14.12.1970
Neðri deild: 30. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

6. mál, Lífeyrissjóður bænda

Frsm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Frv. þetta um Lífeyrissjóð bænda er flutt af hæstv. ríkisstj. og hefur verið samþ. í Ed. Um það má segja, að það hefur verið mjög vandlega undirbúið af n., sem hæstv. landbrh. skipaði hinn 12. jan. s. l., en formaður þeirrar n. var Guðjón Hansen tryggingafræðingur. Sú n. fékk til meðferðar drög að frv., sem önnur n. skipuð af Búnaðarþingi og stjórn Stéttarsambands bænda hafði samið. Þetta mál er yfirgripsmikið og að mörgu leyti vandasamt. En það má segja, að mikil samstaða hafi náðst um það form, sem hér er valið til að ákveða iðgjöld til trygginganna, en það er að taka þau af söluverði á búvöruframleiðslunni. Það verður heldur ekki séð í fljótu bragði, að annað form hefði verið framkvæmanlegt eða a. m. k. eðlilegra til að ákveða iðgjöldin eftir. En í þessu felst, að það verður meiri félagslegur svipur á lífeyristryggingum bænda en segja má, að sé á hliðstæðum tryggingum í lífeyrissjóðum. Málið allt er þannig vaxið, að það hljóta að koma í ljós ýmis atriði, sem breyta þarf og bæta, þegar framkvæmd þessa máls er hafin. Þess vegna er mikilvægt, að þessi lög komist sem fyrst í framkvæmd, enda er gert ráð fyrir því í þessu frv., að sjóðurinn taki til starfa frá næstu áramótum 1. jan. 1971, þegar 8. tugur 20. aldar hefst. Hér er um verulega söfnun, árlega söfnun fjár, að ræða, og það er gert ráð fyrir því í aths. við frv., að þetta geti numið 90–100 millj. kr. árlega, þegar l. eru komin til fullra framkvæmda. Er þá miðað við síðasta verðlagsár landbúnaðarins, en mundi vera nokkru hærra miðað við það verðlag, sem gildir nú. Ég vil vekja athygli á því, að óhætt er að segja, að það hafi ríkt harðæri í landbúnaði hér mestan hluta þessa áratugs — harðæri í árferði miðað við það árferði, sem framfaraskeið okkar frá því laust eftir 1920 og fram um 1960 einkenndist af. Og ég vil bara nefna sem dæmi, að ég heyrði nýlega sagt frá, að það væri nú orðið ekki óalgengt að finna 2–3 klakalög í jörðu. Þetta var óþekkt með öllu á því 40 ára tímabili, sem ég var áðan að vitna til — þess veðurfarslega góðviðrisskeiðs, sem framfarasaga okkar gerist mest á. En það er augljóst mál, að árferðisáhrifin eru ákaflega mikil á fjárhagsafkomuna og ekki sízt eða fyrst og fremst kannske hjá landbúnaðinum. Þess vegna er það alveg ljóst, að það verður mörgum erfitt að hefja lífeyristryggingar um þessar mundir. En ég hef nú verið að hugleiða það, að líklega eru bezt skilyrði til að byggja til framtíðar, þegar á móti blæs. Ég vil aðeins minna á það, að í einhverjum mestu harðærum, sem yfir þetta land hafa gengið, kringum 1880 og síðustu ár síðustu aldar var grunnur byggður að ýmsu í landbúnaði, sem hefur skipt sköpum o orðið bændastétt og þjóðinni til mikilla heilla. Ég er sannfærður um, að með lögfestingu þessa frv. eru stigin farsæl spor og ákvarðanir teknar, sem síðar verða taldar með hinum merkari fyrir bændafólk í landinu.

Ég vil að lokum aðeins minnast á eitt atriði, sem nokkuð kom til umr. í landbn. Nd., sem hafði þetta mál til athugunar á tveimur fundum, og það snertir aldraða bændur, sem t. d. nýlega eru hættir, eru fluttir í þéttbýlið fyrir örfáum árum, fá þar ekki rétt samkv. l. um eftirlaun aldraðra í stéttarfélögum og verða þannig sem sé á milli, ef svo mætti segja, án réttinda. Þetta atriði þarf að hugleiða og leita eftir úrræðum til að ráða þarna á einhverja bót, og í trausti þess, að það verði meðal þeirra atriða, sem sérstaklega verður gefinn gaumur, þegar þetta mál kemst til framkvæmda, þá leggur n. til, eins og fram kemur í áliti hennar á þskj. 218, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og það liggur hér fyrir komið frá Ed.