16.12.1970
Neðri deild: 35. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

6. mál, Lífeyrissjóður bænda

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég hef mikla ánægju af að rökræða við hv. 5. þm. Austf., en mér þykir lakast, hvað fækkar í salnum, þegar hann talar. Það er búið að ræða þetta mál allmikið. Það hringdi í mig einn búnaðarþingsfulltrúi í morgun, sem líka var á stéttarsambandsfundi, og var að þakka mér fyrir afstöðu mína í þessu máli. Hann sagði að það hefði komið fram á Búnaðarþingi, að það hefði ekki verið ætlazt til, að þetta mál næði fram að ganga, nema það væri búið að bera það undir bændur áður. Ég spurði hann um stéttarsambandsfundinn, og hann sagði, að það væru tvö öfl, sem þar réðu. Það væru formaður stéttarsambandsins og landbrh., og yfirleitt væri allt samþykkt, sem borið væri upp, enda réðu þeir línunni. Ég veit eiginlega ekki, hvers vegna hv. 5. þm. Austf. er að basla við að verja þetta mál, því að landbrh. gerir það ekki, sem á sennilega miklu meiri þátt í því. Ég hygg, að hv. 5, þm. Austf. hafi ekki fengið að ráða miklu í þessu máli. Þetta er þegnskapur hjá honum, og það er ekkert nema gott um það að segja. Það er ágætt að rökræða um hlutina.

Það kom fram hjá honum hér í gær, að það mundi ekki vera nema 1.2%, sem bóndinn þyrfti að borga af sínum hluta og síðan ætti framleiðandinn að borga samkv. því 1.8%, því að hann á að borga þriðjungi meira. g reiknaði þetta nákvæmlega út. Það er rétt, að það er af grunnkaupi, og það hef ég alltaf sagt, að grunnkaup hjóna er 300 þús. kr., en það er bara bætt 10% við þann grundvöll, sem er áætlaður fyrir væntanlegum hækkunum, því að enginn trúir á stöðvunina hjá okkar ágætu ríkisstj., svo að það á að leggja 4% á 330 þús. kr. Það eru sama sem 13 200 kr.

Nú er gert ráð fyrir, að meðalbú skili 800 þús. kr. Þið getið fylgzt með, því að það eru margir góðir reikningsmenn hér — 800 þús. kr. í brúttótekjur, og því verður að deila — ef maður vill fá prósentuna, sem kemur á brúttótekjurnar — 8 í 13.2. Þá kemur út 1.65% nákvæmlega reiknað, og neytandinn á að borga — auðvitað verður það aldrei nema í orði þriðjungi meira, og þá eru það nákvæmlega 2.48% og hvort tveggja er 4.13%. Það á að taka 4.13% af brúttóframleiðslu okkar á hverju einasta ári, meðan við búum, og til viðbótar þessu, ef menn framleiða t. d. fyrir 1200 þús. kr., þá má hækka þetta um 50%, þannig að bóndinn, sem framleiðir fyrir 1200 þús. kr. brúttó — þið getið reiknað þetta sjálfir borgar þá þriðjungi meira, og það hygg ég, að meginþorri bænda í Eyjafirði og mikill meiri hluti sennilega í Árnessýslu og Rangárvallasýslu geri — þau eru með betri héruðum landsins. Og þegar 4.13% eru reiknuð af 800 þús. kr., þá eru það kringum 33 þús. kr. með því verðlagi, sem nú er, en vitanlega hækkar það. Og þess vegna reikna ég með 35 þús. kr., því að ég geri ráð fyrir, að vísitölubúið sé heldur neðan við meðallag, en ef á að taka þetta af brúttótekjunum hjá stærri búunum eða af 1200 þús. kr., þá eru það um 50 þús. kr. Ég reiknaði með 35 þús. kr., og ég fæ þessar 5.7 millj. kr., sem er enn þá óhrakið. Í 40 ár verða 35 þús. kr. með 8% vöxtum og vaxtavöxtum 5.7 millj. kr. Þetta er nú þessi fjármálasnilli, sem er verið að framkvæma. Það sjá allir lifandi menn, að ellilífeyrir af því er ekki helmingur af vöxtunum. Þetta er alger féfletting á bændum, því að eðlilega kemur þetta allt á þá, því að þegar afurðirnar hækka upp í það, sem þær voru áður en þessar niðurgreiðslur komu, þá voru þær ekki keyptar vegna þess, hvað þær voru dýrar.

