03.03.1971
Efri deild: 56. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (653)

23. mál, framleiðnisjóður landbúnaðarins

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. hefur gert grein fyrir því frv., sem hér liggur fyrir og er um framleiðnisjóð landbúnaðarins. Það er út af fyrir sig virðingarvert, að hæstv. ríkisstj. hefur flutt þetta frv., sem fjallar eingöngu um það að afla fjár til framleiðnisjóðsins. Þegar fyrst var lagt fram frv. um þessi efni, þá fluttum við framsóknarmenn tillögur um það, að árlegt tillag til sjóðsins yrði mun hærra heldur en það nú er eða um 20 millj. kr. á ári, því að okkur var fyllilega ljóst, að á því var þörf. En nú leggur hæstv. ráðh. til, að næstu 5 árin, frá og með 1972 verði veittar 10 millj. kr. á ári til framleiðnisjóðsins, þrátt fyrir það, að á þessu tímabili er búið að fella gengi íslenzkrar krónu á 2. hundrað prósent, síðan þessi lög öðluðust fyrst gildi og einnig þrátt fyrir það, að ekkert tillag hefur verið veitt til framleiðnisjóðsins í 2 ár, árið 1970 og árið 1971. Þau ár bæði hafa fallið niður, þannig að sjóðurinn hefur misst þarna tveggja ára tillag, sem hann hefur ekki mátt missa miðað við þau verkefni, sem honum eru ætluð.

Ég skal ekki minna hér á mörg verkefni. En þó get ég ekki látið hjá líða að spyrja hæstv. landbrh. um það, hvernig séð verði fyrir byggingu sláturhúsa landsins. Árið 1969 var skipuð n. af Framleiðsluráði landbúnaðarins til að gera tillögur um uppbyggingu sláturhúsa í landinu. N. komst að þeirri niðurstöðu, að það mundi kosta 217 millj. kr. að byggja ný sláturhús og endurbyggja önnur, sem til samans eru 12 talsins, en þar fyrir utan eru tvö sláturhús, sem eru í byggingu og tæplega fulllokið, og þau kosta um 70 millj. kr., þ. e. um 50 millj. í Borgarnesi og 20 millj. í Búðardal, þannig að þarna þarf í sláturhúsauppbygginguna á þessum 14 húsum sem næst 300 millj. kr. Og þá eru eftir fjölmörg sláturhús, sem ekki eru með í þessu reikningsdæmi, en eins og hv. þm. rekur minni til, eru ekki ýkjamörg ár síðan samþ. voru lög hér á hv. Alþ. um það að hraða uppbyggingu sláturhúsa í landinu. Og mörg þeirra húsa, sem eru starfrækt nú, eru með eins árs undanþágu, þannig að þarna er um brýnt og aðkallandi verkefni að ræða. En þessi n., sem var skipuð, gerði sínar tillögur og fjáröflun hafði hún hugsað sér þannig, að nýju húsin fengju 50% af stofnkostnaði sem óafturkræft framlag, en endurbættu húsin 30% framlag, og þessa óafturkræfa framlags skyldi aflað með 40 aurum á dilkakjötskíló á ári hverju og 20 aurum á ærkjöt og á gjald þetta að nema sem næst 5 millj. kr. á ári. Sama upphæð skyldi tekin í heildsölu hlutaðeigandi vöru.

Í þriðja lagi skyldi koma framlag úr ríkissjóði jafnhátt því, er að framan greinir. Auk þessa skyldi Stofnlánadeild landbúnaðarins lána 50% af því, sem þá er eftir, og framleiðnisjóðurinn 17%. Þó að ekki séu tekin nema sláturhúsin, þá eru þar mikil verkefni, sem þarf að leysa fljótt, því að mörg sláturhús eru nú, eins og ég áðan sagði, án undanþágu frá þeim aðalreglum, sem um þau gilda. Og varla getur framleiðnisjóðurinn sinnt því verkefni eins og þyrfti að vera með ekki meiri fjáröflun en honum er ætluð samkv. því frv., sem hér liggur fyrir.

Mér er kunnugt um það, að margir búast við því, þar sem hæstv. ráðh. hefur tekið vinsamlega tillögum þeirrar n., sem ég ræddi um, þá muni koma nýtt frv. um fjáröflun til sláturhúsanna. Og þetta vildi ég, að hæstv. ráðh. upplýsti hér við þetta tækifæri, hvort þess er að vænta, að það komi annað frv., sem eingöngu fjallar um sláturhúsauppbygginguna, eða hvort framleiðnisjóði, sem við erum nú að ræða um, er ætlað að rísa undir sláturhúsauppbyggingunni ásamt því, sem Stofnlánadeild landbúnaðarins getur innt af hendi lögum samkv. í þeim efnum. Ég vil líka minna á það, að enda þótt ég minnist hér eingöngu á sláturhúsin, þá er það síður en svo, að það séu ekki ótal aðkallandi verkefni, sem framleiðnisjóður landbúnaðarins getur sinnt lögum samkv. En ég sé ekki annað en þau verkefni verði að bíða um sinn vegna fjárskorts, því að ef vel væri á þessum málum haldið, þá hefðu framlög sjóðsins nú þurft að vera a. m. k. helmingi meiri bara til þess að jafnast á við það, sem var þegar 1966 samkv. þeirri breytingu, sem hefur orðið á verðgildi krónunnar og ýmsu öðru, sem þar hefur gripið inn í verðlagsmálin á síðustu árum.