15.12.1970
Neðri deild: 33. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (505)

6. mál, Lífeyrissjóður bænda

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að tefja þessar umr. lengi, en vildi þó fá að segja örfá orð um það mál, sem hér liggur fyrir. Það er orðin nokkuð löng forsaga að þessu máli, og má segja, að hún byrji strax, þegar aðrar stéttir þjóðfélagsins tóku að mynda sína lífeyrissjóði. Þeim hefur fjölgað jafnt og þétt, og þeir hafa yfirleitt verið byggðir þannig upp, eins og mönnum er kunnugt, að annars vegar leggja sjóðfélagar fram fé, en hins vegar koma til mótframlög frá öðrum aðilum — atvinnurekendum — á móti launþegunum og frá ríkissjóði; þannig hafa þessir sjóðir orðið til. Það er nokkuð langt, síðan bændasamtökin tóku að velta fyrir sér með hverjum hætti væri mögulegt að koma á hliðstæðum tryggingum fyrir íslenzka bændur og félagar ýmissa lífeyrissjóða höfðu. Á fundum bændasamtakanna voru gerðar samþykktir um þetta mál, og þær hnigu í þá átt í fyrstu að stofna skyldi einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Nú skal ég ekkert fullyrða um það hér, hvort þetta hafi verið rétt stefna, en ég álít þó, að það væri æskilegt, að þessir lífeyrissjóðir væru færri en þeir eru. Ég skal ekkert fullyrða um, hvort það hafi verið rétt stefna út af fyrir sig að hafa sjóðina marga eða hvort það eigi að framkvæma þá stefnu, að stofna einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. En þetta var viðhorfið í bændasamtökunum á sínum tíma, og raunar mun hafa komið víðar fram sá vilji að leysa lífeyristryggingarnar á þennan hátt.

Síðan gerðist það nú fyrir skömmu, að það má segja, að endanlega hafi verið frá þessu horfið, þegar gengið var í það að stofna nýja lífeyrissjóði fyrir mjög fjölmennar atvinnustéttir í landinu. Mátti þá segja, að ekki vantaði mikið á, að allir landsmenn væru komnir í lífeyrissjóðakerfin aðrir en bændastéttin. Og það er þá, sem bændasamtökin taka þá stefnu að beita sér fyrir því að stofna sérstakan lífeyrissjóð fyrir bændur. Þetta mál hefur mikið verið rætt á landsfundum bændasamtakanna, bæði í Stéttarsambandi bænda, á búnaðarþingum, einnig á héraðsfundum búnaðarsamtakanna og víða í smærri einingum þ. e. í búnaðarfélögum hreppanna, sem bæði stéttarsambandið og Búnaðarþing eru með vissum hætti sprottin upp af. Auk þessara almennu umræðna og almennu samþykkta, sem gerðar hafa verið á landsfundum, þá voru nefndir settar á milli funda bæði af hálfu Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands, og þær unnu að því að móta stefnu bændanna í þessum málum á milli landsfunda. Þær skiluðu síðan frá sér áliti, og það var svo til meðferðar hjá stjórnskipaðri nefnd, sem starfaði undir forystu tryggingafræðings, en í þá nefnd var m. a. skipaður formaður Stéttarsambands bænda. Eins og reyndar þegar hefur komið fram í þeim fáu orðum, sem ég hef sagt, þá er að því stefnt með þessu af hálfu bændasamtakanna, að bændur fái notið trygginga, sem eru hliðstæðar tryggingum annarra stétta og þar með hliðstæðra réttinda. Og það þarf vitanlega ekki að vera að rifja það upp hér, að þar er um að ræða lífeyristryggingu á efri árum og tryggingu við örorku o. s. frv.

Auk þess gerist svo það við þessar tryggingar, eins og allar aðrar tryggingar, að þarna verður myndun fjármuna, sem auðvitað yrði að lána út fyrst og fremst í þágu sjóðfélaganna sjálfra, eins og venja er með aðra lífeyrissjóði. Þarna gerist það enn fremur, að stofnlánasjóðsgjaldið leggst niður sem slíkt og rennur til þessara trygginga. Og þarna gerist enn fremur það sama og á sér stað um aðra lífeyrissjóði, að verulegir fjármunir koma frá sameiginlegum sjóði landsmanna, frá ríkissjóði inn í þetta kerfi. Það má segja um fjármuni lífeyrissjóðsins, að sumpart greiðast þeir út sem bætur og sumpart leggjast þeir í sjóð, sem fyrst og fremst yrði ávaxtaður í þágu sjóðfélaganna.

