15.12.1970
Neðri deild: 33. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

6. mál, Lífeyrissjóður bænda

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Lífeyrissjóðsmál hafa verið mjög til umr. hjá mörgum stéttum þjóðfélagsins að undanförnu og á tímabili var um það talað sem mjög einfalt mál, en æskilegt takmark, að komið væri á fót lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn. Smátt og smátt hafa ýmsar stéttir bætzt við í hóp þeirra stétta, sem áður höfðu lífeyrissjóðsréttindi. Upprunalega voru það fáar aðrar stéttir en embættismannastéttirnar, en nokkrir starfshópar og stéttir eru þó enn eftir, sem ekki hafa öðlazt lífeyrissjóðsréttindi. Mþn., sem vann í tvö ár að því að undirbúa löggjöf um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn, skilaði — fyrir tæpu ári líklega — nál. til ríkisstj. og taldi, að málin hefðu þróazt mjög og viðhorf breytzt til hugmyndarinnar um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn á starfstíma þessarar mþn. Og í raun og veru var þá, eftir að verkamannastéttin var komin undir lífeyrissjóðskerfið, ekki annað eftir en bændastéttin og ýmsir starfshópar í þjóðfélaginu, sem ekki voru þá komnir undir lífeyrissjóðskerfið að einhverju leyti. Þegar þessi n. skilaði af sér, setti hún það í vald hæstv. ríkisstj. að taka um það ákvarðanir, hvaða tökum skyldi taka málið, þegar það hefði breytzt á þennan veg, en mér er ekki kunnugt um, hvort hæstv. ríkisstj. hefur komizt að niðurstöðu um það mál, hvernig eigi að tryggja þeim starfshópum, sem eftir eru og utan við lífeyrissjóðina standa nú, þann rétt, sem fyrir mönnum vakti, að allir fengju — allir þegnar þjóðfélagsins — með hugmyndinni um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. En sýnilegt er það, að þetta frv. er svona.

Þetta frv. kemur á dagskrá í framhaldi af því frv., sem afgr. var á síðasta þingi, um lífeyrissjóð fyrir meðlimi Alþýðusambandsins og er byggt á svipuðum forsendum, þ. e. samningum, að ég hygg, milli stéttasamtaka og ríkisvalds. Við höfðum, þegar við stóðum í kjarasamningum og höfðum ákaflega lítið svigrúm, nauma möguleika til þess að þoka launamálum verkalýðsstéttarinnar fram, svo sem nauðsyn þá krafði. Þá tókum við upp lífeyrissjóðsmálið og ákváðum, að það væri mikið réttindamál fyrir verkalýðsstéttina. Og lausn þess máls varð raunar til þess að leysa þá launadeilu, sem þá geisaði. Við vorum engir samningamenn, við vorum engir sérfræðingar í tryggingamálum, en við kvöddum okkur til aðstoðar tryggingafræðinga — ekki aðeins einn, heldur bárum við þetta undir fleiri. Þeir voru með í ráðum um allan grundvöll að samningagerðinni um lífeyrissjóð fyrir verkamenn.

Það var þegar ljóst, að á margan hátt yrði að byggja á öðrum forsendum og setja aðrar reglur um lífeyrissjóð fyrir verkamenn með stopula vinnu og dvínandi atvinnutekjur eftir því, sem liði á ævina, en um lífeyrissjóð embættismannanna með stöðuga vinnu, sem þeir höfðu áður byggt á sín lífeyrissjóðakerfi, og með laun hins opinbera embættismanns, sem að öllum jafnaði hækka með ári hverju. Grundvöllurinn var gerólíkur. Það var okkur ljóst í byrjun, og tryggingafræðingarnir játuðu það, að þeir sæju ekki út yfir vandamálin, sem fylgdu því, að undirstaða lífeyrissjóðs fyrir verkafólk væri allt öðruvísi í meginatriðum en hjá þeim stéttum, sem áður höfðu notið lífeyrissjóðsréttinda. Samt töldum við með þeim bráðabirgðarannsóknum, sem við gerðum í allmörgum verkalýðsfélögum, á fjölda aldraðra verkamanna og verkakvenna og á tekjum þeirra á vinnumarkaði á sjötugsaldrinum og þegar menn hefðu náð sjötugsaldri, að við gætum byggt nokkurn veginn viðeigandi grundvöll undir þessu tryggingakerfi, sem við vorum að semja um.

