09.11.1970
Neðri deild: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

101. mál, atvinnuöryggi

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hygg, að það hafi verið laugardaginn 31. okt. s. l., áður en þetta frv. kom fram, að haldinn var fundur í verðlagsnefnd og þar gerð ályktun um að banna verðhækkanir og hvers konar hækkun á álagningu á vörur frá og með 1. nóv., sem sagt 1. þ. m., nema leyfi verðlagsnefndarinnar kæmi til. Þessi samþykkt verðlagsnefndar var sett, áður en þetta frv., sem svo fagurlega heitir — ráðstafanir til stöðugs verðlags og atvinnuöryggis — kom fram, og löngu áður en það verður að lögum. En þessi ákvörðun verðlagsnefndarinnar sýnir, að það er með öllu þarflaust að setja lagaákvæði eins og þau, sem felast í 1. gr. þessa frv. Það er bara upptugga á lagaákvæðum, sem í gildi eru og sem í gildi hafa verið s. l. áratug, því að þessar gerðir verðlagsnefndarinnar eru studdar tilvitnun í l. nr. 54 frá 14. júní 1960. Og samkv. þeim sé lagt bann við verðhækkunum á vörum og allri hækkun á álagningu á vörur. Lagaheimildir til þess skortir ekki, og er því 1. gr. þessa frv. alger endurtekning á gildandi lagaákvæðum. Þetta þykir mér rétt að taka fram, og að því hefur nú raunar verið vikið í þessum umr.

Það fer ekkert á milli mála, að 1. gr. þessa frv. er óþörf með öllu. Það er ljóst, að meiri hluti verðlagsnefndar hefur vald til að stöðva verðhækkanir og hækkun álagningar og hefur haft þær heimildir s. l. áratug. Og hver fer með úrslitaráðin í þessari voldugu verðlagsnefnd? Þar fer með valdið sérlegur fulltrúi hæstv. viðskmrh. og fer auðvitað eftir hans vilja og fyrirmælum, að því er varðar afstöðu til slíkra mála. Það hefði því ekki þurft að bíða eftir setningu nýrra l. til þess að beita þessu valdi fyrir mörgum vikum, fyrir mánuðum síðan, ef vilji hefði verið fyrir hendi til þess. En svo mikið er víst, að þörfin var fyrir hendi.

Það var vitanlega sjálfsagt, að ef ríkisstj. ætlaði ekki að reynast stjórnlaust rekald í verðlagsmálunum, þá átti hún að beita þessum lagaheimildum, sem hún hafði, á s. l. vori til þess að koma í veg fyrir, að launahækkanir færu út í verðlagið, skömmu eftir að nýir kjarasamningar voru gerðir, ef það var ætlun stjórnvalda, að þeir samningar væru ekki að engu gerðir, kauphækkunum velt af þeim, sem höfðu þó við samningaborðið tekið kauphækkanirnar á sig, og allir álitu, að væru ekki meiri en svo, þótt þær væru nokkrar, að atvinnuvegirnir gætu í því góðæri, sem þeir höfðu notið að undanförnu, risið undir þessum kauphækkunum. Enda hefur líka þróunin síðan orðið sú, að þeim hefði orðið þetta léttbært, því að engir urðu fyrir vonbrigðum með sölumöguleika íslenzkra afurða eða verðlag á þeim á heimsmarkaði, heldur þvert á móti. Þar fór allt umfram vonir hinna bjartsýnustu, eins og ég mun síðar víkja að með stuðningi opinberra talna.

En þessar lagaheimildir voru ekki notaðar. Allt var látið reka á reiðanum í verðlagsmálunum stjórnlaust, eða kannske eins og hér var vikið að áðan, bara samkv. velþóknun ríkisvaldsins, bara fylgzt með að skrásetja það eftir hendinni, hvernig verðhækkanirnar skiluðu sér, og síðan í lok verðhækkunarskriðunnar, þegar hún er fallin, þá er fyrst farið að setja lög, sem er gefið það nafn, að þau eigi að stöðva verðbólguskriðuna. Slík lagasetning kemur í ótíma. Hún hefði átt að koma fyrir mörgum vikum, ef lagasetningar þótti á annað borð þörf.

