02.12.1970
Neðri deild: 26. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (532)

147. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Haustið 1969 var hafin undirbúningskennsla í þjóðfélagsfræðum við Háskólann og unnið á s. l. vetri og s. l. sumri að því að undirbúa fasta skipun á þeirri kennslu. Niðurstaðan varð sú að haga þessari kennslu með nokkuð nýjum hætti, þ. e. að stofna ekki sérstaka deild innan Háskólans til þess að annast þessa kennslu, né heldur að fela hana alla einstakri deild, sem hafði þó verið mjög rætt, t. d. viðskiptadeild, heimspekideild eða lagadeild, heldur varð niðurstaða Háskólans og menntmrn. sú að efna til nýjungar í starfi Háskólans með því að stofna til sérstakrar námsbrautar, sem ekki tilheyri einni ákveðinni deild, heldur fleiri en einni deild, og skuli þá þessari námsbraut stjórnað af fulltrúum frá þeim deildum, sem hlut eiga að máli auk fulltrúa frá stúdentum. En þetta gat því aðeins orðið, að gerð yrði breyting á l. Háskólans, og til þess að þessi kennsla gæti hafizt í hinu nýja formi þegar í byrjun háskólaársins, þá féllst forseti Íslands á að gefa út brbl. um þetta efni 21. ágúst 1970, og það eru þau brbl., sem hér eru til staðfestingar.

Efni þeirra er það, að við Háskóla Íslands skuli stofna sjálfstæða námsbraut í almennum þjóðfélagsfræðum og lúti hún sérstakri námsstjórn. Í námsstjórn eiga sæti fastráðnir kennarar í þjóðfélagsfræðum við námsbrautina, einn fulltrúi tilnefndur til tveggja ára af forseta viðskiptadeildar úr hópi prófessora deildarinnar, og er hann formaður, tveir fulltrúar tilnefndir til tveggja ára af háskólaráði úr hópi prófessora, dósenta og lektora og tveir fulltrúar stúdenta tilnefndir af aðalfundi Félags stúdenta í almennum þjóðfélagsfræðum.

Eins og ég gat um áðan, hófst undirbúningskennsla í þjóðfélagsfræðum í fyrra við Háskólann, en endanlegu formi var samkv. þessum brbl. komið á þá kennslu á s. l. hausti. Við nám í þjóðfélagsfræðum eru nú 115 stúdentar. Það, sem nefnt hefur verið almenn þjóðfélagsfræði, er samheiti á allumfangsmiklu fræðasviði. Er gert ráð fyrir, að á þjóðfélagsfræðanámsbrautinni verði aðalgreinarnar félagsfræði og stjórnmálafræði, en aðrar kennslugreinar verði hagfræði, sálarfræði og tölfræði auk sérstakra kjörgreina stúdenta, en náminu á að ljúka með B.A.-prófi.

Í þessu sambandi er rétt að láta þess getið til fróðleiks, að á árinu 1968–1969 var hafin kennsla í ýmsum greinum náttúruvísinda til B.S.-prófs innan verkfræðideildar og var nafni deildarinnar breytt í samræmi við aukið verksvið hennar í verkfræði- og raunvísindadeild. Samkv. nýsettum reglugerðarákvæðum við deildina veitir hún nú kennslu til B.S.-prófs í undirstöðugreinum raunvísinda, þ. á m. stærðfræði, eðlisfræði, efnafræði og líffræði, en undir hana falla auk almennrar líffræði og lífefnafræði dýrafræði, grasafræði, jarðvísindi og landafræði. Aðsókn stúdenta að hinum nýju kennslugreinum á sviði náttúruvísinda hefur reynzt mjög mikil, og stunda nú alls 174 stúdentar nám í þessum greinum til B.S.-prófs. Samkv. hinum nýju reglugerðarákvæðum um deildina, sem gildi tóku í sumar, verður hér eftir unnt að ljúka almennu verkfræðiprófi, B.S.-prófi, við deildina í byggingarverkfræði, vélaverkfræði og rafmagnsverkfræði. En eins og kunnugt er, hafa verkfræðistúdentar fram til þessa þurft að fara utan til síðari hluta námsins. Kennaralið verkfræði- og raunvísindadeildar eins og raunar flestra annarra deilda Háskólans hefur verið aukið að mun á síðustu missirum í sambandi við aukið starfssvið deildarinnar.

Auk þessara nýju námsbrauta, sem ég hef nú nefnt, má geta þess, að námsskipan margra deilda Háskólans hefur verið endurskoðuð á síðustu árum eða missirum, m. a. í framhaldi af starfi háskólanefndarinnar, sem skilaði áliti haustið 1969. Ný heildarákvæði í háskólareglugerð hafa verið sett um læknadeild, lagadeild, viðskiptadeild og verkfræði- og raunvísindadeild og ákvæðum um heimspekideild breytt, en nýskipan náms í þeirri deild var komið á skv. reglugerðarbreytingu árið 1965. Hið nýja námsfyrirkomulag í framangreindum deildum felur m. a. í sér aukna fjölbreytni kennslugreina og víkkun á starfssviði deildanna, m. a. í sambandi við framhaldsnám. Þetta taldi ég rétt, að fylgdi upplýsingum um þetta frv. til staðfestingar á brbl. um nám í almennum þjóðfélagsfræðum.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.