15.12.1970
Neðri deild: 33. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

6. mál, Lífeyrissjóður bænda

Frsm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Mér þykir rétt að segja nokkur orð í tilefni af ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. hér við 2. umr. málsins, þar sem hann vitnaði í samþykkt frá Stéttarsambandi bænda frá aðalfundinum 1969 — las hana reyndar upp, svo að það fór ekkert á milli mála, en lagði að vísu út af henni, sem kannske gæti orðið meiri ágreiningur um. En vegna þess að ég hef hér í höndum bréf frá stéttarsambandinu til Alþ. með samþykkt frá síðasta aðalfundi stéttarsambandsins, en þetta bréf barst til landbn. hv. Ed., á meðan málið lá þar fyrir, þykir mér rétt út af ræðu hv. þm. sérstaklega, að þetta bréf, sem er mjög stutt, verði bókað í þingtíðindum, og þess vegna vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa það hér. Bréfið er dagsett í Reykjavík 16/9:

„Á aðalfundi Stéttarsambands bænda, 29.—31. ágúst 1970, var samþykkt eftirfarandi tillaga: Aðalfundur Stéttarsambands bænda 1970 lýsir stuðningi við frv. það um Lífeyrissjóð bænda, sem fram kom á síðasta Alþ. Jafnframt skorar fundurinn á löggjafarvaldið að hraða samþykkt frv., svo að lífeyrissjóðurinn gæti tekið til starfa um næstu áramót, enda treystir fundurinn því, að stofnlánadeildargjaldið verði fellt niður í áföngum.

Virðingarfyllst,

f. h. Stéttarsambands bænda,

Gunnar Guðbjartsson,

Árni Jónasson.“

Ég þarf ekki að láta nein orð fylgja þessu. Þetta er alveg skýrt og eindregið, en eins og ég sagði, kann ég betur við, að þetta standi í þingtíðindum.