16.12.1970
Neðri deild: 35. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

6. mál, Lífeyrissjóður bænda

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þegar ég talaði um þetta mál á þingfundi í gær, vildi ég láta í ljós, að með mér bærðust margvíslegar efasemdir um það, að þetta mál væri nægilega gaumgæfilega athugað og nægilega vel undirbyggt til þess að ná þeim tilgangi, sem fyrir mönnum vakir með lífeyrissjóði fyrir bændastéttina, og eins og hv. 2. landsk. þm. vék að núna, þá vitnaði ég til þeirra vonbrigða, sem við höfðum orðið fyrir í verkalýðshreyfingunni með fyrstu reynslu af þeim samningi, sem við gerðum í sambandi við síðustu kaup- og kjarasamninga. Agnúar miklir eru komnir í ljós á lagasetningunni, og tvö frv. liggja þegar fyrir þinginu, þar sem farið er fram á leiðréttingar á þessu, og ég tók það fram, að við ættum allt undir viðsýni og lipurð manna, sem voru okkar samningsaðilar, um það, hvaða leiðréttingar við fengjum á þeirri löggjöf, þannig að hún samsvaraði þeim hugmyndum, sem fyrir báðum samningsaðilum vöktu við samningagerðina. Ég vona, að við fáum það. En þess vegna er það furðulegt, að einmitt skuli vera lagður fram núna í þessu vandlega undirbúna frv. — eftir að agnúarnir eru komnir fram hjá okkur nokkurn veginn orðréttur II. kafli þessa frv. og prentaður hér upp, og hann á að gilda fyrir bændastéttina. Það ber ekki vott um gaumgæfilega athugun, og hefur þó áreiðanlega verið fylgzt með því af fleirum en okkur, að annað hafi komið í ljós, sem leiðrétta verður. Ég skal ekki fara fleiri orðum um það.

Það er undirstöðuatriði allrar tryggingalöggjafar, að engum tryggingum verður komið á nema með því, að hinir tryggðu greiði iðgjöld, og það er út á iðgjöldin, sem þeir öðlast tryggingarréttinn. Og þessi iðgjöld koma venjulegast frá tveimur aðilum, — þeim, sem á að tryggja, og þeim, sem hann starfar hjá. Frá atvinnurekendum koma í flestum tilfellum 6%, en launþeginn leggur til 4%. Þetta er mjög algengt í þeim lífeyrissjóðum, sem starfandi eru. Í þessu frv. liggur það ljóst fyrir — og ég hygg, að það sé ekki af neinu arnarflugi, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. kemst að þeirri niðurstöðu, — að það séu 4–5%, sem bændur verða að leggja fram frá tvítugsaldri og fram undir sjötugt til þess að kaupa sér lífeyrisréttinn. (BP: Af brúttótekjum.) Af brúttótekjum bóndans, já. Ég tók eftir því, að þú miðaðir við annað, þegar þú varst að tala um 10–11%. Hins vegar fá þeir tryggðu eftir 5 ár makalífeyri, sem getur numið 10% af tekjum þeirra, og fyrstu 10 árin fá þeir engan ellilífeyri — borga iðgjöld í 10 ár án þess að fá nokkurn ellilífeyri — en að 10 árum liðnum geta þeir fengið 12.5% af launum sínum í ellilífeyri og 15% í makalífeyri. Síðan geta þeir fengið hækkandi prósentutölu upp í 30% af launum í ellilífeyri og 25% hámark í makalífeyri. Þetta er það, sem um er að ræða — framlög af hendi bændanna og þá möguleika til lífeyrisgreiðslna, sem l. ákveða.

Hvort þetta kemur peningalega vel út, er mörgu háð, og það hygg ég, að fjármagnið, sem bændurnir leggja fram, sé í mestri hættu vegna hugsanlegrar og líklegrar verðbólguþróunar, því að verðbólgan er eins og mölur í mjöli gagnvart öllum sjóðum. Það vita allir. Þetta má segja um alla óverðtryggða lífeyrissjóði að vísu og er ekkert sérstakt um lífeyrissjóð bændanna. Þarna eiga menn geysilega mikla fjármuni í hættu vegna verðbólguþróunarinnar við sem aðrir.