En þó að ekki sé liðið nema ár, síðan þessir samningar voru gerðir, og við höfðum þá talið, að við byggðum á traustum grunni, eins og hér var sagt áðan, þá kom það í ljós strax og átti að fara að framkvæma þessa samninga, að við höfðum farið villir vegar í mörgum meginatriðum og tryggingafræðingarnir líka. Við sjáum það nú, að það hefði verið miklu hyggilegra að byggja, að því er snertir lífeyrissjóði verkamanna, á samningsákvæðunum, eins og þau voru milli okkar og atvinnurekenda og ríkisstj., og láta síðan reynsluna leiðbeina okkur og vera ekki búin að koma málunum í það stirðnaða form, sem málið er þó alltaf komið í, þegar búið er að setja um það lög. Það hefði þurft miklu fremur að halda þannig á málinu, að heiðarlegir samningsaðilar hefðu getað sveigt framkvæmdina til jafnóðum og í ljós kom, að málin þróuðust öðruvísi en við höfðum á undirbúningsstiginu reiknað með, að þau þróuðust.

En því miður var sett um það löggjöf, að því er við héldum náttúrlega í samræmi við samninga, en það reyndust vera svo margar gloppur á samningunum, að það hefði verið miklu betra að setja ekki löggjöf og geta staðið þannig frjálsari að því að laga framkvæmdina að þeim anda, sem fyrir samningsaðilunum hafði vakað með samkomulaginu. En vegna þess að löggjöfin var sett, þá hefur komið í ljós, að framkvæmdin er svo fjarri þeim hugmyndum, sem við og tryggingafræðingarnir gerðu sér um framkvæmdina, þegar málið var á samningastiginu. Þær bætur, sem við reiknuðum með, að öldruðu verkamennirnir fengju, áttu samkvæmt þeim athugunum, sem við höfðum gert af handahófi á tekjum þeirra á vinnumarkaðinum og sem tryggingafræðingarnir byggðu á, voru, þegar til kom og átti að fara að framkvæma löggjöfina, smámunir einir móts við það, sem við höfðum gert okkur í hugarlund. Það var reiknað með, að þetta mundi kosta ríkið, sem ætlaði að borga einmitt iðgjöldin fyrir öldruðu verkamennina næsta áratuginn, tugi milljóna á hverju ári. En eftir lögunum eru þetta smápeningar einir, og í raun og veru hefur þetta valdið okkur geysilega miklum vonbrigðum. Nú er það hins vegar von okkar, að ríkisvaldið sýni þann drengskap að standa við anda samkomulagsins og verði fúst til þess að breyta lögunum í samræmi við það, sem ætlunin var, að andi samkomulagsins væri, þó að þetta hafi farið á allt aðra lund; það er þó ekki séð.

