10.11.1970
Neðri deild: 15. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

101. mál, atvinnuöryggi

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hér hafa nú þegar orðið alllangar umr. um þetta frv., og hefur ýmislegt komið hér fram í umr., sem vissulega gefur tilefni til þess, að vikið sé að því, en ég mun nú aðeins ræða hér örfá atriði til þess að lengja þessar umr. ekki um of. Það eru sérstaklega hér nokkur atriði, sem fram komu í ræðu hæstv. viðskmrh., sem mig langar til þess að víkja að.

Í fyrsta lagi er það það atriði í ræðu hans, þar sem hann fullyrti, að hér væri um að ræða svipaðar ráðstafanir varðandi kaupgjaldsmálin og gerðar hefðu verið í tíð vinstri stjórnarinnar haustið 1956. Það hefur að vísu hér fyrr í þessum umr. verið vikið að þessum ummælum hæstv. ráðh. og sýnt fram á það með allljósum dæmum, að það, sem ráðh. sagði í þessum efnum, er alrangt. Það fær ekki staðizt. Það er svo út af fyrir sig sérstakt mál, að hæstv. núv. viðskmrh. var í þeirri ríkisstj., sem lagði fram till. 1956, sem hann vitnar til, og þá stóð hann með þeim till. og taldi, að þær væru þá fluttar á þeim grundvelli, að eðlilegt væri að samþykkja þær, þar sem verkalýðshreyfingin í landinu hefði fallizt á meginmál þeirra. En nú flytur hann mál sitt þannig, að hann lætur að því liggja, að þær till. hafi raunverulega jafngilt 3% launalækkun fyrir launafólk í landinu. En hvað var það, sem gerðist í þessum málum haustið 1956? Það er rétt, að það voru gefin út brbl. 28. ágúst 1956 um það, að 6 vísitölustig skyldu ekki verða reiknuð í kaupgjaldsvísitöluna þá eftir örfáa daga, eða þann 1. sept. og þannig skyldu þessi mál vera fram til áramóta. En eins og skýrt kom fram í umr. á Alþ. um þetta mál á sínum tíma, þá lá það fyrir, þegar þetta samkomulag var gert á milli vinstri stjórnarinnar og verkalýðshreyfingarinnar í landinu, að þá eftir 15 daga eða þann 15. sept. átti landbúnaðarvöruverð í landinu að hækka um 11.8% og launþegar í landinu hefðu þurft að standa undir þessari verðhækkun á landbúnaðarvörum frá 15. sept. til 1. des. bótalaust. Þeir stóðu því frammi fyrir því, að þeir gátu að vísu samkv. sínum samningum haldið 6 vísitölustigum í kaupi frá 1. sept. til 1. des. eða á næsta vísitölutímabili, en þeir urðu að greiða næstum á öllu þessu tímabili, eða frá 15. sept. til 1. des., 11.8% hækkun á landbúnaðarvörum. Auk þess, lágu svo fyrir nokkrar aðrar verðhækkanir, sem var alveg augljóst, að mundu ná fram að ganga, ef ekki yrði sett sérstök löggjöf til þess að koma í veg fyrir þá verðlagshækkun. Það, sem verkalýðshreyfingin í landinu gerði á þessum tíma, var það, að hún leit á þessi mál á raunhæfan hátt. Hún virti fyrir sér, hvernig dæmin mundu koma út kaupmáttarlega séð, og allir helztu forustumenn verkalýðshreyfingarinnar komust að þeirri niðurstöðu, að það væri, eins og málum þá var háttað, hagstætt að falla frá þessum 6 vísitölustigum gegn þeim skilyrðum, að engar vörur og þá ekki heldur landbúnaðarvörur hækkuðu á þessu tímabili, á þessum 4 mánuðum, og ríkissjóður tók að sér að greiða bændum sinn hluta beint úr ríkissjóði af þeirri kauphækkun, sem þeir áttu enn eftir að fá greidda. Síðan var haldið þannig á málinu, að ekki var um neina hækkun á landbúnaðarvörunni að ræða.