Nú hefur því verið haldið fram og m. a. alveg sérstaklega hér í hv. deild, að bændur þurfi ekki á neinum slíkum tryggingum að halda. Mér finnst sú fullyrðing ákaflega ósennileg, að bændur séu það mikið betur á vegi staddir en aðrar stéttir, að þeir þurfi ekki á að halda sams konar tryggingu og aðrar stéttir, þegar aldur færist yfir þá ellegar þegar eitthvað bjátar á af því tagi, sem undir tryggingar lífeyrissjóðanna heyrir. Mér finnst þetta satt að segja svo ósennileg fullyrðing, að það taki því varla að ræða hana sérstaklega.

Einnig hefur því verið haldið fram, að það væri allt of dýrt fyrir bændur að byggja upp lífeyrissjóð fyrir sig. Nú er það vissulega svo, að fjárhagur bændastéttarinnar er oft þröngur, og á undangengnu erfiðleika- og harðæristímabili hefur hann þrengzt enn meir. En varðandi þessar fullyrðingar um, að bændur hafi ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að koma sér upp tryggingum hliðstæðum þeim, sem aðrar stéttir hafa, þá vil ég í rauninni aðeins minna á tvennt. Annars vegar er það, að eftir að tryggingakerfið, eins og það er upp byggt í frv., er komið að fullu í gang, þá er ekki stórmunur á því, hvað bændur leggja fram til trygginganna, eins og þá verður komið, og því, sem þeir leggja fram til stofnlánadeildarinnar, eins og nú á sér stað. Það er talið, að bein framlög bændanna sjálfra yrðu þá eitthvað um það bil 20% hærri en framlög þeirra til stofnlánadeildarinnar núna. Hins vegar vil ég svo minna á það, að þetta frv. er í meginatriðum undirbyggt á sama hátt.

Hér er byggt á alveg sama grundvelli eins og hjá öðrum lífeyrissjóðum, og ef við viljum slá því föstu, að bændur geti ekki byggt upp tryggingu fyrir sig á sama hátt og aðrar stéttir, erum við um leið að slá því föstu, að afkoma bænda sé langt fyrir neðan það, sem aðrir búa við. En ég hygg, að á þetta verði að reyna, og ef það kemur í ljós, að þetta er svo, að þeir geti ekki byggt upp tryggingar á sama hátt og aðrir, þá verði að grípa til annarra ráða til að bæta úr því en þeirra að neita þeim um rétt til að bygg a upp sínar tryggingar á líkum grunni og aðrir. Ég held, að það verði að reyna á þetta. Og ég vil bara árétta það, að iðgjöldin eru tekin sem hluti af launum á sama hátt og hjá öðrum sjóðum og bæturnar sem hluti af tekjum eins og hjá öðrum sjóðum. Þetta er þannig í grundvallaratriðum hliðstætt eftir því, sem við verður komið. Nú er að vísu um nokkuð aðrar aðstæður að ræða hjá bændunum, þeim, sem eru hreinir launþegar. Því er hér farið inn á nýjar brautir að nokkru leyti og það er nánast óhugsandi að byggja þetta mál þannig upp í byrjun, að ekki þurfi að breyta því í samræmi við reynsluna, þegar hún er fengin. Ég held, að það sé óhugsandi.

En ég álít, að frv., eins og það liggur fyrir nú, sé mjög vel unnið, enda hafa bændasamtökin fjallað um það í nokkur misseri og einnig nefnd, eins og ég vék að áðan, þar sem tryggingafræðingur, kunnur tryggingafræðingur, leiddi starfið, og fulltrúar bænda og fleiri lögðu einnig hönd að. Hér er um það að ræða annars vegar, að fé er fengið frá ríkissjóði og frá mótaðilum, og eins og venja er, þannig upp byggður sjóður með beinum framlögum einnig. Hins vegar er svo um að ræða tilfærslu innan stéttarinnar. Á hverju ári rennur mikið fé út og inn — inn koma iðgjöldin og lífeyrisgreiðslur renna út. Og það er auðvitað alltaf álitamál, hvað langt við megum halda á tryggingabrautinni, ef svo má segja. Það er auðvitað alltaf hægt að deila um það, og það þarf í sjálfu sér ekkert að undrast það út af fyrir sig, þó að ágreiningur komi upp um þetta einnig varðandi þessar tryggingar eins og allar aðrar. En ég hygg, að það sé varla unnt að byrja þessar tryggingar, sem hér er verið að stofna, á allt öðru plani en aðrar hliðstæðar tryggingar og þess vegna sé það mjög eðlilegt að byrja þær á þann hátt, sem hér er lagt til, hvað sem reynslan kann að segja, þegar til framkvæmda kemur.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri að sinni, en mín till. er sú, eins og fram hefur komið í þessum orðum, að frv. verði samþ. hér á þinginu og það er í fullu samræmi við einróma samþykkt aðalfundar Stéttarsambands bænda, sem hv. frsm. n. skýrði frá hér áðan, — í fullu samræmi við hana.