Fyrir þinginu liggja tvö frv. til breytinga á frv. á lögunum um lífeyrissjóð verkamanna, og það eru eingöngu vonir við það bundnar, að hæstv. ríkisstj. fái sem sé að breyta þeim í anda samkomulagsins, sem löggjöfin átti að byggja á. Ég gæti ímyndað mér, að eins og það var mikið nýmæli fyrir tryggingafræðinga að móta tryggingalöggjöf — lífeyrissjóðslöggjöf — fyrir verkalýðsstéttina með ekki önnur fordæmi en lífeyrissjóði embættismannastéttanna — sérstaða verkalýðsstéttarinnar kom þar skýrt í ljós við fyrstu reynslu — þá eigi það eftir að sýna sig, að bændastéttin hafi ekki síður sérstöðu meðal stétta þjóðfélagsins og það þurfi að byggja lífeyrissjóðagrundvöll þessarar stéttar verulega á öðrum grundvelli en lífeyrissjóði embættisstéttanna og lífeyrissjóði verkalýðsstéttarinnar, því að staða þessara stétta er á margan hátt mjög ólík. Og ég held því, að þó að vafalaust hafi með samningu þessa lífeyrissjóðsfrv. bændanna verið höfð hliðsjón af bæði embættismannalífeyrissjóðunum og lífeyrissjóðum verkamanna, þá komi það á daginn — ég óttast það a. m. k. — að það þurfi mörgu að breyta, þegar reynslan fer að tala, af því að aðstaða stéttanna er svo gerólík. Við töldum, að frv., sem við gengum frá og byggðum okkar samkomulag á, væri mjög vel unnið, og ég hygg, að sá ágæti tryggingafræðingur, sem þar vann verkið, hafi áreiðanlega neytt sinnar sérfræðiþekkingar og unnið málið eftir beztu getu og vitund. En gallarnir koma samt sem áður í ljós, þegar á að fara að framkvæma löggjöfina.

Hér var sagt áðan, að frv. þetta væri undirbúið á sama hátt og hjá öðrum lífeyrissjóðum. Ég veit ekki nákvæmlega, hvað fyrir hv. þm. hefur vakað, þegar hann sagði þetta, en sannarlega gæti þarna verið um ýmiss konar lífeyrissjóði að ræða, þeir eru margs konar og margvíslega upp byggðir. Mér sýnist þó, að frv. sé að meginstofni sniðið eftir hinu stórgallaða og misheppnaða frv., sem er ávöxtur af samningum verkalýðssamtakanna við atvinnurekendur og ríkissjóð og hefur ekki gefið þá raun, sem við vonuðumst eftir strax núna fyrstu mánuðina, sem þessi löggjöf væri framkvæmd. Ef hv. þm., sem þessi orð sagði, hefur hins vegar verið að miða við lífeyrissjóði opinberra starfsmanna, sem eru verðtryggðir, þá held ég, að þar sé um allt aðra tegund lífeyrissjóða að ræða en hér er verið að fjalla um. Ef mig misminnir ekki, kostar það ríkissjóð marga tugi millj. á ári að verðtryggja lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna, svo að þeir haldi gildi sínu vegna verðbólguþróunarinnar, og að því leyti hefur hv. 3. þm. Norðurl. v. alveg hárrétt fyrir sér, að það er geysilega mikil verðmætaskerðing, sem tekur til lífeyrissjóða í okkar verðbólguþjóðfélagi. Þar er ekki margra góðra kosta völ til að varðveita verðgildi sjóðanna, meðan sú þróun, sem við höfum búið við að undanförnu, á sér stað.

Ég skil það svo, að þessi lífeyrissjóður bændanna verði ekki verðtryggður. Væri hann það, væri a. m. k. um allt annað mál að tala en ég hygg, að hér sé um að ræða. Það er við það miðað í þessu frv., eins og að því er snertir launastéttirnar, að fram séu lögð 4% af launatekjum bændanna, eins og launastéttirnar leggja fram 4% af launum sínum sem iðgjöld, og svo á að innheimta 6% af búvöruverði sem tiltekinn hundraðshluta þess, og skal hann ákveðinn fyrir fram fyrir hvert almanaksár, þannig að hann samsvari 4% af grundvallarlaunum. Svo er mótframlagið á móti iðgjöldum sjóðfélaganna. Samkv. 1. mgr. skal leggja gjald á allar búvörur, og skal gjald þetta vera ákveðinn hundraðshluti ár hvert, þannig að hann samsvari 6% framlagi af reiknuðum heildarlaunum allra bænda, er þeim ber að greiða iðgjöld af samkv. 1. og 2. mgr. Heimilt er að hækka útsöluverð allra búvara sem þessu nemur.

