10.11.1970
Neðri deild: 15. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

101. mál, atvinnuöryggi

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Með frv. því, sem hér er nú til umr., er raskað grundvelli kjarasamninga verkalýðsfélaganna við vinnuveitendur, sem gerðir voru í sumar. Við gerð þessara samninga var að öllu leyti farið að þeim lögum og reglum, sem um slíka samningagerð gilda. Það frv., sem hér liggur fyrir, felur í sér ákvæði, sem er bein árás á slíkan frjálsan samningarétt. Helztu efnisatriði frv., sem að verkafólki og að verkalýðshreyfingunni snúa, eru í fyrsta lagi það, að hækkanir á vöruverði, sem eiga að skila sér í framfærsluvísitölunni, eiga síðan ekki að koma fram í kaupgreiðsluvísitölunni, eins og samningar þó segja til um. Í öðru lagi á að fella niður 2%-stig af þeim dýrtíðaruppbótum, sem launþegum ber samningslegur réttur til núna 1. des. Það er að vísu látið heita svo, að þessi 2% séu geymd til 1. sept. næsta ár, en ég held, að mjög sé varasamt að treysta um of á þá geymslu, sem þau eiga að vera í, og ekki víst, að þau finnist, þegar að þessum tímamörkum kemur.

Ég hef látið hafa eftir mér í blaðaviðtali, að þetta frv. væri ögrun við láglaunafólkið, og ég get fullvissað hæstv. forsrh. um, að þar var ekki um neitt mismæli blaðamannsins að ræða. Það er sjálfsagt að rökstyðja þessa fullyrðingu. Ég get gert það í stuttu máli. Skerðingin á kaupi láglaunafólks, sem átti sér stað á árunum 1967–1969, var gerð með þeim rökum, að mikill aflabrestur hefði orðið og gífurlegt verðfall á útfluttum sjávarafurðum. Hvort tveggja þetta var að vísu fyrir hendi. Hins vegar höfðum við ýmislegt um það mál sérstaklega að segja og ég rifja upp hér nú. Þessi skerðing nam í marzmánuði s. l. miðað við sept. 1967 u. þ. b. 16% á kaupi Dagsbrúnarmannsins. Hvernig er nú umhorfs? Við höfum haft á s. l. ári og á þessu ári, sem nú er að líða, má segja, metaflabrögð, og útflutningsverðmæti hafa orðið meiri en nokkru sinni áður. Verðlag á útflutningsvörum okkar hefur hækkað miklu meir en það var komið í fyrir verðfallið, mjög miklu meira. Kauphækkunin í vor nam aðeins því að jafna þá skerðingu, sem orðin var á laununum, ekkert umfram það. Og nú vildi ég spyrja og ítreka spurningu, sem hér kom fram í gær: Hvers konar árferði í aflabrögðum og viðskiptakjörum þurfa að vera í þessu landi, til þess að kauphækkun sé möguleg, að ekki þurfi beinlínis að skerða kjörin? Þótt ekki sé tekið til neins annars en þessa í frv., þá er það ögrun við láglaunafólk.

Hæstv. viðskmrh. — slæmt að hann skuli ekki vera viðstaddur, — hélt hér mikla ræðu, fjálglega ræðu í gær um frv. Það læddist að manni sá grunur, þegar maður hlustaði á þá ræðu, að hann hafi lært ýmislegt meira en til doktorsgráðu í hagfræði í Þýzkalandi á tímum Hitlers, ef ég man rétt. Ég held, að hann hafi lært einnig ákaflega mikið í þeirri áróðurstækni að vera ekki allt of vandur að sínum málflutningi. Hæstv. viðskmrh. sagði, að það væri alls ekki ætlunin með þessu frv. að raska kaupi launþega, þvert á móti þá ætti að varðveita gerða samninga og grundvöllurinn, sem allt byggðist á í frv., væri sá, að kaupmáttaraukningin, sem samið var um í sumar, haldi sér. Það er ekkert smáræði, sem sagt er, og þá kunnum við illa að lesa, ef þetta er mergurinn málsins í því frv., sem hér liggur fyrir. Við skulum athuga þetta ofurlítið nánar.