Aðdragandinn að þessari lagasetningu hefur réttilega verið gagnrýndur og víttur. Það er liðinn langur tími, síðan boðað var verðstöðvunarfrv., en slíkar ráðstafanir verður auðvitað að gera, ef engum er ætlað bókstaflega að mata krókinn á þeim, án fyrirvara. Slíkar ráðstafanir verða að koma, ef þær eiga að koma að haldi, eins og þjófur á nóttu. En það var nú ekki aldeilis látið koma sem nein skrugga yfir kaupsýslulýðinn í landinu. Það var sannarlega látið gera boð á undan sér. Og það var enginn ómerkingur, sem boðskapinn flutti. Það var sjálfur hæstv. forsrh. Hann sagði, hvað í vændum væri og sagði það alþjóð í sjónvarpi, að ég hygg, fremur en útvarpi. Og þá vissu menn, hvers var von. (Gripið fram í.) Það var ekkert að marka hann í þessu sambandi. Hann hafði ekki valdið til þess að setja slíka löggjöf. Enda þurfti ekki að bæta um tilkynningu hæstv. forsrh. Eftir að hann hafði talað, vissu þetta allir.

Og til hvers flutti hann þennan boðskap? Einhver nefndi áðan auglýsingu. Ég skal ekki segja um það, hvort þetta var reiknað sem auglýsing í sjónvarpinu, en auglýsingargildi hafði þessi boðskapur. Og ég get ekki séð, að hann hafi verið fluttur í neinum öðrum tilgangi en þeim, að það væri boðið upp á það, að þeir, sem við kaupsýslu fengjust, fengju aðstöðu til að rýmka sinn hag. Það gat varla verið annar tilgangur með boðskapnum. En hafi kaupsýslustéttunum verið ætlað að rýmka sinn hag í sambandi við verðstöðvunarmál, þá er öðrum stéttum ætlað nokkuð annað hlutskipti eins og fram kemur í þessu frv. gagnvart láglaunastéttunum í landinu, því að þar er sannarlega ekki verið að rýmka hag þeirra, heldur skerða hann með lagaboði, svo að það er munur á barninu, sem er á hægra brjóstinu á hæstv. ríkisstj., eða hinu, sem aðeins er á því vinstra. Það er eftirlætisbarnið annars vegar og olnbogabarnið hins vegar.

Í allt sumar og haust hafa verðlagsmálin fengið að þróast stjórnlaust, og alltaf hafa borizt tíðindin um hækkandi verðlag. En fjörkipp tók verðlagsþróunin auðvitað, eftir að boðskapur forsrh. var kunnur, og það hlaut svo að fara. Ég hygg, að það verði ekki vandasamt að skrásetja þær verðhækkanir og sjá það t. d. með línuriti, hvernig þær birtust frá degi til dags í stærri og hærri tröppum heldur en framan af sumrinu, eftir að menn fóru að búa sig undir, að verðstöðvunarfrv. væri væntanlegt. Það var vitanlegt öllum, að ef og þegar verðstöðvunarfrv. yrði lögfest, þá yrði ekki hægt að skrúfa til baka þær verðhækkanir, sem orðnar væru, og þeir mundu því njóta þeirra, sem væru búnir að koma því í framkvæmd.

Sama dag og frv. var lagt fram, var auglýst hækkun á frögtum hér í landi, og daginn áður en frv. var lagt fram, var ein ríkisstofnun svo á síðustu stundu með að koma verðhækkununum á framfæri, að það lá við, að hún missti af strætisvagninum. Póst- og símagjöld voru hækkuð daginn áður, að ég hygg, og svona var þetta, að jafnvel þó að fresturinn, sem gefinn var, væri allrúmur og góður, þá stóðu nú sumar ríkisstofnanirnar sig ekki betur en það til þess að nota frestinn, að þær voru rétt á síðustu stundu þar, en það skilaði sér samt, eins og kannske hefur verið ætlunin.

