15.12.1970
Neðri deild: 33. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (504)

6. mál, Lífeyrissjóður bænda

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég var aldrei í vafa um, að þetta hefði verið samþykkt á stéttarsambandsfundi. Það tók ég fram í ræðu minni í gær, að það mundi hafa verið gert, og efaðist ekkert um það, að frv. var borið þar upp, lesið þar upp og samþykkt. En ég tók það líka fram, að þeir hefðu orðið að hafa meira en mannlegt vit, ef þeir hefðu skilið frv., þó að það væri einu sinni lesið upp. Ég veit það líka — og á fundinum árið áður kemur það fram — að þeir ætlast til, að stofnlánadeildarframlagið falli niður og einmitt sú prósenta sé notuð sem þeirra framlag í Lífeyrissjóð bænda. Þetta kemur fram í till. Mér virðist það felast í till., sem ég las hér upp í gær. Það má segja, að það hefði ekki verið athugavert, ef framlag bænda hefði ekki verið meira.

Ég skal ekkert fullyrða um það, hvort þeim fulltrúum, sem voru á stéttarsambandsfundinum, hafi verið sent þetta frv. heim til athugunar en ég hefði ekki getað skilið frv., ef ég hefði ekki farið til mannsins, sem samdi það. Og ég hef ekki rekizt á aðra, sem hafa skilið það til fulls. Ég hef ekki rætt það við alla, en þeim fáu sem ég hef rætt það við, hafa ekki verið ljós öll atriði frv., það er torskilið. Og ég hygg, að m. a. s. í framkvæmd verði deilt um ýmis atriði í því. Tryggingamálin eru ekki auðveld mál og engan veginn eðlilegt, að menn átti sig á því, þó að þeir heyri slík frv. lesin upp einu sinni. Þess vegna þýðir ekkert fyrir okkur að ætla að skella allri ábyrgðinni á fulltrúa á stéttarsambandsfundinum. Í raun og veru er ég ekkert að álasa þeim. Þeir hafa vafalaust gert þetta allt saman í góðri meiningu. En frv. er þannig, að ég álít það vera illframkvæmanlegt og ekki skynsamlegt.

Það er t. d. eitt í þessu blessaða frv., að fyrst á að taka jafna prósentu af öllu, síðan á að reikna það út, hvað hverjum ber, skilst mér, og ef einhver hefur borgað meira en sem svarar 50% fram yfir vísitölubú, þá á að skila þeim aurum aftur. Hve mikil vinna er nú við þetta allt saman? Og svo á að taka þetta af afurðum bænda. Þetta þekkist hvergi í heiminum.

Mín hugmynd er einföld. Ég vil lofa þeim bændum að stofna lífeyrissjóð, sem vilja það. Þeir borga bara sitt framlag. Það má vera dálítið rúmt, hversu hátt menn óska eftir að tryggja sig í ellinni; það má vera alveg frjálst eða eitthvert visst lágmark og visst hámark. Svo borga menn sitt tillag, og ríkið borgar svo á móti. Kaupmenn hafa sagt mér það, að þeir bíði bara eftir, að þetta frv. sé samþykkt næsta verk þeirra sé að fara fram á að fá hliðstæðan lífeyrissjóð fyrir sig. Ætli þetta geti ekki orðið dálítið kátlegt, ef allir, sem hafa vinnu — byggingameistarar, málarameistarar og öll hjörðin — koma og heimta eins og bændur að leggja þetta á vinnuna. Ekki held ég, að það lækki vísitöluna.

Nei, þarna er farin leið, sem er í raun og veru alveg óhæf. En ef lífeyrissjóðurinn væri byggður upp eins og venjulegir lífeyrissjóðir, þ. e. að menn legðu eitthvað ákveðið fram og svo annar aðili á móti; það væri allt annars eðlis. Því fylgdi miklu minni vinna, og ef það væri ekki nein skyldukvöð, þá væru ungir bændur ekki neyddir til þess að fórna sínu takmarkaða rekstrarfé í þetta. Það væri allt annar hlutur. Það hefði enginn neitt út á það að setja, ef þetta væri frjálst. Þó tekur út yfir að vaða í afurðir manna og taka ákveðnar prósentur, sem einhver sjóðsstjórn samþykkir. Það eru líkur til, að þetta verði svona 4% af brúttóinnleggi hvers bónda. Hitt atriðið að halda, að það sé hægt að láta neytendur borga, er fáránlegur hlutur. Við vissum allir, að áður en þessar kosninganiðurgreiðslur komu, seldust eiginlega alls ekki ostar, sáralítið af smjöri og kjötið dræmt. Fjöldi af fólki var farinn að borða smjörlíki, og það er hættulegt fyrir bændur, ef á að venja fólkið af að borða landbúnaðarafurðir vegna þess, hve þær eru dýrar — og svo á að bæta þessu ofan á. Ég er ekki að deila á framleiðsluráð fyrir þetta. Bændum veitir ekkert af þessu.