Og hver á að borga af útflutningnum? Því hefur aldrei verið svarað. Á að bæta því ofan á þessa 3/5 sem neytendur eiga að borga, eða eiga bændur að borga það? Það er ekki talað um, að ríkið borgi nema þessa betlipeninga næstu árin, sem hv. 9. þm. Reykv. var að tala um hér í gær, að hefðu orðið miklu minni og á allt annan hátt en gert hefði verið ráð fyrir og tryggingafræðingarnir hefðu alls ekki gert sér vandann ljósan. Það er ekki von, að tryggingafræðingarnir geri sér þetta ljóst. Þetta er sérstætt mál, þegar atvinnurekendur fara að tryggja sig. Það er vinnuveitandinn, sem vanalega borgar þessa 3/5, en sá, sem vinnur, 2/5. Annars er það bara orðaleikur, hver borgar. Í raun og veru kemur þetta allt á atvinnuvegina. Það væri alveg eins hægt að segja, að sá, sem vinnur, fengi þetta allt í kaup og borgaði bara 10% af því eins og að vera að deila þessu. Það væri alveg eins hægt að hafa kaupið hærra. En þarna er allt önnur aðstaða. Það eru atvinnurekendur, sem eru að tryggja sig, og það hefur ekki verið gert hér á landi fyrr. Þess vegna komst tryggingafræðingurinn, sem samdi frv., í fullkominn vanda. Honum var sagt, hvaða leiðir hann átti að fara. Tryggingafræðingar eru eins og aðrir menn. Þeir eru ekki alvitrir.

Frv. er á margan hátt furðulegt eins og allur þessi örorkubálkur, sem er í því. Hann á að fara að verða tvöfaldur allur þessi blessaði örorkubálkur, sem er í almannatryggingunum og er meira og minna misnotaður. Sumir fá örorkubætur og geta unnið hér um bil fulla vinnu. Það er eins og með bílana, sem er verið að láta þá fötluðu og lömuðu hafa. Þá meina ég sjötugar kerlingar og þá, sem aldrei hafa snert á bíl. Menn fá bíl út á þær, ef þeir meiða sig í löpp eða eitthvað svoleiðis. Það er allt í lagi með örorkubætur, ef þær væru ekki misnotaðar. En trippin eru ekki alltaf eins rekin. Sumir hafa aðstöðu til þess að koma sínum málum fram, en aðrir ekki og verða út undan, þannig að ég held, að það sé alveg nóg misnotkun á þessum örorkubótum hjá almannatryggingum og nóg vitleysa í þeim, þó að bændur fari ekki sérstaklega að bjástra við þetta örorkukerfi.

Ég veit eigi til, að bændur hafi falið stéttarsambandinu að finna upp skatta. Mér er ekki kunnugt um það. Það átti fyrst og fremst að vinna að verðlagningu á landbúnaðarvörum. Ég veit ekki til, að í mínu héraði hafi verið haldnir fundir til að tala um það við bændur, hvort þeir vildu líftryggja sig á þennan hátt. Því síður hafa þeir haft aðstöðu til þess að kynna sér þetta kerfi, sem er verið að koma hér á, því að þeir hafa ekki séð frv. Og þó að maður sjái frv., þá er það ekki auðskilið.