Ég hélt því fram í gær, að þegar við horfum nú fram á margs konar missmíði á þeirri löggjöf, sem sett er á grundvelli okkar samninga fyrir hönd verkalýðshreyfingarinnar við atvinnurekendur og ríkisvald, þá lét ég í ljós þá skoðun, að það hefði verið skynsamlegra, betra og auðveldara að laga framkvæmdina eftir nauðsyn í samræmi við það, sem fyrir samningsaðilum vakti, ef við hefðum farið af stað á samningagrundvellinum, eins og hann var markaður, án þess að festa samningsákvæðin í löggjöf, fyrr en nokkur reynsla væri á þetta komin. Þetta hefði verið hægt hjá okkur a. m. k., því að samningagerð okkar var ekki aðeins staðfest af samninganefnd, heldur var einnig sú skuldbinding, sem við gáfum, með fyrirvara um samþykki verkalýðsfélaganna. En þegar verkalýðsfélögin og þar með öll verkalýðshreyfingin hafði gerzt formlegur samningsaðili að samkomulaginu, bæði að því er kjarabæturnar snerti og lífeyrissjóðsmálið, þá var hvert einasta stéttarfélag í verkalýðshreyfingunni orðið þarna lögformlega bundið af þessu, sem samið hafði verið um. Þess vegna sagði ég, að það hefði verið æskilegra nú að festa ekki samningsákvæðin í löggjöf, þegar farið var af stað í annað sinn með lífeyrissjóðsmyndun fyrir stétt, sem hefur margvíslega sérstöðu gerólíka þeirri aðstöðu, sem lífeyrissjóðir t. d. embættismannastéttarinnar byggja á. Bændastéttin hefur einnig verulega sérstöðu miðað við verkalýðsstéttina, eins og ég gerði grein fyrir í gær og fer ekki inn á aftur.

Nú kemur hv. 5. þm. Austf. og segir, að það hafi ekki verið hægt að fá reynslu af lífeyrissjóði bænda nema með lagasetningu. Má vera, að hann hafi rétt fyrir sér. En í hverju liggur þá munurinn? Þetta hefði verið hægt, að því er snertir verkalýðshreyfinguna. Er ekki þetta mál um samið út í yztu æsar af Stéttarsambandi bænda og ríkisstj.? Hefði ekki verið hægt að framkvæma þetta á grundvelli þess samkomulags? Það hefði að mínu áliti verið hægt í sambandi við samkomulagið við verkalýðshreyfinguna, verið þjálla í framkvæmd og auðveldara að laga framkvæmdina að því, sem fyrir samningsaðilum vakti.

Hv. ræðumaður upplýsti einmitt, að þetta væri samningamál milli stéttarsamtaka bændanna hann nefndi ekki stéttarsambandið, en ég hygg þó, að það sé það og ríkisstj. Af hverju bindur slíkt samkomulag stéttarsambandsins ekki alla bændastéttina? Af því að það er engin félagsleg undirbygging til undir stéttarsambandið. Ég þykist vita, að þarna liggi hundurinn grafinn, og það er sannarlega athyglisvert, að Stéttarsamband bænda er eins og fljúgandi diskur einhvers staðar uppi í geimnum og hefur engar félagslegar rætur. Það hefur ekki sínar félagslegu rætur í búnaðarfélögunum. Það vantar alla undirbyggingu undir stéttatsambandið, til þess að stéttarsambandið geti á lögformlegan, lýðræðislegan hátt skuldbundið heila stétt. Og í þessu atriði kemur það mjög tilfinnanlega í ljós, en þetta skýrði ég mjög rækilega í sambandi við frv, mitt um Stéttarsamband bænda o. fl. fyrir nokkrum árum, þegar ég flutti það hér í þinginu. Það er staðreynd, að það þarf að byggja félagslegan grundvöll undir Stéttarsamband bænda með eitthvað svipuðum hætti og verkalýðsfélögin eru hinn félagslegi grundvöllur undir heildarsamtökum verkalýðsstéttarinnar. Það er nokkuð djarft af stéttarsambandi fyrir bændastéttina að gera samþykktir og samninga við ríkisvaldið um mál eins og þetta að stéttinni fornspurðri og án þess að hafa nokkrar lýðræðislegar samþykktir um það, hver sé vilji bændanna. Það er nokkurn veginn eins og umboðslaus maður sé að gera samninga.

Það má því vera, að þetta sé rétt hjá hv. 5. þm. Austf., að þeir hafi ekki getað framkvæmt byrjun lífeyrissjóðsrekstrar fyrir bændastéttina án lagasetningar vegna þess, hvernig stéttarsambandið er upp byggt. Það svífur í lausu lofti og hefur ekki félagslegar rætur. En þá held ég því fram, að það hefði átt að hinkra við með lagasetninguna, þótt aldrei nema bændastéttinni væri þetta brennandi áhugamál eins og okkar stétt — verkalýðsstéttinni — að koma á lífeyrissjóðum fyrir sig. Það hefði samt átt að hinkra eftir því, hvernig reynslan yrði af okkar kornunga lífeyrissjóði, sem við erum að mynda. Þá hefði verið hægt að sneiða hjá mörgum mistökum, a. m. k. að því er snertir þá hlið, sem sameiginleg er um þessar stéttir báðar. Þó játa ég, að okkar reynsla mundi ekki alveg leysa úr óreyndum vandamálum bændastéttarinnar, af því að hún er að ýmsu leyti með algera sérstöðu miðað við allar aðrar stéttir.

