11.02.1971
Neðri deild: 46. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

176. mál, fyrirframinnheimta opinberra gjalda

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er fyrst og fremst hér flutt vegna óska frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, og var það upphaflega í því formi, að sett var almenn regla um það eða gert var ráð fyrir almennri reglu um það, að ef kaupgjald hefði hækkað almennt um 15% milli skattára, þá mætti hækka fyrirframinnheimtu opinberra gjalda umfram þau 50%, sem nú er ákveðið í l., og þá er, eins og hv. þdm. er kunnugt um, miðað við skatta viðkomandi aðila s. l. skattár. Orsökin fyrir þessari beiðni var sú, sem einnig er alkunna, að miklar sveiflur hafa nú orðið á kaupgjaldi, sem munu leiða til þess, að verulegar hækkanir verða í krónutölu á opinberum gjöldum á þessu ári. Það liggur í augum uppi, að hvað sem líður skattvísitölu, þá engu að síður leiða kauphækkanirnar til þess, að gjöldin verða nú mun hærri. Það blasir við augum og er þegar vitað, að fjárhagsáætlanir margra sveitarfélaga og reyndar flestra þeirra hækka mjög verulega eða milli 30 og 40% og megintekjustofn sveitarfélaganna eru útsvörin. Varðandi ríkissjóð skiptir þetta að vissu leyti einnig máli, en þó í miklu minna mæli, þar eð tekjuskattur er ekki nema lítill hluti eða 10% af heildartekjum ríkisins, þannig að hér er að sjálfsögðu um miklu þýðingarmeira mál að ræða fyrir sveitarfélögin.

Í annan stað blasir það einnig við augum, þegar þessi staðreynd er skoðuð, að það er síður en svo hagkvæmt fyrir gjaldþega að þurfa seinni hluta ársins að greiða mikinn meiri hluta sinna opinberu gjalda. Það hefur áður komið fyrir, að mig minnir árið 1964, að slík sveifla varð, að opinber gjöld hækkuðu stórlega frá fyrra ári, og hafði það þau áhrif í för með sér varðandi gjaldendur og olli miklum erfiðleikum margra, að seinni hluta ársins var tekinn af þeim svo stór hluti tekna þeirra í mörgum tilfellum, að til vandræða horfði. Ég hygg því, að það sé nokkurn veginn ljóst mál, ef það er af sanngirni skoðað, að þar sé um að ræða hagsmunamál — ekki aðeins fyrir þá, sem gjöldin eiga að fá og þá fyrst og fremst sveitarsjóðina, heldur einnig fyrir gjaldendurna sjálfa — að þetta sé jafnað, svo sem gert var ráð fyrir í umræddu frv.

Í hv. Ed. var gerð sú breyting á frv., að ákveðið var að festa þessa fyrirframgreiðslutölu í 60% og miða hana eingöngu við árið 1971. Þetta skiptir vitanlega ekki neinu máli, vegna þess að í frv. því til breytinga á tekju- og eignarskattslögum, sem nú verður hér til umr. á eftir, er sett almenn regla, sem er ætlað að gilda til frambúðar, ef slíkar sveiflur verða, sem hér er sjáanlegt að verða á þessu ári. Það má rétt minna á það, að það hefur m. a. verið ein af röksemdunum fyrir því að taka upp staðgreiðslukerfi skatta að forðast slíkar sveiflur í skattgreiðslum, og ef staðgreiðslukerfið hefði verið komið á, hefði ekki verið um að ræða þá sérstöku erfiðleika, sem gera það nauðsynlegt að flytja þetta frv., sem hér liggur fyrir.

Ég skal ekki, herra forseti, orðlengja um málið. Það er mjög einfalt, en ég vildi mjög mega vænta þess, að hv. þd. sæi sér fært að taka skjótlega afstöðu til þess, svo að hægt verði að miða fyrirframgreiðsluna um næstu mánaðamót við gildistöku frv., ella mundi það leiða til þess, að fyrirframgreiðslan um tvenn næstu mánaðamót þar á eftir yrði óeðlilega há, þannig að það væri engum til góðs. Það er því brýn nauðsyn, að þetta verði afgreitt það tímanlega fyrir mánaðamót, að það verði hægt að undirbúa fyrirframgreiðslurnar í samræmi við frv., ef hv. þd. fellst á að samþykkja það og gera það að lögum, sem ég vonast til, að verði.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.