04.02.1971
Efri deild: 45. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (563)

176. mál, fyrirframinnheimta opinberra gjalda

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Eins og hv. þdm. er kunnugt, var tekin aftur til 3. umr. brtt., sem meiri hl. fjhn. hafði flutt fyrir jól á þskj. 282. Síðan hefur fjhn. haldið fund um málið, og verður þessi brtt. nú endanlega dregin til baka, en þess í stað hefur meiri hl. n. flutt aðra brtt. á þskj. 336. Því miður hefur þessi meiri hl. að vísu minnkað frá því, sem var fyrir jólin, því að þeir tveir hv. framsóknarmenn, sem sæti eiga í n., sáu sér ekki fært að vera meðflm. að þessari nýju útgáfu af brtt. Það, sem ég álít veigamestu rökin fyrir því að flytja þetta frv., eru erfiðleikar sveitarfélaganna, sem fyrirsjáanlegir eru á fyrri hluta þessa árs vegna þess, hve útgjöld þeirra hafa hækkað geysimikið vegna almennra kauphækkana fyrst og fremst, sem urðu á s. l. ári, án þess að tekjur þeirra hækki samsvarandi. En eins og kunnugt er, eru útsvörin, sem fyrst og fremst má skoða sem tekjuskatta, aðaltekjustofn bæjar- og sveitarfélaganna, en þar sem fyrirframgreiðsla útsvara er miðuð við skatta fyrra árs, þá er auðsætt, að þau útsvör, sem á verða lögð á þessu ári, verða ekki — nema að miklu minni hluta en áður hefur verið, þegar kaupgjald hefur verið stöðugra — innheimt á fyrri hluta næsta árs, en aðalþungi útsvarsgreiðslunnar kæmi þá auðvitað á seinni hluta ársins. Nú mætti að vísu segja sem svo eða spyrja sem svo, hvort bankarnir og aðrar lánastofnanir geti þá ekki fleytt bæjar- og sveitarfélögunum yfir þennan hjalla. En ég býst við, að bankarnir muni segja, að vandi þeirra sé ærinn að standa undir þeim lánum, sem þeir af öðrum ástæðum verða að veita, þó að þeir þyrftu ekki að bæta þessu á sig, en þar yrði auðvitað um mjög verulegar fjárhæðir að ræða. Auk þess væri slík lánsfjárþensla af hálfu bankanna tæplega æskileg fyrir efnahagskerfið að mínu áliti, þó að ég ræði það ekki frekar. Þetta tel ég meginástæðuna fyrir því, að eðlilegt sé að samþykkja frv. með þessu sniði, og með tilliti til þess hefur meiri hl. n. gert þá breytingu á sinni till., að sú heimild, sem í frv. felst, mundi aðeins vera fyrir yfirstandandi ár.

Annað atriði hefur eðlilega blandazt inn í þetta — nefnilega það, að væri þessi heimild upp tekin í lög, þ. e. að breyta þeirri prósentu, sem fyrir fram er innheimt, þá mundi það vera spor í áttina til staðgreiðslukerfisins. Það segir svo í grg. fyrir frv., að slíkt, að ekki er heimilt að innheimta meira en 50% af álögðum gjöldum fyrra árs, sé bagalegt bæði fyrir hið opinbera og ekki síður fyrir gjaldendur, svo sem dæmi eru um.

Það getur varla farið á milli mála, að þetta er bagalegt fyrir hina opinberu aðila, sem þarna eiga hlut að máli, og þá auðvitað fyrst og fremst bæjar- og sveitarfélögin, því að þetta skiptir ríkið miklu minna máli vegna þess, hve beinu skattarnir eru tiltölulega lítill hluti af tekjum þess. En að þetta sé hagnaður fyrir gjaldendurna, það kann hins vegar kannske að koma sumum einkennilega fyrir sjónir, og sé lítið algerlega stærðfræðilega á þetta, þá er auðsætt, að reikningslega séð, eins og ég sagði, getur það varla verið til baga að fá vaxtalaust lán í nokkra mánuði, því að ég hygg, að hv. þm., sem eru að reyna að fá lán fyrir skjólstæðinga sína í lánastofnunum, telji sig vel gera, ef það tekst að útvega slík lán, þó að þau séu með allt að því 10% vöxtum eða meira, hvað þá ef lánin væru vaxtalaus.

Þó að maður voni allt hið bezta um verðstöðvunina, þá munu fæstir hv. þm. telja líkur á því, að peningarnir vaxi við það og verðgildi peninganna verði meira á komandi hausti en það er nú, þannig að það yrði meiri fórn að láta þá af hendi þá en nú. Þrátt fyrir þetta er það kannske ekki algerlega út í bláinn að tala um, að það gæti verið a. m. k. sumum gjaldendum til góðs að losna sem fyrst við þessa skuldbindingu sína til ríkisins. Reynslan hefur oft og tíðum sýnt það, að mönnum hefur ekki orðið gott af því að skulda ríkinu. Þannig að eins og fólk nú einu sinni er, þá eru það a. m. k. margir, sem ekki hafa þá fyrirhyggju að leggja fyrir vegna skatta, sem þeir skulda.

Og að vissu leyti gæti það auðvitað verið spor í átt til staðgreiðslukerfis að breyta þessari fyrirframinnheimtu. Þó ber að hafa í huga í því sambandi í fyrsta lagi, að hér eru aðeins heimildir til þess að hækka innheimtuna, ef kaupið hækkar þannig um visst mark, en ekki samsvarandi heimild til lækkunar, sem þyrfti að vera, ef þetta væri hliðstætt staðgreiðslukerfinu. Og auk þess ber að hafa í huga — þó að sú röksemd, sem ég nefndi, hafi verið færð fram til stuðnings staðgreiðslukerfinu, þ. e. að það sé gott, að skattarnir breytist sjálfkrafa til samræmis við tekjurnar — ófyrirsjáanlegar sveiflur, sem á tekjunum verða, eins og t. d. þegar afli bregzt og svo það, sem allir gera sér ljóst, að hafi tekjur s. l. árs verið hærri en ársins á undan, komi þeir til með að greiða hærri skatta.

En hvað sem því líður, er persónuleg skoðun mín sú, að æskilegra væri þá einmitt út frá þessu sjónarmiði að hraða því, að tekið væri upp staðgreiðslukerfi en lappa upp á fyrirframinnheimtuna. En það, sem er frá mínu sjónarmiði aðalatriðið í því sambandi, er, að þar sem vitað er, að breytingar á skattalögunum munu síðar koma fyrir þetta þing, þá er eðlilegt að taka þetta mál upp í sambandi við það, og út frá því sjónarmiði einnig, að það er fyrst og fremst hagur bæjar- og sveitarfélaga, sem hér er borinn fyrir brjósti, þá leggur meiri hl. n. til þá breytingu, sem hér liggur fyrir á þskj. 336, og væntir þess, að hv. d. geti á það fallizt að samþykkja frv. með þeirri breytingu.