Ég skal ekki ræða lengi um þetta mál nú, enda umr. orðnar nokkuð miklar um það. Meginmunur á lífeyrissjóðum, þegar menn tala um lífeyrissjóði, er tvenns konar, þ. e. hvort lífeyrissjóðir eru verðtryggðir af ríkisvaldinu eða ekki verðtryggðir og hvort það geti . . . (BP: Það ræður alveg úrslitum.) . . . já, ég vil nærri segja það, að það ráði úrslitum. Lífeyrissjóður opinberra embættismanna er verðtryggður af ríkissjóði. Hvað kostar það, hæstv. fjmrh.? Hvað kostar það á ári hverju? Er það ekki milli 50 og 60 millj. kr.? Jú, það er það. Þetta eru maðkarnir í mysunni; þeir rýra sjóð opinberra starfsmanna um 50–60 millj. kr. á ári. Og þá sér maður, að það er nokkur háski á ferðum á næstu 20–30 árum með sama áframhaldi fyrir þá sjóði, sem ekki eru verðtryggðir. Þessi sjóður er ekki verðtryggður, og hann verður því einnig fyrir eyðingu verðbólgunnar eins og sjóðir verkalýðsstéttarinnar — því miður. Ég vil staðnæmast við þá hugsun, hvort það hefði ekki verið skynsamlegra jafnvel fyrir bændastéttina að láta sér eingöngu nægja það form lífeyrissjóðs, sem vissulega er til, sem er nánast skyldusparnaður og ekkert annað. Það eru til lífeyrissjóðir, sem byggja eingöngu á eigin framlagi þeirra, sem ætla að tryggja sig, og hafa ekkert gagnframlag frá atvinnurekendum. Þetta er í raun og veru alger skyldusparnaður. Ef lífeyrissjóður bændanna hefði verið í þessu formi, þá hefði ég talið það alveg sjálfsagt mál og siðferðilega réttmætt, að ríkissjóður hefði verðtryggt þennan skyldusparnað og lífeyrissjóður bændanna væri þannig í skyldusparnaðarformi með verðtryggingu ríkissjóðs. En að taka þetta af afurðaverðinu getur kostað bændastéttina mikið, þegar verð landbúnaðarvara, eins og oftast er, er svo hátt, að varan selst illa, vegna þess að kaupgeta neytendanna í þéttbýlinu er ekki nógu mikil. Þegar svo á að bæta — þó að vegna gagnlegs málefnis sé — nokkrum prósentum ofan á verðlagið, þá getur það orðið til þess að skapa slíka sölutregðu, að bændum verði meira tjón en gagn að þessari framkvæmd.

Ég fer því ekki dult með það, að ég ber ýmiss konar ugg í brjósti í sambandi við framkvæmd þessa máls. Ég held, að það hafi ekki fengið fullnægjandi undirbúning og sé ekki nægilega vel frá því gengið. Ekki er einu sinni stuðzt við þá litlu reynslu, sem fyrir hendi er, og eins gott hefði verið að leita a. m. k. umsagnar bændastéttar um það, hversu mikið brennandi áhugamál henni væri þetta, áður en þetta væri lagt á bændastéttina sem skattlagning, því að það er ekki til neins að dyljast þess, að þetta er skattlagning á bændastéttina að vísu til þess að tryggja öldruðum bændum lífeyrissjóðsréttindi. En er ekki ástæða til þess að fá svör bændanna sjálfra um það, hvort þeir vilji leggja á sig það, sem frv. leggur þeim á herðar, til þess að fá þá þau lífeyrisréttindi, sem frv. hins vegar ákveður þeim? Ég álít, að þetta liggi ekki ljóst fyrir, þó að Stéttarsamband bænda hafi gert um þetta samþykktir á sínum tiltölulega fámennu fundum og síðan farið að samningaborði til ríkisstj., því að málið mun mjög lítið hafa verið rætt almennt í bændasamtökunum, þ. e. búnaðarfélögunum eða öðrum samtökum þeirra eða á almennum fundum í sveitum. Að því leyti held ég einnig, að hv. 3. þm. Norðurl. v. hafi rétt fyrir sér, þ. e. að málið sé ekki byggt á óskum eða vilja bændastéttarinnar og svífi þannig að nokkru leyti í lausu lofti eins og Stéttarsamband bænda sjálft.