Það kom skýrt fram í umr. á Alþ., þegar þessi mál lágu fyrir, að áður en brbl. voru sett, hafði málið verið borið undir svo til alla formenn í verkalýðsfélögum í landinu, og þeir höfðu lýst yfir samþykki sínu við, að þannig yrði haldið á málum. Í Reykjavík var haldinn fundur með öllum stjórnarmeðlimum allra verkalýðsfélaganna hér í Reykjavík, og þar féllu atkv. þannig, að 94 á þessum fundi greiddu þessu samkomulagi atkv., að þessi vísitölustig skyldu niður falla á þessu tímabili með þeim skilyrðum, sem sett voru þar, 15 voru á móti og 17 sátu hjá. Þetta voru sjálfstæðismenn, sem stóðu með sínum mönnum hér á Alþ. og vildu gera allt erfitt fyrir stjórnina. Miðstjórn Alþýðusambandsins hafði fjallað um málið og lýst sig einróma samþykka þessu samkomulagi. Stjórn fulltrúaráðsins í Reykjavík hafði líka fallizt á málið. Og formenn allra fjórðungssambanda Alþýðusambandsins höfðu líka fjallað um málið og samþykkt það. Hér var því gert samkomulag milli stjórnarvalda og verkalýðshreyfingarinnar í landinu á þeim grundvelli, sem forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar töldu sér hagstætt. En svo kemur hæstv. viðskmrh. nú og segir: — Það, sem var gert á þessum tíma, er bara alveg það sama, sem verið er að gera nú. — Hefur hann eitthvert samkomulag við verkalýðshreyfinguna í landinu um þessa aðgerð? Eða skyldi hann fá eitt einasta verkalýðsfélag eða einn einasta forustumann í verkalýðshreyfingunni til að lýsa yfir því, að efni þessa frv., sem hér liggur fyrir, sé hagstætt fyrir launþega í landinu? Skyldi hann fá nokkurn? Það verður fróðlegt að sjá.

Það er gamalt efni, að þeir sjálfstæðismenn, sem voru í stjórnarandstöðu haustið 1956, hafa verið að klifa á þessu ár eftir ár, að þarna hafi launþegar í landinu verið sviknir um þessi 6 vísitölustig og þeir börðust mjög fyrir því á eftir, að kaupgjaldssamningum yrði sagt upp í landinu á þessum grundvelli. En á þessum tíma stóð hæstv. núv. viðskmrh. gegn sjálfstæðismönnum, og taldi, að þeir færu þarna með rangt mál. En nú auðvitað snarsnýst hann og stendur með þeim, sjálfstæðismönnunum, og heldur því nú fram, að þarna hafi verið unnið eitthvert ódæðisverk á launþegum í landinu. (Menntmrh.: Það sagði ég aldrei.) Það má kannske segja, að sé mín túlkun, en ég lagði nú þessa merkingu í það, þegar hæstv. ráðh. talaði um 3% launalækkun, að það væri ódæði, og það er það, sem ég kalla ódæði fyrir mitt leyti. En svona voru þessi mál, svona lágu þessi mál fyrir haustið 1956 eða á allt annan hátt en nú er.

Það er svo annað atriði, sem mig langar til þess að víkja hér nokkuð að, af því, sem fram kom hér í ræðu hæstv. viðskmrh., en hann tók að sér hér í sinni ræðu að reyna að sanna mönnum það, að með þessu frv. væri ekki verið að hagga við launasamningum verkalýðsfélaganna í landinu. Hæstv. ráðh. sagði í sinni ræðu, — ég hef ritað það niður svona í aðalatriðum, ég vil ekki segja, að það sé algerlega orðrétt, — að með þessu frv. væri ekki verið að svipta launþega kaupuppbót, sem þeir eiga að fá. Og hann sagði ennfremur, að með frv. væri ekki verið að raska vísitölukerfinu. Og hann sagði ennfremur, að með frv. væri ekki raskað í neinu þeim umsamda rétti launþega að fá kauphækkun, ef verðlag hækkar. Við skulum nú víkja svolítið nánar að þessum fullyrðingum hæstv. ráðh. hverri um sig.

