18.12.1970
Efri deild: 38. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

176. mál, fyrirframinnheimta opinberra gjalda

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég bið afsökunar á því, að ég hef ekki getað verið hér við allar umr. um þetta mál í hv. d., en það stafaði eingöngu af því, að ég þurfti að vera viðstaddur afgreiðslu tollskrárfrv. í Nd. Og ég get tekið undir það, að vitanlega er það óheppilegt, að þetta þurfi að falla saman, þannig að ráðh. geti ekki sinnt sínum málum og verið viðstaddur umr.; undir það get ég tekið. En það vill nú þannig til, að flest mál, sem nú eru á ferðinni, hafa fallið í minn hlut, m. a. þetta frv. hér. Ég tók það fram, þegar ég lagði þetta frv. fram hér í hv. d., að hér væri ekki um pólitískt mál að ræða í venjulegri merkingu, sem ríkisstj. setti á oddinn, og lagði áherzlu á það, að leitazt yrði við að ná samkomulagi um afgreiðslu málsins. Og mér er vel ljóst, að mönnum hefur sýnzt sitt hvað um málið, og það getur vafalaust orkað nokkuð tvímælis, hvernig við skuli bregðast. Mér er það ljóst, að á síðustu stundu, nema við verðum fram yfir helgi, er auðvitað hægt að tefja málið þannig, að það nái ekki fram að ganga, ef hv. þm. vildu svo vera láta, og væri auðvitað hægt að stöðva það með þeim hætti. Og það má auðvitað segja, eins og hv. 11. þm. Reykv. hér sagði, að það er hugsanlegt að afgreiða málið á framhaldsþingi, þannig að það mundi að vísu leiða til þess, að það yrði að breyta tilkynningunni, sem þegar hefur verið gefin út um fyrirframgreiðslu skatta í febrúarmánuði. Það er rétt, að það er engin fyrirframgreiðsla í janúar, og ég skal ekki segja, hvað mönnum sýndist um það, hvort það þætti ekki óeðlilegt að koma þannig aftan að fólki. Ég a. m. k. tel, að það geti orkað tvímælis, eða a. m. k., að menn verði að gera sér grein fyrir því, en ég geri ráð fyrir, að gæti að öðru leyti verið samstaða um það að afgreiða málið fyrir mánaðamótin janúar — febrúar, þá auðvitað þarf þetta ekki að koma að sök. Þetta að sjálfsögðu veltur aðeins á því, hvort menn eru ekki að deila um formsatriði.

Ég hef ekki hlustað á umr., svo að ég get ekki fullkomlega um það sagt, en að vísu er mér kunnugt um, að fram er komið álit minni hl. hv. fjhn. eða álit hv. 4. þm. Norðurl. e., sem leggst gegn málinu efnislega. En ég hefði haldið, að það mundi þó verða meirihlutafylgi fyrir því út af fyrir sig hér í hv. d. og væntanlega í þinginu, að það væri heppilegt — ef það lægi ljóst fyrir, sem það sýnist nú gera ótvírætt, að skattar manna að krónutölu hækkuðu allverulega — að koma því þannig vel fyrir, að það væri hægt að deila þeirri hækkun nokkurn veginn jafnt á árið, og það er auðvitað í samræmi við þá hugsun, sem felst bak við staðgreiðslukerfi skatta, sem hv. 11. þm. Reykv. vék hér réttilega að. Ég er ekki í neinum vafa um það sjálfur, að það er hér um veigamikil atriði að ræða. Ég tók það fram í byrjun í framsöguræðu minni fyrir málinu, að það snerti ekki ýkja mikið hag ríkissjóðs; beinir skattar eru ekki svo stór hluti af hans tekjum. Ég tel, að hér sé fyrst og fremst um að ræða verulegt hagsmunamál sveitarfélaganna, sem mér er ekki ljóst, hvernig þau fá undir risið, ef þau eiga ekki að fá aukinn hluta útsvara fyrri hluta árs. Þar sem það liggur fyrir, að öll sveitarfélög gera ráð fyrir yfir 30% hækkun á útsvarstekjum, þá hlýtur þetta að leiða til stórvandræða, og einnig — og ég tala þar frá eigin brjósti — held ég, að menn muni almennt geta orðið sammála um það, að það sé æskilegra að deila skattgreiðslum sínum með nokkurn veginn jöfnum upphæðum á ár hvert en að fá seinni hluta árs mjög háa skatta. Við höfum þegar eitt dæmi fyrir okkur um þetta frá árinu 1964, og ég geri ráð fyrir, að öllum sé í fersku minni, að vegna stórhækkaðra álagna í krónutölu leiddi það til þess, að það varð jafnvel að fresta skattgreiðslum milli ára. Þetta hygg ég, að við getum allir verið sammála um, að ekki sé æskilegt, að komi fyrir aftur, þannig að efnislega eigi menn ekki að þurfa um það að deila.