Það er höfuðsök hæstv. ríkisstj., að hún skyldi ekki gera ráðstafanir strax á s. l. vori eða fyrri hluta sumarsins til þess að hefta hina æðisgengnu verðlagsþróun, sem ekki gat leitt til annars en þess, að ókyrrð myndaðist aftur fljótlega á vinnumarkaðinum við það, að verið væri að mala niður kaupmátt þeirra launa, sem samið var um í einu mesta góðæri, sem yfir land og þjóð hefur komið, og allir væntu því þess, að það yrði staðfest þannig, að kaupmátturinn yrði látinn haldast og ráðstafanir allar af ríkisvaldsins hendi til þess gerðar. Það voru vonir manna á s. l. vori. En það að láta verðlagsþróunina geysast áfram stjórnlaust, gat ekki stefnt að öðru en fram á hengiflug nýrrar gengislækkunar fyrr eða síðar, og það hefði maður haldið, að hæstv. ríkisstj. væri búin að gera sér ljóst, að það hefur þó ekki verið gæfuvegur eða heillabraut fyrir þjóðfélagið að verða að grípa til fjögurra gengislækkana á örfáum árum.

En þegar verðhækkunarskriðan er fallin og ætla mætti, að verðhækkunarþróunin væri eiginlega að lokum komin, þá er gripið til lagasetningar til þess að skerða launakjör lægst launuðu stéttanna í landinu. Það fer ekkert á milli mála, að það eru tekin 2 vísitölustig og felld niður a. m. k. til 1. sept. 1971, og ég hef enga tryggingu fyrir því, að þau 2 vísitölustig skili sér þá. Það er sagt, að þau séu geymd. Kannske er geymslustaðurinn öruggur, en það gæti líka verið, að hann væri það ekki. Enn fremur er svo farið að fikta við grundvöll vísitölunnar og einu vísitölustigi fyrir komið á þann hátt að hækka ákveðnar vörur, það er sagt lúxusvörur, áfengi og tóbak, en fyrir eitt og sama kemur. Það er tekið vísitölustig með verðhækkunum á þessum vörum, breytt vísitölugrundvellinum frá því, sem um hann var samið. Og í þessu er líka hækkun á greiðslum til almannatrygginga. Þetta er tekið út úr umsömdum vísitölugrundvelli, og þar með er farið að fikta við að rifta þeim samningum, sem gerðir voru á frjálsum vinnumarkaði af réttum aðilum á s. l. vori og voru engir nauðungarsamningar. Svo er 3.2 vísitölustigum komið fyrir með niðurgreiðslum. Látum það vera, ef það er gert á heiðarlegan hátt. Þetta er skerðingin, þetta er árásin, sem lægst launuðu stéttirnar hafa orðið fyrir af ríkisvaldsins hendi í sambandi við þetta frv.

Það má vel vera, að einhver hæstv. ráðh. komi hér á eftir og segi: „Þetta er svo fjarskalega lítil skerðing, það er ástæðulaust að kvarta yfir þessu.“ En mikil eða lítil, þá er þarna árás á hinn frjálsa samningarétt, og það er aðalatriðið. Og ef hún er lítil, hví munar þá ríkisvaldið í að fara að ráðast í annað eins og það að rifta samningagrundvelli aðilanna á vinnumarkaðinum og skapa með því kannske óró, sem gæti leitt til alvarlegra atburða í þjóðfélaginu fyrir ein 2–3 vísitölustig? Mundi vera hægt að færa rök að því, að það hafi verið svo óumflýjanleg nauðsyn að ráðast á samningaréttinn til þess að næla sér í 3 vísitölustig eða svo? Þó að við tölum um 2–3 vísitölustig, þá er þarna um mörg hundruð millj. kr. að ræða, sem tekin eru af launþegunum í landinu, þeim lægst launuðu. Út af fyrir sig er það ekkert hégómamál. En hitt er aðalatriðið, að við erum ekki lengur örugg um það að frjálsir samningar standist á Íslandi, þeir séu ekki gerðir að engu af ríkisvaldinu. Lítið í þetta skipti, kannske margfalt meira næst eða öfugt. Það er bara hróflað við þessu og þá vitum við ekkert, hve stórt verður höggvið. Það var um að ræða 15–17% launahækkun hjá því fólki, sem tekið hafði á sig mikla kjaraskerðingu, vegna þess að það var viðurkennt, að þjóðin hafði lent í efnahagslegum örðugleikum og þessi 15–17% voru vegna árferðisins, sem við bjuggum við, og því óþarfi að skerða launin.