Hann segir, að það sé ekki verið að svipta launþega kaupuppbót, sem þeir eiga að fá, þó að hann komi með frv., sem mælir svo fyrir, að það skuli strika út úr kaupgjaldsvísitölu 2 vísitölustig, og þau skuli ekki greidd, þau skuli falla niður bótalaust á meðan l. standa. Þótt þessi tvö stig eigi að falla niður bótalaust úr vísitölunni, þá segir hæstv. ráðh.: — Launþegar eiga að fá sína kaupuppbót eftir sem áður. — Það er hægt að fullyrða ýmsa hluti. Það er hægt að segja, að hvítt sé svart og svart sé hvítt. En það er bara alveg tilgangslaust, það er að berja höfðinu við steininn, það er að neita staðreyndum. Samningarnir af hálfu verkalýðsfélaganna um það, að það skuli vera vísitölutrygging á kaupinu, fólu það í sér, að vísitalan átti að tryggja það, að kaup hækkaði í hlutfalli við hækkað verðlag. Ef þessi regla er brotin, þannig að verðlagið er látið hækka, en kaupið fær ekki að hækka á móti jafnmikið, þá er vitanlega verið að skerða kaupið, þá er verið að minnka kaupmátt launanna. Það er því vitanlega alveg tilgangslaust fyrir hæstv. viðskmrh. að neita þessari staðreynd.

Þá segir hæstv. ráðh. í öðru lagi, að það sé ekki með frv. verið að raska vísitölukerfinu. Treystir hann sér nú virkilega til þess að endurtaka slíka fullyrðingu? Vísitölukerfið, sem um var samið, mælti svo fyrir, að ef tilteknar vörur hækkuðu eða þjónusta hækkaði í verði, skyldi vísitalan hreyfast eftir þar til settum reglum. Nú kemur hæstv. ráðh. hér með frv., sem segir alveg hið öfuga, þó að áfengi hækki í verði, þó að tóbak hækki í verði, þó að almannatryggingagjöld hækki, þá skal slík hækkun ekki reiknuð inn í vísitölukerfið, ekki inn í vísitölugrundvöllinn, þveröfugt við það, sem samið hafði verið um. En þó að hæstv. ráðh. flytji hér till. um að breyta á þennan hátt vísitölukerfinu, þá segir hann bara alveg hikstalaust: — Vísitölukerfinu er ekki breytt. — Það er hraustlega mælt. Auðvitað sjá það allir menn, að þessi fullyrðing hæstv. ráðh. fær ekki staðizt. Hér er hann að segja alveg rangt frá. Vísitölukerfinu er í þessum efnum breytt, og því er breytt á enn frekari hátt en þennan, sem ég nefndi. Því er líka breytt á þann hátt, að lengur á ekki að miða kaupgjaldsvísitöluna við það verðlag, sem fram kemur einum mánuði fyrr en kaupgjaldsvísitalan kemur í gildi, eins og var í fyrra samkomulagi. Nú er skotið hér inn ákvæði um það, að það skuli taka inn í útreikning vísitölunnar það verðlag, sem verður á þeim degi, þegar kaupgjaldsvísitalan á að ganga í gildi, eða mánuði síðar en áður var. Þarna er auðvitað einnig verið að breyta þessu vísitölukerfi, því, sem um var samið.