Hér skilst mér, að hafi verið borin fram fsp. um það, hver yrði skattvísitalan. Ég get ekki svarað þeirri fsp. endanlega. Það hefur verið leitað álits alveg nýlega hjá þeim aðilum, sem um það eiga að gefa álit, og þau álit eru að vísu komin í mínar hendur, en þau hafa ekki verið athuguð það gerla, að ég geti skýrt það endanlega, þannig að á verði byggt, hver skattvísitalan verður. En ég get þó sagt það og segi það þó með fyrirvara, að ég tel líklegt, að skattvísitala hækki um nálægt 20%, þ. e. muni verða um 28 stig, og það er reiknað með þeirri breytingu á skattvísitölu í fjárlögum. Ég tek það skýrt fram, að með þessu er ég ekki að fullyrða, að það verði nákvæmlega þessi tala — ég á eftir að skoða þessa hluti betur, en mér sýnist þó, að yrði þessi tala valin, þá mundi það fullkomlega ná þeim kauphækkunum, sem orðið hafa, og væri mjög verulega umfram þá hækkun, sem hefur orðið á framfærslukostnaði á árunum 1969–1970. Það liggur ljóst fyrir.

Raunar skiptir þetta engu máli í sambandi við þetta mál hér, hver verður skattvísitalan. Það er algert aukaatriði, vegna þess að þurfi sveitarfélögin að fá vissar tekjur til sinna þarfa, mundi mikil hækkun skattvísitölu aðeins leiða til þess, að þau yrðu að hækka álagið á útsvarsskatt. Þau þurfa að ná þessum tekjum með einhverjum hætti, og verði skattvísitalan áætluð enn lægri, ef svo má segja, þá hefur það aðeins þessar afleiðingar. Úr því að það liggur ljóst fyrir hjá ýmsum stærstu sveitarfélögunum, að það þarf að verða mjög veruleg útsvarshækkun, þá breytir skattvísitalan engu þar um. Það verður þá að ná þeirri útsvarshækkun með álagi á skattstigann. Þetta hygg ég, að við þurfum ekki að deila um.

Ég hef á þessu stigi ekki haft aðstöðu til þess að bera mig saman við þá menn, sem sérstakra hagsmuna hafa að gæta í því, né við fulltrúa sveitarfélaganna, sem leggja áherzlu á að sjálfsögðu, að þetta nái fram að ganga, og vitanlega væri betra, að það biði en það félli hér í hv. d. Ég hafði hins vegar ímyndað mér, að menn hefðu haft nú orðið nokkuð samstöðu um það, að með þeirri brtt., sem hér er flutt, gætu menn eftir atvikum stutt málið, þannig að ég skal ekkert segja að vísu, hvort það kæmist í gegnum Nd.; það veit ég ekki um — því að kannske er það til of mikils ætlazt, að d. afgreiði málið án n. En ég hafði ímyndað mér að vísu, þótt menn séu með fyrirvara varðandi afstöðu sína til málsins, að það væri nóg eftir atvikum og meiri hl. þessarar d. teldi, að það ætti að fallast á að afgreiða málið með þeirri brtt., sem hér hefur verið samþ. Og ég mundi nú gjarnan, nema það komi fram veruleg andstaða gegn því, óska eftir því, að málið fengi að fara í gegnum þessa d. með þessari breyt., sem hv. n. hefur lagt til, og það verði þá síðan látið sjá til með það, hvort auðið verður að afgreiða málið til fulls. Því að ég held, þegar allt er skoðað niður í kjölinn, ef menn eru á annað borð efnislega sáttir við að afgreiða málið 25. jan. eða fyrir 1. febr., þá væri heppilegra, að fólk vissi það á réttum tíma fremur en þurfa að fara að gera breytingar á nýútgefinni ákvörðun um það, hver fyrirframgreiðslan ætti að vera eða auka verulega fyrirframgreiðsluna fyrir næstu mánuði, sem að vísu mundi, að mér skilst, ekki vera heimilt samkv. þeirri brtt., sem gert er ráð fyrir í frv., eða a. m. k. mjög hæpið.

Að vísu mætti gjarnan taka fyrir hér annað mál á dagskránni, sem þarf að komast hér í gegn, og fresta umr. um þetta um sinn, meðan menn bera saman bækur sínar um þetta efni. En ég legg áherzlu á það, sem ég sagði í upphafi, að þetta er mál, sem er hér flutt af þeirri ástæðu, að það er talið vera til hægðarauka — fyrst og fremst fyrir sveitarfélögin og fyrir almenning, en ekki pólitískt mál ríkisstj., og þess vegna leitaðist ég nú við, áður en málið var flutt, að ná um það samstöðu, þó að það hafi því miður ekki tekizt.