Það er sagt í grg. frv., að kaupmáttaraukningin frá í maí í vor sé um 21.5%. Nú vil ég taka það skýrt fram, að það er röng viðmiðun, þegar talað er um samningsgerðina í vor, að hafa maímánuð sem viðmiðun, einvörðungu vegna þess og einfaldlega vegna þess, að af þeirri kauphækkun, sem samið var um, þegar samningarnir voru gerðir 19. júní í vor, þá er það kaup, sem þar var gert að grunnkaupi og sett 100, engan veginn sú kauphækkun, sem við sömdum um, heldur annað og meira. Þegar við fórum í verkfallið í vor, þá áttum við rétt á kauphækkun, sem nam 4.48% á 10 000 kr. mánaðarkaup. Þetta var sú hækkun, sem vísitalan sýndi, að orðið hefði á verðlaginu frá því 1. febr. og til aprílloka og kom fram í vísitölunni 1. maí, sem síðar átti að koma á kaupið samkv. gildandi samningum 1. júní.

Sem sagt 4.48%, eða 448 kr. á 10 000 kr. mánaðarlaun og lægri, var jöfnun á þeirri hækkun, sem orðið hafði á verðlaginu, en ekki nein umsamin kauphækkun. Kauphækkunin, sem við sömdum um, var hins vegar í almennu verkalýðsfélögunum, eins og hér er margbúið að taka fram, 15–18%. Og það er kaupmáttur þessarar kauphækkunar, sem samningarnir frá í vor um vísitöluna áttu að tryggja, einvörðungu þetta. Við þekkjum hins vegar mjög vel, forystumenn í verkalýðsfélögunum, sem að þessum samningum stóðu, takmörkun þeirra. Við vitum vel, að við fáum verðbæturnar 3 mánuðum eftir á, þetta höfum við samið um og vitum, hvað er. Við vitum einnig, að hinn svokallaði búvörufrádráttur, eða kaup bóndans í verðlagsgrundvelli landbúnaðarvaranna, skilar sér ekki aftur í kaupgjaldsvísitölunni. Þetta vitum við um, þetta höfum við samið um og vitum, hvað er.

En hvernig er nú gert ráð fyrir í frv. þessu að tryggja kaupmáttinn? Í grg. segir, að kaupgreiðsluvísitalan 1. nóv. muni hækka um 6.2% frá 1. sept. eða 1. ágúst. Við skulum ganga út frá, að þetta sé rétt. Um þetta liggja þó engar endanlegar tölur fyrir enn, en við skulum ganga út frá því, að þetta sé rétt. Nú vil ég biðja menn að taka eftir, að þegar þessi 6.2 stig eru nefnd, þá er búið að draga frá hinn svokallaða búvörufrádrátt, sem talinn er nema 1.4 stigum á þessu tímabili. Væri ekki búvörufrádrátturinn, væri kaupgreiðsluvísitalan þess vegna þeim mun hærri eða 7.6 stig. Þarna er komin fram sú skerðing á kaupgreiðsluvísitölunni miðað við framleiðsluvísitölu, sem við höfum samið um og vitum hver er. Þessum 6.2 stigum á síðan að eyða, þannig að kaupgreiðsluvísitalan verði óbreytt eða 4.21% hinn 1. des., og þetta er gert með því, að niður á að greiða samkv. þessu 4.2 stig. Fjár á að afla til þessara niðurgreiðslna aðallega á þrennan hátt. Í fyrsta lagi með hækkun á verði tiltekinna vara, áfengis og tóbaks, og hækkun verðs á þessum vörum, sem á að nota til niðurgreiðslna, á síðan ekki að skila sér aftur í kaupgreiðsluvísitölunni, og þar með er grundvöllur kaupgreiðsluvísitölunnar falsaður. Í öðru lagi er lagður á launaskattur, sem atvinnurekendur eiga að greiða, sem síðan á að standa undir niðurgreiðslunum, og í þriðja lagi á svo fjármagn ríkissjóðs að koma til. En það sem á vantar, þ. e. a. s. 2 stigin, á hins vegar að fella niður, og kaupmátturinn skerðist bókstaflega og beinlínis um þau. Ég nenni ekki að endurtaka um geymslu þeirra.