Og þriðja fullyrðing hæstv. ráðh. var sú, að það eigi í engu að raska þeim umsamda rétti launþega að fá kauphækkun, ef verðlag hækkar. En í fyrsta lagi á verðlagið nú að hækka, sem nemur 2 vísitölustigum, án þess að þeir fái bætur út á þá verðhækkun. Þar að auki á verðlag að hækka á tilteknum vörutegundum og tiltekinni þjónustu, án þess að bætur eigi að koma út á það. Ég veit, að hæstv. ráðh. hefur fyrir löngu gert sér grein fyrir því, að þessar fullyrðingar hans fái ekki staðizt. Þarna er um að ræða sams konar blekkingu frá hans hálfu og kemur fram í því, þegar hann heldur því fram, að þrátt fyrir þær aðgerðir, sem hér á að framkvæma samkv. þessu frv., muni kaupmáttur launa eftir sem áður vera jafnmikill og um var samið með kaupgjaldssamningunum s. l. sumar. En hæstv. ráðh. sagði í sinni ræðu, að þegar allt væri komið fram, sem framkvæma ætti samkv. þessu frv., yrði útkoman sú, að kaupmáttur launa hefði aukizt um 17% miðað við maímánuð. Þetta er ekki eins fjarri því og mönnum kynni að sýnast í fyrstu, ekki svo langt frá hinu rétta. En villan í þessu hjá hæstv. ráðh. eða blekkingin í þessu liggur í því, að það, sem verkalýðshreyfingin talar um varðandi kaupmáttaraukningu, er það, að hún ætlaðist til þess, að fá kaupmáttaraukningu, sem nam grunnkaupshækkuninni eða kauphækkuninni, sem um var samið 19. júní í sumar. Sú kauphækkun var 15–18%, eftir því við hvaða launastiga þar er miðað. Og það var gengið út frá því, að þessi 15–18% mundu skila í kaupmáttaraukningu nokkru lægri tölu en þessum 15–18% vegna ákveðinna samningsákvæða, sem hér hefur oft verið gerð grein fyrir í þessum umr., eða sem næst 14–17%. En hæstv. ráðh. tekur í fullyrðingu sinni, þegar hann segir, að hér verði kaupmáttaraukning miðað við maímánuð, sem nemur 17%, þann kaupmátt, sem enn var gildandi í maímánuði, þegar launþegarnir áttu eftir að fá reiknað á sitt kaup rúmlega 4% vegna þeirrar verðhækkunar, sem hafði orðið á fyrra tímabili. Auðvitað er enginn að tala um það, að hér hafi orðið kaupmáttaraukning hjá launþegunum fyrir það, að þeir hafa fengið ákveðnar vísitöluuppbætur á laun fyrir þá verðhækkun, sem átti sér stað frá því í febrúarmánuði og fram í maí, og heldur ekki vegna þeirrar kauphækkunar í krónum talið, sem orðið hefur núna á tímabilinu frá júní til sept., sem er 4.21%-stig. Það var ekki um að ræða neina kaupmáttaraukningu. Þar var um að ræða kauphækkun, sem kom á móti ákveðinni verðlagshækkun. Hið rétta er því það, að með því að framkvæma ákvæði þessa frv., sem fela í sér að strika út 2 vísitölustig og neita að taka gilt eitt vísitölustig vegna hækkandi verðlags, þá er verið að rýra kaupmátt launanna um um 3%. Sú kaupmáttaraukning, sem um var samið í júnímánuði og hefði átt að vera t. d. 15%, mundi því samkv. þessu rýrna niður í um 12% miðað við þetta frv. Á því er auðvitað enginn minnsti vafi. En ef menn leggja hins vegar við þetta vísitölubæturnar, sem komu inn í kaupið fyrir tímabilið frá febrúar til maí á þessu ári, þá fer ekki að verða ýkja langt frá því að út komi 17%, eins og hæstv. ráðh. er að tala um. En í þessum efnum getur ekki talan 17 ein út af fyrir sig bjargað hæstv. ráðh. út úr þessari talnaflækju. Hann verður að viðurkenna það, ef hann vill viðurkenna staðreyndir, að frv. felur í sér ákveðna kaupmáttarskerðingu, miðað við þá kaupmáttaraukningu, sem var samið um í júnímánuði.

