25.02.1971
Neðri deild: 53. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (648)

23. mál, framleiðnisjóður landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Við höfum leyft okkur að flytja hér tvær brtt. við frv., hv. 5. þm. Norðurl. e. og ég. Þessar tillögur eru að efni til sams konar og þær, sem við fluttum við 2. umr. málsins, en hér er gengið nokkru skemur heldur en í þeim tillögum. Þessar tillögur eru á þskj. 398. Í fyrri tillögunni er lagt til, að aftan við fyrri málsgrein 1. gr. laganna komi nýr málsliður svo hljóðandi: „Þó skulu tilraunir með innlenda fóðuröflun og heyverkun sitja fyrir öðrum tilraunaverkefnum um fyrirgreiðslu.“ Í þeirri tillögu, sem felld var við 2. umr., var sagt, að þetta skuli sitja fyrir öðrum verkefnum sjóðsins, en hér er gengið skemur og sagt öðrum tilraunaverkefnum. Ég vil ekki tefja tíma hv. þd. með ítarlegri umr. um þessar tillögur. Þetta var nokkuð mikið rætt við 2. umr. málsins, en ég vil þó út af þessum fyrri lið varðandi tilraunaverkefnin árétta og láta það koma alveg skýrt fram, að það er ekkert sérálit okkar, þessara tveggja þm., að það þurfi að gera átak á þessum sviðum. Í fyrsta lagi hafa þeir menn, sem vinna að þessum verkefnum, búfræðikandídatarnir, á aðalfundi sínum í febrúar árið 1970 lagt mjög mikla áherzlu á þessi mál og í ályktunum þeirra, tölul. 2, segir svo: „Fundur í Félagi ísl. búfræðikandídata leggur til, að landbúnaðarráðherra og stjórn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins efli sérstaklega hagnýtar rannsóknir á fóðuröflun, fóðurverzlun og fóðrun og telur fundurinn, að slíkar rannsóknir verði bezt staðsettar á Hvanneyri vegna afnota af túnum, búfé og véltækni. Kalrannsóknir verði stórefldar og höfuðstöðvar þeirra verði við tilraunastöðina á Akureyri.“ Ég vil einnig, að það komi alveg glögglega fram, að um þessi mál hafa verið gerðar margendurteknar samþykktir á fundum bændasamtakanna. Á aðalfundi Stéttarsambands bænda 1959 var gerð mjög hörð ályktun um það, að auka þyrfti rannsóknir einmitt vegna grasbrestsins og vegna kalsins og sú ályktun var ennfremur áréttuð á aðalfundi Stéttarsambands bænda 1970. Ég ætla ekki að tefja tímann við að lesa þessar ályktanir hér. En alveg sömu sögu er að segja frá Búnaðarþingi. Þar er gerð um þessi mál mjög ítarleg ályktun árið 1968 og síðan hefur hún verið áréttuð. Og sannleikurinn er sá, að í sambandi við fjárveitingar til þessarar starfsemi hefur ekkert verulegt gerzt síðan 1968, ekkert stórt. Þetta vil ég láta koma hér fram. Og vil leyfa mér að bæta því við, að hjá einstökum bændum, sem orðið hafa fyrir búsifjum af völdum kals um lengri eða skemmri tíma, er ekki síður sú skoðun almenn, að skerpa þurfi á þessum sérstaka lið rannsókna og tilrauna.

Annar liður brtt. okkar er um hækkun á framlaginu til framleiðnisjóðs, að framlagið skuli hækka í a. m. k. 20 millj. kr. í stað 10 millj., sem er í frv. En fyrri tillaga okkar, sem felld var hér við 2. umr., var um 25 millj. kr. árlegt framlag. Ég skal ekki heldur fara að endurtaka hér rök okkar, flm. þessara brtt. Ég vil aðeins geta þess, að á fundi í Framleiðsluráði landbúnaðarins, sem stóð að skipan þeirrar nefndar, sem undirbjó tillögurnar í sláturhúsamálinu, á fundi í Framleiðsluráði 18. þ. m. var þetta rætt og þar voru samþykktar áskoranir til ríkisstj. og Alþ. um að auka fjárframlög til þessara mála frá því, sem fyrirhugað er í frv., eins og það liggur hér fyrir. Það kom í ljós þar, að menn voru mjög uggandi út af þeirri stefnu, sem þetta mál hefur tekið, telja, að með engu móti megi slaka á þeim framkvæmdum, sem fyrirhugaðar hafa verið, en eins og horfur eru, miðað við það, að frv. verði samþ. óbreytt, þá sjá þeir ekki nokkra leið til þess að halda áfram framkvæmdaáætluninni, eins og fyrirhugað hafði verið. Ég orðlengi þetta ekki frekar, en vænti þess, að hv. þdm. íhugi þessar tillögur.