Það er ennfremur gert ráð fyrir því, að í framtíðinni og það eftir 1. sept. 1971 verði kaupgreiðsluvísitalan a. m. k. 1 stigi lægri en framfærsluvísitalan sýnir, að hún ætti að vera, vegna hækkunar á þessum tilteknu vörum, og hækkun á tryggingagjöldum almannatrygginga, sem einnig er samið um, að eigi að koma inn í kaupgreiðsluvísitöluna, á nú ekki að koma inn. Varanleg skerðing, sem launþegar verða fyrir, þótt við reiknum með, að þessum 2 stigum yrði skilað aftur að ári liðnu, er þó aldrei minni en 1%-stig í kaupgreiðsluvísitölunni.

Það var helzt að skilja á þeim hæstv. ráðh., sem hér töluðu í gær, að í stað 2 vísitölustiga, sem niður eiga að falla, kæmi lækkun á vöruverði og hækkun á fjölskyldubótum, og málgagn þeirra, Morgunblaðið, fullyrðir þetta í ritstjórnargrein í dag. Hér er auðvitað farið með örgustu blekkingar. Lækkun vöruverðs og hækkun fjölskyldubóta er til þess gerð að mæta þessum 4.2 stigum, sem á að eyða. 2 stigin eru hrein skerðing, og það er aldeilis furðulegt að sjá svona málflutning í víðlesnasta blaði landsins.

Út af fyrir sig vil ég hér sem minnst segja um fjölskyldubætur. Þær eru góðar á sínum stað, sem tryggingamál eða sem skattamál, eins og hér var minnzt á áðan, sem einnig gæti komið til greina, en þeim á ekki að rugla saman við kaupgjaldsmál. Verkalýðshreyfingunni hefur aldrei til hugar komið að semja um mismunandi kaup vegna fjölskyldustærðar fyrirvinnunnar eða þess, sem vinnur, en það er í raun og veru það, sem verið er að gera, með því að blanda fjölskyldubótum á þennan hátt saman við kaupgjaldið. Það er auðvitað sjáanlegt og blasir við hverjum manni, að þegar fjölskyldubætur eiga að koma í stað kaupgjaldshækkunar, þá koma þær auðvitað ákaflega mismunandi niður. Hæstv. viðskmrh. ætti að reyna að hitta fjölskylduföður, við skulum segja, að hann eigi 3 börn, sem eru orðin 16 ára, en eru í framhaldsskólum. Ef ég man rétt í frv., þá fær þessi maður eitthvað hálft níunda þús. krónur miðað við ár, ef börnin eru undir 16 ára. En hvað fær hinn? Hann fær engar fjölskyldubætur, en hann fær á sitt bak hækkun almannatryggingagjaldanna vegna þessara unglinga. Hvað skyldi kaupmátturinn aukast mikið hjá slíkum fjölskylduföður?

Hæstv. ráðh. gætu einnig reynt að tala við einhleypinga, sem verða að kaupa fæði sitt á matsölustöðum. Það mætti að vísu halda langa ræðu um, hvernig sífellt er farið með einhleypingana í þjóðfélaginu, en ég ætla ekki að gera það að þessu sinni. En trúa ráðherrarnir því, að matarkaup slíks manns lækki, sem nemur þeirri lækkun, sem verður nú á landbúnaðarvörum. Ætla þeir kannske að sjá til þess. Á matsöluhúsunum hefur verð farið hækkandi alveg fram á síðasta augnablik, sem löglegt var vegna verðstöðvunarinnar.

Vandinn, sem við er að etja, er ekki kauphækkanirnar í vor.

