30.11.1970
Neðri deild: 25. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (495)

6. mál, Lífeyrissjóður bænda

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ætlunin er ekki að gera aths. við neitt af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Það er vafalaust rétt, að það muni koma að því, að það muni þurfa að endurskoða þetta frv. eða þessi l. seinna. Það eru ýmis atriði þar, eins og ég gat um, sem eru með nýjum hætti, og ég tek undir það með honum, að vandamál Stofnlánadeildar landbúnaðarins er vissulega mikið. Það má þá jafnframt að vísu segja sem svo, að það mun verða erfitt um vik að afnema gjald, sem fer til hennar núna nema þá með því að sjá fyrir því með einhverjum öðrum hætti. Það mál er hér ekki beint á dagskrá, svo að ég skal ekki út í þá sálma fara. En það, sem er eiginlega ástæðan til þess, að ég kom hér upp, var það að breyta till. minni frá því, sem ég gerði áðan varðandi n. Ástæðan til þess, að ég lagði til, að málinu yrði vísað til fjhn., var sú, að frv. var flutt hér á síðasta þingi af hv. fjhn., en það hefur verið til meðferðar í Ed. í hv. landbn. Lífeyrissjóðamálið er að vísu fjhn.-mál út af fyrir sig, en hér er mál, sem snertir líka Stofnlánadeild landbúnaðarins, og það frv. mun koma til landbn., og er því æskilegt, að bæði málin séu í sömu n. Þess vegna vildi ég leggja til, að frv. verði vísað til hv. landbn.