Grundvallaratriðum samningagerðarinnar í vor hefur verið raskað. Það er gerð tilraun til þess með þessu frv. Frá því óráði ætti hæstv. ríkisstj. að hverfa, einkanlega ef hún telur þetta svo lítið atriði fjárhagslega, en það er kannske þannig, að um litið munar vesælan mann, það er sagt, og það kann að eiga við hér. Ég lít svo á, að þessi árás á samningafrelsið í landinu sé svo stórt grundvallaratriði, að það sé mjög vafasamt, að ekki yrði þannig litið á af dómstólum, að þar með sé samningunum riftað, og að við getum litið þannig á í dag, að verkalýðshreyfingin hafi lausa samninga, og það sé hæstv. ríkisstj., sem hafi losað samningana, leyst aðilana báða frá skuldbindingum þeirra og allt sé laust á vinnumarkaðinum þess vegna, þegar búið er að hrófla við grundvallaratriðum þeirra með lagaboði. Ég man ekki betur en þegar hæstv. ríkisstj. fyrir nokkru síðan rifti á líkan hátt sjómannasamningum, þá viðurkenndu gagnaðilar þeirra samninga, að þeir teldu samningana lausa, þeir féllust á þá skoðun sjómannasamtakanna, að samningarnir væru lausir, og a. m. k. þetta var svo lögfest, að samningarnir væru lausir. Það var viðurkennt með lagasetningunni, að það væri réttmætt, að samningar væru lausir, þegar þeim væri breytt með afskiptum ríkisvaldsins.

Ég held, að það sé auðvelt að sanna það, að það liggja ekki efnahagsleg rök fyrir því, að þjóðfélaginu sé nauðsyn að skerða þá samninga, sem verkalýðshreyfingin gerði á liðnu vori við samtök atvinnurekenda. Það fólst ekkert það í samningunum í vor, sem gerði þá verðbólguskriðu, sem yfir okkur hefur dunið á þessu sumri, nauðsynlega eða óumflýjanlega. Með þeim samningum gerði verkalýðshreyfingin ekki betur en að endurheimta þann kaupmátt, sem verið hafði fyrir kjaraskerðingu síðustu ára. Og það var almannarómur, að með þessum samningum væri greiðslugetu atvinnuveganna alls ekki ofboðið, heldur væri kjarabótunum, sem um var samið, haldið innan ramma hins mögulega. Og reynslan er sú, að á s. l. ári, árinu 1969, skiluðu hér um bil öll vel rekin fyrirtæki álitlegum hagnaði, og ekki hefur það síður orðið reyndin á þessu ári, að því er virðist.

Opinberar tölur skýra frá því, að á fyrra helmingi þessa árs hafi útflutningsverðmæti sjávarafurða aukizt um 40%. Á grundvelli þeirra talna spáðu sérfræðingar ríkisstj. 10% aukningu þjóðartekna á þessu ári. Nú er lengra liðið á árið, og nú sýna nýjustu tölur, að það varð ekki aðeins 40%, heldur mun það vera um 49%, og það þýðir, að nú eru horfur á, að aukning þjóðarteknanna nemi meiru en 10% á árinu í heild. Verðlagið hefur haldið áfram allt til þessa að hækka á erlendum mörkuðum á okkar framleiðsluvörum, og sjávarafurðirnar hafa selzt eftir hendinni. Þetta sýnir okkur það, að verðbólguskriðan er engin afleiðing af óumbreytanlegum náttúrulögmálum eða af erfiðu árferði, heldur er þetta heimabakstur, þetta er heimabakstur hæstv. ríkisstj. Hún hefur búið sér til sjálfvirka verðbólguvél, og þetta er framleiðsla hennar.