Til þess að þær gætu staðizt og orðið að veruleika og kaupmátturinn haldizt voru allar ytri aðstæður. Vandinn eru þær verðhækkanir, sem látnar hafa verið fylgja í kjölfarið. Að vísu skal ég ekki neita því, að kauphækkanir hljóti ekki í einstaka tilfellum að hafa í för með sér hækkun á vissum þjónustuliðum t. d., það er óhjákvæmilegt. En virðingarleysi hæstv. ríkisstj. fyrir gerðum samningum verkalýðshreyfingarinnar eða aðilanna á vinnumarkaðinum kemur einkum fram á tvennan hátt. í fyrsta lagi á þann veg, að atvinnurekendur eru ekki látnir standa við gerða samninga og taka á sig þær kauphækkanir, sem þeir hafa sjálfir samið um. Þeim er leyft að hleypa þeim út í verðlagið svo til algerlega óheftum, þannig að atvinnurekendur þurfi ekkert á sig að leggja vegna samninganna. Slíkir hlutir hljóta að sjálfsögðu að draga dilk á eftir sér. Í öðru lagi kemur virðingarleysi hæstv. ríkisstj. gagnvart gerðum samningum fram í efni þessa frv., þar sem gerðum samningum beinlínis er breytt, grundvelli þeirra raskað og samningsfrelsið að engu gert. Og trúa nú hæstv. ráðh., að verkalýðshreyfingin geti virt kaupgjaldsákvæði samninga, sem búið er að leika á þennan hátt, svo grátt sem það gert er?

Eitt af afrekum hæstv. viðskmrh. hér í gær var að líkja saman þessum gerningi, sem í frv. felst, og því, sem gerðist í sept. eða ágúst 1956, þegar vinstri stjórnin svonefnda hafði nýlega tekið við völdum. Ég ætla ekki að eyða miklum tíma í að rekja það mál, en kemst þó ekki hjá aðeins að minnast á það. Ég hefði óskað eftir því, þegar hæstv. ráðh. var að flytja mál sitt hér í gær, að hann skýrði, á hvern hátt þessi 6 vísitölustig þá hurfu, en hann bara gerði það ekki. Vinstri stjórnin tók við mjög illa leiknu þjóðarbúi og var margs konar vandi á höndum. Verkalýðshreyfingin hafði trú á því, að þessi ríkisstj. ætlaði verulega að beita öðrum vinnubrögðum, taka á annan veg á efnahagsmálum og atvinnumálum þjóðarinnar en gert hafði verið í tíð næstu stjórnar á undan. Á margan hátt gerði vinstri stjórnin það, og við höfðum mikla trú á þessu í ágúst 1956. Það er svo önnur saga, að endalokin urðu ekki sem glæsilegust. Vísitalan átti að hækka um 6 stig 1. sept. 1956. Nú vil ég minna á, að vísitala þess tíma var öll önnur en vísitalan, sem við búum við nú, grundvöllur hennar allur annar. Þá voru landbúnaðarvörurnar afar veigamikill þáttur vísitölugrundvallarins og miklu þyngri á metunum en hann er nú. Við bjuggum þá við hið margfræga ákvæði um, að hækkun á kaupi bóndans, sem orsakaðist vegna hækkunar, sem orðið hafði á kaupi verkamannsins, skyldi ekki koma fram í kaupgreiðsluvísitölu. Þetta ákvæði var sett inn í gengislækkunarlögin 1950 og hefur verið í gildi síðan, þegar vísitala hefur á annað borð verið í gildi. Þá bjuggum við við þetta ákvæði. Það var vitað, að nokkrum dögum eftir 1. sept. átti verð á búvöru að hækka verulega mikið. Ég man ekki nákvæmlega prósentuna, ég held, að það hafi verið um 10–12%. Það lá alveg á borðinu, að vegna ákvæða gengisfellingarlaganna fengjum við ekki til baka í kaupið nema lítinn hluta af þessari hækkun, og þessi 6 vísitölustig, sem við áttum að fá 1. sept., hurfu svo að segja alveg, vegna þess hve landbúnaðarvörurnar voru þungvægar. Þá var gert samkomulag um, að landbúnaðarvörur hækkuðu ekki í útsölu og verðstöðvun yrði til áramóta. Um þetta gerði verkalýðshreyfingin samkomulag við vinstri stjórnina. Allir helztu forystumenn samtakanna um allt land voru aðspurðir og málið fyrir þá lagt og lagt undir þeirra dóm. Miðstjórn Alþýðusambandsins fjallaði um málið og samþykkti það. Stjórn fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík gerði það einnig. Síðan var haldinn sameiginlegur stjórnarfundur allra verkalýðsfélaga í Reykjavík og þar var málið samþ. með yfirgnæfandi atkv. Að þessu loknu gaf síðan vinstri stjórnin út sín brbl. Þetta er sannleikurinn um atburðina 1956, og það þarf brjóstheilindi til þess að jafna þeim saman við það, sem nú á að gera.