Ég hafði hér í minni fyrri ræðu drepið á það, sem ég taldi vera meginatriðin í þessu frv., og ég skal aðeins draga saman þessi meginatriði. Í fyrsta lagi segir þetta frv., að 2 vísitölustig skuli strikuð út á ákveðnu tímabili. Menn eiga heldur ekki, eins og hæstv. ráðh., að vera með nein látalæti eða einhverjar villukenningar um það, hvað sé verið að gera með þessum 2 vísitölustigum. Það er verið að tala um það, að þau falli nú ekki niður, þeim sé bara frestað. Þau eiga að falla niður úr kaupgjaldsvísitölunni, á meðan lögin standa. Það er það, sem gildir. Þeir, sem vinna og fá kaup sitt útborgað á þessu tímabili, tapa þessum 2 stigum. Kaupið út úr þessum 2 stigum verður ekki geymt. Það á ekki að skila því aftur. Þetta er eitt aðalatriðið í frv. Í öðru lagi er svo það, sem hér hefur verið rætt um, að grundvelli vísitölunnar er breytt. Það er vikið frá þeim grundvelli, sem búið var að semja um sem vísitölugrundvöll. Í þriðja lagi er svo það, að tiltekin verðhækkun, sem hefði átt að hækka vísitölu um 1 stig, verður ekki talin. Þetta þýðir í framkvæmd það, að launafólk í landinu tapar miðað við ársgrundvöll 3 vísitölustigum í kaupi, en það jafngildir 700 millj. kr. byggt á þeim grundvelli, sem frv. sjálft miðar við sem launagreiðslur í landinu. Þá er í fjórða lagi lagt til í þessu frv. að leggja á 15% launaskatt, en þessi launaskattur á síðan að notast til þess að borga niður verðlag á tilteknum vörum. og á þann hátt á að skekkja vísitöluna um sem nemur hálfu stigi. Í fimmta lagi er svo það, að það kemur fram í grg. frv., að beint framlag ríkissjóðs til þess að eyða þessum umtöluðu vísitölustigum er næstum ekki neitt. Í sjötta lagi er svo það, að þær niðurgreiðslur á vöruverði, sem gert er ráð fyrir í frv., og hækkunina á fjölskyldubótum á að framkvæma á þann hátt, að raunverulega er launafólk í landinu látið borga þetta með því að það á að lækka kaupið í landinu, sem þessu nemur. Í sjöunda lagi er það svo, að það er alveg ljóst, að allt er í fullkominni óvissu með þennan þátt mála að kosningum loknum. Í áttunda lagi tel ég, að það hafi verið staðið þannig að þessu máli öllu af hálfu ríkisstj., að það sé í rauninni reginhneyksli. Þetta eru aðalatriðin varðandi þetta frv.

Ég skal svo ekki ræða það í lengra máli að þessu sinni, en ég verð að segja að lokum, að ég var farinn að halda, að Alþfl. væri búinn að fá nokkurn veginn nóg af þjónustu sinni við Sjálfstfl. í núv. ríkisstj. Ég hélt, að hann hefði fengið þannig áminningu hér í höfuðborginni í síðustu kosningum, að hann væri orðinn hræddur um sig. Og mér hefur satt að segja fundizt hann vera með nokkra tilburði í þá átt, og nokkrar samþykktir bentu til þess, að hann væri orðinn hræddur. En það er greinilegt á því, sem hér hefur komið fram í sambandi við þetta frv., að formaður flokksins hefur þó ekki orðið hræddari en svo, þó að hann hafi eflaust orðið hræddur í bili, að hann byrjar bara á nákvæmlega sömu vinnubrögðunum aftur, hann tekur að sér hér á Alþ. og frammi fyrir þjóðinni að reyna að verja þá íhaldsstefnu, sem felst í þessu frv., þar sem um er að ræða greinilega kjaraskerðingu hjá vinnandi fólki í landinu. Og hann heldur, að hann sleppi í gegnum þennan vanda, aðeins með því að segja, að hvítt sé svart og svart sé hvítt, með því bara að lemja höfðinu við steininn. En ég vil segja það við formann Alþfl., að haldi hann þessu áfram, þá lemur hann í sundur á sér kollinn í næstu kosningum.