Að svo miklu leyti sem þessi 6% eru þá ekki borguð af bændunum sjálfum, þá a. m. k. getur það farið svo, eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur bent á, að þetta verði til hækkunar á búvöruverðinu. Þegar við erum rétt við mörk þess, að varan sé seljanleg, vegna þess að fólk brestur kaupgetu til þess að kaupa landbúnaðarafurðirnar, getur 10% verðhækkun á búvörunum orðið til þess að draga mjög úr sölumöguleikum og þannig orðið dýrt spaug fyrir bændastéttina sjálfa. Þessum rökum hv. 3. þm. Norðurl. v. verður ekki mótmælt. Þetta er bláköld staðreynd og blasir alveg við allra augum. Þarna gæti orðið um mikla tekjuskerðingu að ræða hjá bændastéttinni við það, að sölumöguleikar rýrnuðu við það, að þetta bættist ofan á afurðaverðið.

Mér virðist nú svona við fljótan lestur á þessu mikla lesmáli, sem hér er í þessu frv., að vandlega sé það ekki unnið — svona fljótt á litið. Ég skal ekki leggja dóm á fræðilegu hliðina, því að ég er ekki fræðimaður á þessu sviði, en bara hvað fráganginum viðvíkur sé ég ekki annað en ein og sama setningin komi fyrir hingað og þangað á lesmálssíðum frv. — og þyrfti þó ekki að taka það sama fram nema á einum stað. Á bls. 2 stendur: „ . . . teljast 4% vera iðgjöld sjóðfélaga, en 6% framlag vinnuveitanda.“ Í næstu mgr. kemur þessi setning óbreytt aftur og flytur engan nýjan boðskap: „Teljast 4% vera iðgjöld sjóðfélaga, en 6% framlag vinnuveitanda.“ Texta frv. er bara hrúgað þannig upp, að sömu setningarnar ganga aftur hvað eftir annað hingað og þangað um frv., án þess að það sé verið að segja nein ný sannindi. Ég fæ a. m. k. aukna vantrú á, að vandleg vinna liggi á bak við þetta frv. við að sjá annað eins og þetta.

Ég hlustaði af gaumgæfni á ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. í gær einmitt vegna þess, að við höfðum orðið fyrir sárum vonbrigðum um framkvæmd þess frv., sem við stóðum að að semja og byggðum á samningum við atvinnurekendur og ríkisvald fyrir ári, þó að hvorugur aðili vildi þar beita hrekkjum — alveg áreiðanlega. Þar gengu allir heils hugar að því verki að ganga frá því, eins og menn hefðu frekast þekkingu til, og höfðu sérfræðinga í þjónustu sinni engu síður en hér. Og þegar ég rifjaði það upp fyrir mér, hvernig þetta hafði orðið í framkvæmd, og minntist þeirra vonbrigða, sem við höfðum orðið fyrir út af þessu, þá hlustaði ég gaumgæfilega á hv. þm., þegar hann var að segja okkur ýmiss konar sannindi um, hvernig þetta mundi gerast. Og ég var sannarlega ekki mjög vantrúaður á það, að hann hefði rétt fyrir sér í mjög mörgum atriðum.