Ég ætla aðeins að ræða hér tvö atriði, sem æði mikið hafa borið á góma og blandazt í umræður um þessi mál, bæði fyrr og síðar. Hið fyrra er hið svokallaða tilboð um gengishækkun, sem samningamönnum verkalýðshreyfingarinnar var gert í vor, og hið síðara varðar þær viðræður, sem fram hafa farið að undanförnu við aðila vinnumarkaðarins af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Hæstv. forsrh. sagði hér í ræðu sinni í gær, að að hans mati hefði hófleg kauphækkun og nokkur hækkun gengis verið farsælasta lausnin, sem hefði verið á boðstólum í vor. Ég held, að það sé alveg óhjákvæmilegt að koma aðeins nánar inn á þetta atriði. Við höfum aldrei gert það sérstaklega áberandi opinberlega, samningamenn verkalýðshreyfingarinnar frá því í vor. En það var svo laugardaginn fyrir hvítasunnu, að við vorum boðaðir á fund ráðh. og sérfræðinga ríkisstj. um efnahagsmál, og við áttum kannske erfitt með að trúa okkar eigin eyrum, en erindið var það, að þessir ráðh., sem staðið hafa fyrst og fremst að gengisfellingum og þeim fjórum á síðasta áratug, ræddu nú í alvöru, að því er virtist, um að hækka nú gengi íslenzku krónunnar. Sumum flaug í hug, — það var nú á hvítasunnunni, sem þetta gerðist, — að það varð hér í eina tíð, að heilagur andi kom yfir postula, og þeir töluðu tungum. Það var eitthvað svona svipað að hlusta á ráðh. Við eiginlega naumast trúðum þessu. En eitthvað var þetta ekki allt of þaulhugsað, því að þegar við fórum að spyrja sérfræðingana, fengum þá á okkar fund og spurðum þá út um ýmis mjög veigamikil atriði, grundvallaratriði varðandi málið, þá fengum við bókstaflega engin svör, sem svör væri hægt að kalla. En boðskapur ríkisstj. var í stuttu máli sá, að gengið yrði hækkað um u. þ. b. 10%, var nú sagt. Það var hins vegar líka sagt, að þessi 10% hækkun gengisins mundi skila sér með u. þ. b. 3% lækkun á almennu vöruverði í landinu. Þessi 3% voru þess vegna sú kjarabót, sem launþegarnir áttu að fá út úr gengishækkuninni. Til viðbótar var svo sagt, að til mála kæmi svipuð kauphækkun. Hvort hins vegar það hefði átt að verða 10% kauphækkun eða 3%, það fengum við aldrei að vita. Og vitum ekki enn í dag. Afstaða okkar var sú, að mæla ekki með þessari aðferð.

Tíu dögum eftir að þetta boð barst okkur, barst okkur einnig í hendur rekstraráætlun fiskvinnslu í landinu fyrir árið 1970, framreiknuð frá árinu 1969. Þegar við fórum að skoða það plagg, þá leizt okkur nú ekki á, að tilboðið um gengishækkun hefði verið á traustum grunni reist. Ef við nú gerum ráð fyrir, — og því gerir nú þetta plagg ráð fyrir, og það vissum við nú raunar kannske áður, — að útflutningsverðmæti sjávarafurðanna væru 5 milljarðar króna, þá hefði 10% hækkun gengisins haft í för með sér 500 millj. kr. lægra verð í íslenzkum krónum til útflytjendanna. Við töldum, að kaup verkafólks við þessa framleiðslu væri hátt reiknað 20% af útflutningsverðmætum. Þá er af þessum 5 milljörðum 1 milljarður kaup verkafólksins. Niðurstaða þessa plaggs, sem við fengum, var allt önnur. Ég nenni nú ekki að fara nákvæmlega í það, en niðurstaðan varð sú, að hagnaður í skattlagningu miðað við endurmetnar afskriftir væri röskar 300 millj. króna miðað við ársgrundvöll, þ. e. a. s. það vantaði 200 millj. kr. upp á samkv. þessu, að sjávarútvegurinn hefði átt fyrir þessari gengishækkun, sem boðuð var. Þegar við fórum að ræða þetta plagg við sérfræðingana, þá varð svarafátt, og ég held nú, að þeir hafi ekki farið með neinum glæsibrag út úr þessu dæmi öllu saman. Þetta eru nú staðreyndirnar um tilboðið frá í vor, um gengishækkun, sem við vildum ekki mæla með. En við sögðum hins vegar, að auðvitað hefði ríkisstj. það í hendi sinni, hvort hún gerði það eða ekki, og að svo miklu leyti, sem það hefði áhrif á vöruverð, þá kæmi það fram í vísitölunni og kaupgjaldið yrði þá þeim mun lægra, sem vöruverðið væri lægra. En það var aldrei lagt út á þær brautir.

