom til valda, og ég sé ekki betur en efnahagslíf okkar sé nú þannig, að ekki sé annað líklegt en komið geti nýir skellir á stofnlánadeildina, vegna þess að enn þá eru erlend lán, sem hvíla á henni, 38% af heildarlánum deildarinnar. En þegar maður athugar þetta allt saman, þá er ekki hægt að sjá það, að það verði svo gott við þetta mál að eiga, en hins vegar er það ljóst, að bændur geta ekki innt þessar greiðslur af hendi, nema það verði séð til þess, að þeir fái meiri tekjur en þeir hafa haft á undanförnum árum miðað við aðrar stéttir þjóðfélagsins.

Og því segi ég það, að ég geri ekki ráð fyrir því, að ég muni koma fram með brtt. í þetta sinn, vegna þess að ég vil ekki hefta framgang þessa máls, en hins vegar er mér ljóst, að ef ekki verður stefnubreyting í þessu máli, þá verður ekki um flúið að taka þetta mál til meðferðar strax á næsta þingi, hvaða leiðir sem verða þá farnar. Ég mun að sjálfsögðu ræða þetta mál betur við 2. umr., en ég taldi rétt, að þetta kæmi fram nú, og það væri gott, ef hæstv. fjmrh., sem leggur þetta mál nú fyrir, athugaði það, hvort hann sæi einhverjar leiðir til þess að breyta þessu, því að það verður ekki gert öðruvísi en í samráði við hæstv. ríkisstj. Ég mun standa að lögfestingu þessa frv. eins og ég sagði áður, þó að mér sé ljóst, að það getur ekki staðið lengi óbreytt, í von um það, að á næsta ári eða næsta þingi verði meiri hl. Alþ. þannig skipaður, að það hafi meiri skilning á þessum málum en er í dag.