15.03.1971
Efri deild: 63. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

23. mál, framleiðnisjóður landbúnaðarins

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir til umr., hefur landbn. fjallað um á fundum sínum og orðið sammála um að mæla með samþykkt þess. Hins vegar hafa þeir Ásgeir Bjarnason og Kristján Ingólfsson áskilið sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem kynnu fram að koma.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa mörg orð fyrir þessu frv. við þessa umr. Hæstv. landbrh. fylgdi frv. úr hlaði hér við 1. umr. í Ed. og skýrði efni þess. Það er fábrotið eins og menn sjá, sem þetta hafa kynnt sér. Framleiðnisjóður landbúnaðarins, sem stofnaður var með lögum frá 1966, hafði haft framlag úr ríkissjóði á árunum 1967–1969, að báðum meðtöldum, en það hafði fallið niður með árinu 1970. Nú er það öllum ljóst, sem þessum málum eru kunnugastir, að verkefni sjóðsins er fjarri því að vera úr sögunni og því nauðsynlegt að koma þessum fjárframlögum á aftur, og því er þetta frv. flutt, að það megi gerast með árinu 1972. Eins og fram kom við 1. umr. hér í hv. Ed., var það upplýst, að starfsfé sjóðsins á árinu 1971 mundi verða mjög lítið, en verkefnin, eins og ég sagði áðan, allmikil. Ráðh. gaf þá yfirlýsingu, að unnið væri að því að útvega sjóðnum fé, svo að hann gæti staðið við nauðsynlegar skuldbindingar og nauðsynlega uppbyggingu, sem sérstaklega á sér stað núna í sláturhúsunum í landinu.

Ég sé, að þær brtt., sem hér hafa komið fram, ganga einvörðungu í þá átt að hækka þau framlög, sem gert er ráð fyrir að samþykkja til sjóðsins í því frv., sem hér er fyrir hendi. Ég get ekki fallizt á þessar tillögur. Það hefur verið sætzt á það, að ég tel, af þeim, sem með málefni sjóðsins fara, og þeim, sem stjórna fjármálum ríkisins, að binda framlögin við þessar 10 millj. á ári og ég vil leggja til, að við það verði staðið. Það er alltaf þægilegt og sumir vilja þakka það, þegar hækkaðar eru tölur eins og hér hefur verið gert. Ég held, að menn skilji það þó, að í mörgum fjárveitingum verður að fara bil beggja og það er mat þeirra, sem hér þekkja til, að með þeim fjárveitingum, sem hér er lagt til, að lagðar verði fram, muni mega með viðunandi hætti sinna þeim verkefnum, sem sjóðnum eru ætluð. Eins og ég gat um í upphafi, þá legg ég það til fyrir hönd meiri hl. landbn., að frv. verði samþ. óbreytt.