Með þessu frv. er í raun og veru ekki gripið á meinsemdinni sjálfri, verðbólgunni, heldur reynt að fela vandann. Þetta frv. er ekki skurðaðgerð gagnvart meinsemdinni, verðbólgunni. Þetta er gríma, þetta er til þess að fela vandann. Og við lögfestingu þessa frv. er ég alveg sannfærður um, að verðbólguvandinn verður ekki leystur. En það getur skapað mikinn annan vanda.

Í gærkvöldi lauk stjórnarfundi í Samtökum frjálslyndra og vinstri manna, og þar var þetta frv. hæstv. ríkisstj. að sjálfsögðu til umr., og um það var gerð ályktun og þannig tekin afstaða til þess. Sú ályktun er örstutt og er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Flokksstjórnin mótmælir eindregið því meginefni frv. ríkisstj. um ráðstafanir í efnahagsmálum, að samningar verkalýðsfélaganna frá s. l. sumri eru að engu gerðir í veigamestu atriðum og launakjör samkv. þeim skert til mikilla muna. Flokksstjórnin telur slíkar aðgerðir ekki aðeins rökleysu miðað við efnahagsafkomu þjóðarinnar, heldur fyrst og fremst slíka árás á samningafrelsi verkalýðshreyfingarinnar, að ekki verði umflúið, að henni verði mætt með mótaðgerðum af hálfu hennar, sem dugi til þess, að árás þessi verði brotin á bak aftur. Verði það ekki gert, er vandséð, hvert stefnir um rétt launþegasamtakanna til að vera ákvörðunaraðili um laun og lífskjör.“

Í þessari ályktun er tvennt, sem talin eru meginatriði, árásin á samningafrelsið og að það er ekkert rökrétt samhengi milli efnahagsafkomu þjóðarinnar nú um þessar mundir og slíkra aðgerða, að ráðast á launakjör hinna lægst launuðu. Í slíku árferði er það tilefnislaus aðför.

Ég skil nú ekki það fikt í þessu frv., að það á að skerða hin umsömdu launakjör verkafólksins og létta þar með byrðum, sjálfsagt af einhverri brýnni nauðsyn, af atvinnurekendum, en svo á að leggja 1.5% skatt á atvinnurekendur á móti, sem nokkurn veginn svari til þeirra launahækkana, sem þeir annars hefðu orðið að greiða. Er þetta kannske ekki nokkuð svipað því, eins og þegar sagt er af vissum stofnunum, þar sem menn bera sama sandinn í poka, hella honum í rennu, og taka svo við honum aftur og bera hann á ný. Það má vel vera, að þetta þjóni einhverjum tilgangi, en hann dylst mér svona við fyrstu sýn.

Það má segja, að einasti ljósi díllinn á þessu frv. sé kannske ákvæðið um hækkun fjölskyldubótanna, og skal ég sízt draga fjöður yfir það, að ég hef komið auga á þennan litla hvíta díl. En að öðru leyti sé ég ekkert annað en það, sem til verra horfir, með þessu frv.

Ég skal ljúka máli mínu með því að draga það saman, sem ég hef við þetta frv. að athuga. Það er í fyrsta lagi árás á frjálsan samningarétt, og það tel ég alvarlegt atriði. Í öðru lagi er þetta frv. rökleysa miðað við efnahagsafkomu þjóðarinnar, og í þriðja lagi tel ég það ranglætisverk að skerða umsamin launakjör hinna lægst launuðu í landinu á sama tíma og stjórnvöldin standa að því, að launakjör embættiskerfisins verði hækkuð miklu meir og þó vafalaust mest í toppinn. Þetta fæ ég ekki til að samrýmast. Ég skal þá ljúka mínu máli í þetta sinn, við 1. umr. um málið, með því að lýsa yfir því, að Samtök frjálslyndra og vinstri manna eru andvíg þessu frv., og ég mun greiða atkv. gegn meginatriðum þess.