28.01.1971
Efri deild: 42. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

182. mál, Háskóli Íslands

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Eins og hæstv. deildarforseti hefur þegar tekið fram, þá heyra mál Háskólans að sjálfsögðu ekki undir mitt starfssvið í ríkisstj., en hæstv. menntmrh. er upptekinn við umr. í Nd., og auk þess er þetta frv. svo nátengt því frv., sem ég var að mæla fyrir hér rétt áðan, að það er í beinu samhengi við það og til þess ætlað að auðvelda það aðhald í lyfjasölumálum, sem ég áðan talaði um. Þá var talað um, að nauðsynlegt væri að gera þá breytingu, sem frv. þetta gerir ráð fyrir. Ef hið umrædda frv. nær fram að ganga, þá er þessi breyting af lögfræðingum talin nauðsynleg.

Ég legg til, herra forseti, að þessu frv. verði vísað til sömu n. og hinu fyrra, þó að venjan sé að vísa málum Háskólans til menntmn., þá tel ég, að þetta frv. sé svo sérstaks eðlis, að eðlilegt sé, að þau fylgist að, og legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.