04.02.1971
Efri deild: 45. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (565)

176. mál, fyrirframinnheimta opinberra gjalda

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það var fallizt á það hér fyrir jól að fresta þessu frv., þar til Alþ. kæmi saman að nýju, vegna þess að því var haldið fram af ýmsum, að þeir hefðu ekki haft aðstöðu til þess að skoða það sem skyldi. Niðurstaðan virðist hafa orðið sú, að þessi nánari skoðun hafi leitt til þess, að jafnvel þeir séu nú á móti því, sem þá voru hlynntir málinu eða ekki kannske beint hlynntir því, en í vafa um það, hvort ekki væri rétt eftir atvikum að fallast á það. A. m. k. sé ég, að tveir þeirra, sem þá stóðu að nál. meiri hl. og brtt., eru ekki skráðir á síðari brtt. (Gripið fram í.) Já, það kann vel að vera, en það mun rétt ályktað út frá því, að þetta er með þessum hætti nú á till., eins og hún liggur fyrir. Ég ætla ekki að fara að orðlengja um þetta mál. Það er alveg þarflaust. Það var búið að ræða það, svo að þess gerist ekki þörf. Ég vil hins vegar vekja athygli á því, að síðan það var flutt, hafa ýmsar sveitarstjórnir og — að ég hygg — allra stærstu kaupstaðir landsins lagt á það ríka áherzlu, að málið næði fram að ganga alveg án hliðsjónar af því, að mismunandi stjórnmálaaðilar stjórna þar málum. Enda lagði ég áherzlu á það, þegar ég lagði frv. fram, að það væri Samband ísl. sveitarfélaga, sem hefði fyrst og fremst átt frumkvæði að því að koma málinu áleiðis, og ég hefði talið mér skylt að koma á framfæri þeirri ósk, af því að hún væri réttlát og eðlileg, en hér gæti ekki verið um flokkspólitískt mál að ræða, heldur er vandamálið allt annars eðlis.

Ég vil taka það fram, að ég get mjög vel fellt mig við þá till., sem hv. meiri hl. fjhn. nú við 3. umr. flytur við frvgr., þ. e. að hún orðist sem þar segir, og tei, að það nái fullkomlega tilgangi sínum, þó að þetta nái aðeins til ársins 1971. Ég vil því hugga hv. 11. þm. Reykv. með því — til þess að hann vaði ekki í neinni villu eða efasemdum um, hvað fyrirhugað sé í því efni — að það er fyrirhugað að lögfesta þetta til frambúðar í skattalagafrv. því, sem væntanlega verður lagt fram, og það er svo aftur þingsins mál, hvort það fellst á það eða ekki. Það er önnur saga. En ég vil jafnframt vekja athygli á því, að færi svo, að hv. Alþ. teldi rétt að innleiða staðgreiðslukerfið, þá yrði þessi vandi algerlega úr sögunni, vegna þess að þá mundi koma af sjálfu sér það, sem felst í þessu, að það er einmitt ætlunin með því, að reynt verði að meta það hverju sinni, hverjar álögurnar muni verða á viðkomandi ári og að þær komi til greiðslu með eðlilegum hraða. Þetta er svo í öllum þeim löndum, þar sem staðgreiðslukerfi er, og mundi að sjálfsögðu hafa sömu afleiðingar hér. Þetta er meginþáttur í staðgreiðslukerfinu og ein af veigamestu röksemdunum fyrir því, að menn séu ekki með í vasanum fjármuni, sem vitað er, að þeir í rauninni ekki eiga, heldur eiga að renna til opinberra þarfa, og það verði þess vegna ekki til þess, að aftur verði erfiðleikar hjá þeim að standa skil á þeim síðar meir.

Þetta vildi ég aðeins láta koma fram í sambandi við það atriði brtt. að binda þetta við árið 1971. Það var talið rétt í þessu frv., og mér finnst ekki nema eðlilegt, að það sé svo í þessu frv. Sannast sagna hafði ég vonazt til, að þetta mundi leiða til þess, að menn eftir atvikum teldu rétt að fallast á þessi sjónarmið — sem fyrst og fremst eru sjónarmið sveitarfélaganna til að mæta vanda þeirra — þegar þetta væri bundið við þetta ár, og menn hefðu þá aftur svigrúm til þess, þegar almenn ákvæði kæmu til meðferðar, að lýsa skoðunum sínum í því efni. En við því er ekkert að segja. Menn verða að hafa sínar skoðanir, og skal ég ekkert um það frekar ræða. Hitt held ég, að sé alveg ljóst, eins og hv. 11. þm. Reykv. gat réttilega um, að hér mun leiða til stórvandræða fyrir sveitarfélögin. Ég hygg, að það sé alveg rétt, að það séu um 80 millj. kr. fyrir Reykjavíkurborg eina núna á fyrri hluta ársins og hliðstæð fjárhæð, að ég hygg, fyrir aðra kaupstaði, þó að það sé ekki í eins stórum mælikvarða.

Ég held, að það sé alveg ljóst mál, að það verði a. m. k. vægast sagt erfitt — og ég hygg í rauninni útilokað, að bankakerfið fáist til þess að mæta því og valda þannig þeirri stórauknu þenslu, sem af því leiðir, ef ætti að veita öllum sveitarfélögum landsins fyrirgreiðslu til að afla þessara fjármuna, enda gersamlega óeðlilegt að gera það, þar sem vitað er, að skattarnir munu koma hér til með að jafna þessi met. Og ég veit, að ég þarf ekki að fræða jafnglöggan mann og hv. 11. þm. Reykv. um það, að það auðvitað hefur efnahagslega mjög slæm áhrif að fara að dreifa út óeðlilega miklu fjármagni og láta fólk hafa óeðlilega mikið fjármagn milli handa. Það hlýtur að hafa óheppileg áhrif á eftirspurn eftir vörum og þjónustu og óheillavænleg áhrif þannig á efnahagskerfið, af því að ég held, að það verði ekki fundin nein úrræði til þess, að hægt sé að komast hjá því að innheimta þessi útsvör eða skatta, sem hér er um að ræða, þó að það væri út af fyrir sig ánægjulegt. Það held ég og hef ekki heyrt neinn mann halda fram, að hugsanlegt væri að komast hjá þeirri innheimtu. Vegna þessa verðum við að horfast í augu við þá erfiðleika, sem munu rísa, ef ekki er hægt að fallast á það sjónarmið að innheimta það með þessum hætti, sem hér er lagt til.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, að orðlengja frekar um þetta mál. Þetta var í rauninni þaulrætt fyrir áramótin, þannig að menn hafa algerlega myndað sér sínar skoðanir um það og heyrt þær röksemdir með og móti, sem um er að ræða, enda er það tiltölulega einfalt.