Eitt var það, sem ég t. d. tók eftir og hann lýsti mjög skilmerkilega, það er þessi sérstaða bændanna. Þeir eru ekki aflögufærir, þegar þeir eru að byrja búskap. Það munar þá talsverðu að eiga að taka á sig, þó að ekki sé nema 4% iðgjöld — allra helzt þegar má með nokkrum sanni segja, að þeir taki líka á sig 6% vegna hækkaðs afurðaverðs, þ. e. 10% alls. Þá eru þeir að basla við að rækta sína jörð, byggja sín hús, kaupa sínar vélar, koma upp sínum bústofni o. s. frv., o. s. frv.; þá eru þeir sannarlega ekki aflögufærir. En hins vegar er búskapur þess eðlis, að sé sæmilega búið, eins og hv. þm. sagði, þá safnast saman með ári hverju og hverjum áratug viðbótarverðmæti af vinnu bóndans og hans fjölskyldu, og þegar hann hættir búskap, hefur hann undir flestum kringumstæðum möguleika til að losa allmikið fjármagn úr vélakosti sínum, úr bústofni sínum, úr húsaverðmæti sínu og úr ræktun sinni. Og með þetta fjármagn er hann venjulega í höndunum, þegar hans starfsævi er lokið og hann heldur af stað til kaupstaðarins. Hann er betur stæður en margir einstaklingar þar til þess að eignast þak yfir höfuðið og hafa nokkur fjárráð, ef þetta hefur ekki verið algert uppgjafareymdarbasl. Þá á hann að fara að fá einhver smáellilaun, eftir að búið er að taka af honum iðgjöld á hans erfiðustu árum og íþyngja honum þá. Þetta kemur verr við bændastéttina og hennar aðstandendur en aðrar stéttir, og ég veit ekki, hvort sérfræðingar hafa sett sig svo mjög inn í þessa sérstöðu bændastéttarinnar. En þessu lýsti hv. 3. þm. Norðurl. v. af gjörhygli og þekkingu, og ég er alveg sannfærður um það, að þessi sérstaða bændastéttarinnar á eftir að valda erfiðleikum í sambandi við það að framkvæma löggjöf sem þessa.

Það eitt, að þróun teknanna hjá opinberum embættismönnum og verkamönnum er gerólík, olli okkur og okkar sérfræðingum, sem í okkar þjónustu voru, miklum erfiðleikum. Annars vegar var embættismaðurinn með síhækkandi og öruggar tekjur en hins vegar verkamaðurinn með dvínandi tekjur, eftir að líða tekur á ævina, og mjög misjafnar eftir því, hvort hann hefur stöðuga atvinnu eða stopula. Þetta olli okkur miklum erfiðleikum í sambandi við mótun tryggingafrv., sem hér var samþ. í fyrra. Ég er alveg viss um, að sérstaða bændastéttarinnar á eftir að verða mjög erfið í sambandi við tryggingamál í þessu formi. Í raun og veru þyrfti að láta fjáraðstoðarkerfið við bændastéttina snúa alveg þveröfugt. Það þyrfti að veita þeim viðbótartekjur á fyrstu árunum, og síðan gætu þeir fremur borið byrðar hækkandi iðgjalda eftir því, sem liði á búskaparárin og á ævina. Þeirra aðstaða er þannig, og skal ég ekki fara fleiri orðum um það.

Ég held, að ef það er rétt, að þetta frv. sé byggt á samningum milli Stéttarsambands bænda og ríkisstj., væri það þjálla í framkvæmd og skynsamlegra að byggja eingöngu á bókstaf og anda þess samkomulags en að lögfesta það, því að það eru allt of margar óþekktar stærðir í framkvæmd máls eins og þessa. Og þá held ég, að málinu væri betur borgið. Það væri sveigjanlegra í framkvæmdinni, ef eingöngu væri byggt á samningagerð og lögfesting látin bíða, þangað til reynslan væri búin að skera úr um það í meginatriðum, hvernig slík tryggingalöggjöf mætti vera með hagkvæmustum hætti fyrir bændastéttina. Hraðsaumuð föt lífeyrissjóða fyrir þessar stéttir, sem eru allt annars eðlis en gömlu embættismannastéttirnar — en þar höfum við reynslu fyrir lífeyrissjóðum — hafa farið illa og munu fara illa.