Hitt, sem ég ætlaði aðeins að minnast á, — ég skal vera stuttorður — eru viðræðurnar svokölluðu. Ég skal ekkert um það fullyrða, hver hafi raunverulega verið hugmyndin eða viljinn að baki þess tilboðs, sem okkur barst 1. júlí um viðræður við ríkisstj. ásamt með samtökum atvinnurekenda. Ég vil aðeins segja það, að slíkar viðræður geta verið gagnlegar. Menn skiptast á skoðunum, það þarf enginn að láta af sínum hlut fyrir það. Á þessu tímabili hefur margt fróðlegt komið fram í viðræðum við ríkisstj., en ég vil alveg sérstaklega undirstrika, að í þessum viðræðum hefur ekkert komið fram, sem rennir stoðum undir það, að kjör láglaunafólks skuli nú skert, ekki einn einasti stafur. En það er annað varðandi þessar viðræður, sem ekki hefur verið jafn viðfelldið og þau orðaskipti, sem þar hafa farið fram, og það er, hvernig þessar viðræður hafa verið notaðar út á við. Mér er það minnistætt, ég held, að það hafi verið annaðhvort sama daginn eða daginn áður, að hæstv. ráðh. komu fram í sjónvarpi og útvarpi og tilkynntu, að það yrði ekkert af haustkosningum, það væri nú ákveðið. Og ein af höfuðröksemdunum, sem fram voru færðar, eða sárabætur eða hvað það nú var, var það, að nú hefði ríkisstj. snúið sér í alvöru að þessum málum og tekið upp víðræður við Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið um þessi mjög svo erfiðu mál, sem fyrir lægju. Þetta var eins og nokkurs konar kóróna á það að hafa nú ekki haustkosningar. Þetta var nú byrjunin, síðan má segja, að eiginlega við öll tækifæri, möguleg og ómöguleg, hafi þessar viðræður mjög svo verið útbásúnaðar af hálfu stjórnarvaldanna, ráðherranna sérstaklega, og eiginlega gefið í skyn, að von væri mikilla átaka. Ég tel, að slíkar viðræður geti verið gagnlegar, og ég er alveg ófeiminn við það og tel mig ekki neitt þurfa að láta af mínum skoðunum eða sveigja mína afstöðu sérstaklega með tilliti til slíkra viðræðna, en ég vara mjög við þeirri sýndarmennsku, sem fram hefur komið í öllum áróðri hæstv. ráðh. í sambandi við þessar viðræður.

Að lokum, herra forseti, óska ég leyfis til þess að lesa hér örstutta samþykkt, sem stjórn verkamannafélagsins Dagsbrúnar gerði á fundi sínum s. l. sunnudag og varðar efnisatriði þessa frv. Hún er þannig:

„Stjórn verkamannafélagsins Dagsbrúnar mótmælir harðlega þeirri skerðingu á umsömdum kjörum verkafólks, sem stefnt er að með frv. ríkisstj. um ráðstafanir til stöðugs verðlags og atvinnuöryggis, er nú hefur verið lagt fyrir Alþ. Með frv. þessu er m. a. gert ráð fyrir að breyta, verkafólki í óhag, grundvelli kaupgreiðsluvísitölunnar, er samið var um í sumar og einnig, að ekki komi til útborgunar á kaupi 2%-stig, sem verkafólk á samningsbundinn rétt til. Stjórnin átelur harðlega það virðingarleysi æðstu stjórnvalda fyrir nýgerðum samningum, er fram kemur í frv. þessu, og skorar á Alþ. að fella það.“

Afstaða mín til þessa máls er hin sama og fram kemur í þessari ályktun.