Það eru mörg ár, síðan það kom fram frumvarp um að fella söluskatt niður af smjöri og kjöti. Við Jón Skaftason fluttum það. Síðar hafa aðrir flutt það frv. og bætt fleiri liðum við. Ég álít rangt að leggja söluskatt á niðurgreiddar vörur. Hitt er mér ljóst, að það er ekki hægt að taka margar vörutegundir og fella niður af þeim söluskatt. Það verður einhvers staðar að fá tekjur á móti eða lækka útgjöld ríkisins. Við getum eigi endalaust hækkað neyzluvörur fólksins. Það er takmörkuð kaupgeta, og fólk leitar að þeirri vöru, sem hagkvæmast er að kaupa. Ef matvörutegundir eins og smjör og kjöt og annað, sem við framleiðum, fer að verða óeðlilega dýrt, þá dregur það úr sölunni, og við venjum fólkið meira og minna af að borða landbúnaðarvörur. Það var fjöldi fólks farinn að borða smjörlíki af sparnaði. Og hvað ætli það væru margir, sem keyptu smjörið nú, ef það væri ekki niðurgreitt? Það væri takmarkaður hópur. Við skulum ekki vera að blekkja okkur á því, að þetta sé hægt. Ég hef ekkert á móti lífeyrissjóði, en ég vil engar þvinganir, og ég vil, að hver borgi það, sem hann telur sig geta borgað, og fái þá framlag á móti eftir einhverjum leiðum. Svo jaðrar það við hreinan þjófnað að taka vissan hluta af þeim, sem mest borga. Ég veit ekki, hvort þetta er hægt með lögum, en þetta er út af fyrir sig stjórnarskrárbrot að mínu áliti. Þetta á sér ekki stað í verkalýðsfélögunum samkv. hinu nýja kerfi. Ég veit a. m. k. ekki til þess.

Til viðbótar við þetta er starfsemi lífeyrissjóða gerð óhæf með því að vera alltaf að fella gengið, og þess vegna eru þessir gömlu lífeyrissjóðir lamaðir. Það er ekkert að marka með ríkisstarfsmennina. Þeir fá það, sem þeim ber, því að ríkið borgar það, sem á vantar, til þess að þeir fái það, sem ákveðið er í l. En þarna er ekki því til að dreifa auk þess, sem þarna er dregið stórfé úr vasa bænda, sem ég álít, að þeir megi ekki missa.

Ég er ekkert að álasa stéttarsambandsfulltrúum. Þeim hefur ekki gengið nema gott til. En það ólánlega og leiðinlega við þetta allt saman er, að sennilega er það þetta 1%, sem stofnlánadeildin fær, sem kallar þessa plágu yfir okkur. Það má vel vera, að það hefði verið réttara að lána bændum öllum með gengisáhættu — a. m. k. að einhverju leyti — sem svaraði því erlenda fé, sem var tekið að láni á hverjum tíma. Hinu getum við ekki neitað, að við, sem fengum ógengistryggðu lánin, sluppum þarna við greiðslur, og eins og ég hef tekið fram við ýmis tækifæri, þá hef ég frá minni hlið aldrei séð eftir þessu 1% í stofnlánadeildina. Þar með er ekki sagt, að þetta þyrfti að vera lengur en meðan við borguðum gengistöpin og mynduðum dálitla sjóði. En það hefur verið rekinn áróður á móti þessu framlagi. Þarna vorum við í raun og veru að borga það, sem við græddum á því, að hafa ógengistryggð lán, þó að það kæmi ekki til réttra aðila í hvert skipti, þannig að við þurftum ekki að telja þetta gjald eftir. Það má deila um, hvort við áttum að byggja þessa bændahöll. Ég vildi byggja yfir skrifstofurnar, en deila má um hvort við áttum að byggja hótelið, og nauðsyn var það ekki. Það var hæ t að fá einhverja aðra aðila til að gera það.

