18.12.1970
Efri deild: 38. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

176. mál, fyrirframinnheimta opinberra gjalda

Frsm. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Það er ekki um málið sjálft, sem ég ætla að ræða hér frekar en ég gerði í minni framsögu fyrir mínu minnihlutaáliti. Ég hef ekki neinu við það að bæta, sem ég sagði þá, og tel mig hafa fullskýrt afstöðu mína til málsins, en það, sem ég vildi aðeins segja hér, varðar meðferð málsins. Ég hlýt að benda á það, að það, sem hæstv. fjmrh. sagði um meðferð málsins, er ekki það sama, sem hann sagði hér við 1. umr., því að þá tók hann skýrt fram, að þetta mál yrði ekki af sinni hálfu látið ganga fram, nema um það yrði fullt samkomulag. Nú hefur bæði verið eindregin andstaða gegn því í hv. fjhn., og báðir stjórnarandstöðuflokkarnir, sem þar eiga fulltrúa, hafa óskað sérstaklega eftir því, að afgreiðslu málsins verði frestað. Mér finnst þess vegna, að það sé ekki lengur um það að ræða, eins og hæstv. ráðh. sagði, að afgreiðsla mundi velta á því, hvort deilan sé um formsatriði eða efnisatriði. Mér finnst það einfaldlega veita á því, hvort hæstv. ráðh. stendur við orð sín eða ekki.