Verði þetta frumvarp að lögum, geta þingmenn komið heim til bændanna og sagt: Við erum búnir að samþykkja þennan skatt. Þú átt að borga 50 þús. kr., segja þeir við gildari bændurna, en við hina nefna þeir 35 þús. kr. og við þá, sem eru við það að flosna upp, 25 þús. Þetta eigið þið að borga á ári í viðbót við það, sem þið hafið borgað. Hinir efnaminni bændur hafa svona 2–3 þús. kr. útsvar, ef þeir hafa nokkurn skapaðan hlut annað en aðstöðugjöldin. Og svo á að taka rúmlega 4% af brúttótekjum árlega út úr reikningum þeirra í leyfisleysi. Ef þið haldið, að þið aflið ykkur atkvæða á þessu, er sjálfsagt fyrir ykkur að vinna að þessu. Ég ætla ekki að vera með því. Hinir, sem koma til neytendanna, geta glatt þá með því, að það eigi að hækka landbúnaðarafurðirnar um 2.48%, en það má nú vera, að þú sleppir við það, góði, vegna þess að þú kaupir ekki neitt. Raunar er mín skoðun sú, að neytendur borgi þetta ekki, því að það er ekki hægt að selja vöruna dýrara en gert hefur verið, og það hefur aldrei staðið á stéttarsambandinu að hækka vöruna; við þurfum að skamma það fyrir það, bændurnir. Þeir hafa verið duglegir við það. Það er bara, hvort ekki er gengið of langt. Fólkið sé vanið af að borða landbúnaðarvörur, og það er alvarlegur hlutur.

Ég hef ekkert umboð fyrir hönd bænda í mínu kjördæmi að greiða atkv. með þessu. Það hefur ekki einn einasti bóndi óskað eftir því að fá lífeyrissjóð í mínu umdæmi, ekki einn einasti. Þessi fulltrúi, sem talaði við mig í morgun, sagði mér, að undirrótin undir þessu öllu hefði verið að losna við að greiða stofnlánagjaldið í Búnaðarbankann. Það er góð aðferð til að losna við gjald að fimmfalda það, því að þarna er komið ferfalt gjald á við það, sem gengur til Búnaðarbankans. Ef við þurfum að borga þetta, sem gert er ráð fyrir, að neytendurnir borgi, þá er það ferfalt, því að við erum ekki enn þá lausir við gjaldið til Búnaðarbankans. Mér finnst þetta ekki gáfulegar aðferðir. Og ef bændur hafa kvartað og hljóðað undan þessu gjaldi til Stofnlánadeildar landbúnaðarins, þá held ég, að þeir segi eitthvað yfir þessu. Okkur fannst þessar upphæðir alveg nógu háar, sem voru teknar af eignum okkar í búnaðarmálasjóðsgjald og til stofnlánadeildarinnar. En hvað verður nú?

Ég sagði það hér um daginn, og ég endurtek það, að það er engrar vægðar að vænta af mér í þessu máli. Ég rek miskunnarlausan áróður meðal bændanna fyrir því, að þeir hrindi þessum ófögnuði af sér, því að þarna er um hreina vitleysu að ræða. Lífeyrissjóðir eru lítils virði, ef þeir eru ekki gengistryggðir. Það er eins og hv. 9. þm. Reykv. sagði í gær; það er ekkert gagn að þeim. Það vita allir menn, að lífeyrissjóðir eru úreltir, þegar gengið er alltaf að breytast, ef þeir eru ekki tryggðir, svo að þarna er um hreina vitleysu að ræða. Það er hægt að skipta um fulltrúa á stéttarsambandsfundi; þeir standa ekki það föstum fótum. Og það gæti skeð, að það yrði gert. Við látum ekki fara með okkur eins og rollur, bændurnir. Það er búið að gera nóg af því. Ég afbið mér og mínum afkomendum þessar álögur. Ég hef ekkert að gera með svona fáránlega endaleysu. Ég held, að þeir séu ekkert aflögufærir með fjármálavit, þessir herrar, sem hafa búið þetta til.