Ég fékk aðfinnslur hjá hv. 5. þm. Austf. um daginn, að mér skildist. Ég held, að orsökin hafi verið, að ég minntist á, að stéttarsambandið tæki meira en það þyrfti. Ég hef athugað reikninga stéttarsambandsins. Það innheimti 5 millj. kr., en eyddi 2 millj., og þurfti ekki að eyða svo miklu. Þó vil ég taka það fram, að Sæmundur Friðriksson fer vel með fé. Tveir fundir voru haldnir, sem ekki var brýn ástæða til og gefnar gjafir, en látum það vera.

Stéttarsambandið þurfti 2 millj., en tók 5 millj., en næst verða það 7 millj., því að verðlag hækkar, þó ekki þurfi að eyða nema 2 millj. Þetta er ef til vill ekki neitt til að deila um, en mér finnst, að bændafulltrúarnir ættu að ganga á undan og vera ekki að taka af okkur meira fé en þarf, en þá gætu þeir komið á eftir og rifizt út af þessu stofnlánasjóðsgjaldi í Búnaðarbankann. En það er bara ekki búið að lækka það, og það getur ýmislegt breytzt þangað til 1980. Við verðum þá komnir undir græna torfu, þannig að ég sé ekki, hve mikið við vinnum við það að koma lögum um þá lækkun fram, þegar þau eiga fyrst að byrja að taka gildi 1976. Það getur margt breytzt þangað til.

Annars hef ég ekki miklu við þetta að bæta. Í raun og veru er það hið óstöðuga gengi, sem veldur því, að lífeyrissjóðir eru í raun og veru óstarfhæfir. Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna er starfhæfur af því, að ríkið borgar hallann. Það liggur alls ekki fyrir hér. Þarna er verið að taka stórfé af bændum og leggja í sjóð, og við höfum enga tryggingu fyrir því, að verðgildi þess haldist, og tökum því miklu meira fé af bændum en þörf væri á, ef gengið væri öruggt, og tökum af þeim fé á því tímabili, sem þeir mega ekki missa það. Ég er ánægður að standa einn við atkvgr. í þessu máli. Ég hef ekki annað sagt í þessu máli en það, sem ég álít, að sé satt og rétt. Þið um það hvaða afstöðu þið takið, ég get ekki við það ráðið. Ég hef varað við þessu, og betur get ég ekki gert. Ég ætla að biðja um nafnakall, svo að þeir hafi heiðurinn, sem hann ber. Ég tel það enga afsökun, þó að menn segi að lögunum megi breyta. Það er engin afsökun að samþykkja vitlaus lög og ranglát og segja svo, að það sé hægt að breyta þeim. Það er vitanlega hægt að breyta öllum lögum, en við eigum að taka afstöðu til málsins, eins og það liggur fyrir. Ég hef ekki heyrt það á einum einasta bónda, að hann hefði áhuga á þessu máli. Það er eins og oft gerist á fundunum, að menn þurfa að finna upp á einhverju. Það er það hættulega við alla fundi og öll þing. Menn vilja eitthvað gera, en það er miklu betra að gera ekki neitt en að gera vitleysu. Það eru ekki vitlausustu mennirnir, sem gera lítið. Hættulegast er að gera mikið og gera vitleysur.

Ég kem ekki með brtt. við frv., því að það er tilgangslaust. Það verður að gerbreyta öllu frv. Þó að það væri farið að koma með einhverja brtt., þá er það ekki nægilegt. Ég get alls ekki fallizt á þetta frv. Það þekkist hvergi í heiminum að taka lífeyrissjóðsgjald af afurðum bænda; það þekkist hvergi. Og það er hættuleg leið að taka vissar prósentur af brúttótekjum hvers einstaklings til einhverra sjóðmyndana, sem eru þó ekki varðveittir betur en gert er hér á Íslandi. Ég efast um, að bændur hafi nokkur efni á því að leggja í sjóði, sem eru svo gerðir verðlausir — taka af sínu takmarkaða rekstrarfé, sem undantekningarlítið er of lítið, því að það eru tiltölulega fáir bændur í landinu, sem ekki líða fyrir það, hvað þeir hafa lítið rekstrarfé, meðan þeir stunda búskap. Það má raunar segja um fleiri atvinnurekendur, sem eðlilegt er. Meðan verðþróunin er þannig, að alltaf þarf fleiri og fleiri krónur til að reka atvinnuna, þá er ekkert óeðlilegt, þó að menn skorti rekstrarfé.