04.02.1971
Efri deild: 45. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

176. mál, fyrirframinnheimta opinberra gjalda

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Þetta verða ekki nema örfá orð; það er þýðingarlaust að vera að karpa um þetta. En það lét ekki lengi á sér standa, að ég fengi staðfestingu á þeim grun, sem ég hafði um það, að það mundi fara eins um þetta bráðabirgðaákvæði og svo mörg önnur, þ. e. að því yrði haldið áfram, því að hæstv. fjmrh. upplýsti það, að í væntanlegu skattalagafrv. væri till. um að lögfesta þetta til frambúðar. Nú er mér ekki alveg ljóst . . . (Fjmrh.: Ekki nákvæmlega þetta ákvæði.) Nei, það gat tæpast verið, en sambærilegt ákvæði, sem verður þá væntanlega að bíða betri tíma að átta sig á, þ. e. þegar maður hefur séð, hvernig ákvæðið er. En sams konar ákvæði verður tæpast lagt til að lögfesta, eða ég get ekki skilið það. Þá væri a. m. k. komið æðilangt frá upphaflegum tilgangi frv., sem virtist vera sá, að í þeim tilfellum einum, að um verulegar kauphækkanir hefði orðið að ræða milli ára, mundi verða innheimt þessi hærri prósenta. Og ég held, að þetta sé ekki heppilegt. Ég sagði það áðan, að mér leizt ekki á það, eins og frv. var upphaflega ákveðið, að það væru aðilar í þjóðfélaginu, sem skæru úr um það án atbeina Alþ., hver fyrirframinnheimta opinberra gjalda skyldi vera í hvert skipti, og ég tel þess vegna, eins og ég sagði hér áðan, að þrátt fyrir allt sé þessi brtt., sem nú er verið að ráðgera að lögfesta, betri en hin. Menn vita þó, hvað þeir eru að samþykkja í þessu tilviki. Í þessu tilviki er verið að samþykkja það, að á árinu 1971 skuli fyrirframinnheimtan nema 60% af útsvörum fyrra árs eða af opinberum gjöldum fyrra árs.

En ég get svo sem geymt mér allar bollaleggingar um það frumvarpsákvæði, þangað til það sér dagsins ljós, og skal ekki eyða meiri tíma í það að sinni, því að hæstv. fjmrh. sagði hér, að það væri ekki heppilegt, að fólk hefði óeðlilega fjármuni milli handa. Ég veit nú ekki, hvað á að lesa út úr þessum orðum. Ég hef tilhneigingu til þess að lesa það út úr þeim, að hæstv. ráðh. meini það, að fólk eigi ekki að hafa þá fjármuni á milli handa, sem aðrir eiga, og það er út af fyrir sig göfugur hugsunarháttur. En mér finnst þó óeðlilegt í sannleika sagt, að í hvert skipti, sem fólk fær aukna fjármuni á milli handa, t. d. vegna þess að framfærslukostnaður hefur hækkað, þá skuli undir eins vera komnir sendimenn frá því opinbera til þess að sækja þessa fjármuni.

Og ég segi fyrir mitt leyti, að ég hef þá trú á hinum almenna gjaldanda, þó að til séu undantekningar — það skal ég játa — að hann átti sig á því, að gjöldin verði hærri seinni hluta árs en þau eru á þeim fyrri og hann muni gera ráðstafanir til þess að mæta því, því að það er ekkert spaug að lenda í klónum á innheimtumönnum þess opinbera. Það hafa margir lent í því, og auglýsingar í blöðum sýna það, hvað við liggur, ef menn bregðast þeirri gjaldskyldu. Þess vegna er ég ekki svo voðalega hræddur um það, að það verði óeðlilegir fjármunir í veltunni, þó að það sé beðið með það þessa fjóra mánuði að klófesta þær kauphækkanir, sem fólk var að fá í hendur nú fyrir nokkrum dögum.

Það voru engar fréttir fyrir mig, sem hv. 4. þm. Reykn. greindi hér frá, að sveitarstjórnir margar hefðu samþykkt þessi lagaákvæði og óskað eftir því, að þær fengju meira fjármagn í hendur. Það er sjálfsagt mjög eðlilegur hlutur og vandfundin sú sveitarstjórn, sem alþakkar meira fjármagn en henni stendur til boða. En ég vil bara minna á það, að í mörg undanfarin ár hefur hv. Alþ. alltaf verið að teygja sig lengra og lengra til móts við sveitarfélögin á kostnað gjaldendanna. Jú, vissulega. Það þýðir ekki að neita því. Það eru aðeins 2–3 ár, síðan það var ákveðið hér á Alþ., að útsvör fengjust ekki frá dregin, nema helmingur fyrra árs útsvars væri greiddur fyrir 31. júlí hvert ár. Ég var samþykkur þessu ákvæði, vegna þess að mér fannst, að það stuðlaði frekar að því, að staðgreiðslukerfi kæmist á. En ég get ekki fyllilega jafnað þessu ákvæði, sem hér er verið að tala um, til þess. Það geri ég ekki. Og það er ekki ýkja langt síðan sveitarfélögunum var veittur þó einhver réttur til þess að innheimta gjöldin — ég man ekki nákvæmlega, hvað það er langt — en það hefur ekki staðið um aldur og ævi, að sveitarfélög hafi reynt að innheimta fyrir fram með tilheyrandi lagafylgjum, sem því fylgir núna. Það er tiltölulega nýtt. Það ákvæði var líka sett fyrir sveitarfélögin, þannig að ég held, að þrátt fyrir allt sé ekki ástæða til fyrir sveitarfélög almennt að kvarta undan því, hvernig Alþ. býr að þeim.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar. Ég bíð með nokkurri forvitni eftir að sjá, hvernig hæstv. fjmrh. hugsar sér fyrirkomulag þessara mála í framtíðinni, en um það get ég auðvitað ekkert sagt, fyrr en þar að kemur.