12.11.1970
Neðri deild: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

101. mál, atvinnuöryggi

Frsm. 2. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. fjhn., sem hér hefur talað fyrir áliti meiri hl. og mælt með samþykkt frv., vék nokkuð sérstaklega að þeim umr., sem hér höfðu farið fram á Alþ. varðandi aðdraganda þessa máls, og m. a. það, hvaða afleiðingar yfirlýsing forsrh. í sjónvarpi 13. okt. kynni að hafa haft varðandi verðlagsþróunina í landinu. Í því sambandi minntist hv. frsm. meiri hl. á ummæli verðlagsstjóra um þetta atriði, sem fram hefði komið á fundi með fjhn. Ég vil nú segja svipað og hv. síðasti ræðumaður, sem einnig á sæti í fjhn. og hlustaði á það, sem þar fór fram, að mér finnst nú, að formaður fjhn., frsm. meiri hl. fjhn., hafi ekki túlkað alls kostar á réttan hátt það, sem verðlagsstjóri sagði um þessi mál, og það kemur þá kannske nokkuð betur fram, hvað hann raunverulega sagði um þessi atriði og hvað raunverulega hefur verið athugað í þessum efnum, þegar nokkuð nánar er sagt frá þessum viðræðum við verðlagsstjóra úr n., en það skal ég gera. Verðlagsstjórinn var um það spurður af mér, hvort fram hefði farið sérstök athugun á verðlagi í landinu, áður en þessi tilkynning forsrh. kom fram, og einnig hvort þar hefði farið fram sérstök athugun á verðlaginu almennt, eftir að frv. kom fram eða eftir 1. nóv. Svar verðlagsstjórans var alveg skýrt og greinilegt: Engin sérstök athugun hefur farið fram af hálfu verðlagsskrifstofunnar varðandi þessi verðlagsmál. Það, sem verðlagsskrifstofan hefur gert, er aðeins það að halda uppi því almenna eftirliti með verðlagi, sem hún hefur alla jafnan gert eða átt að gera, og sú athugun, sem ekki er að fullu lokið enn varðandi þetta tímabil, hefur ekki enn leitt í ljós neinar sérstakar hækkanir á verði, eða óeðlilegar, eins og hv. frsm. fjhn. orðaði það hér. En það hefur svo komið hér fram í þessum umr. öllum, að menn líta sýnilega mjög misjöfnum augum á það, hvað séu eðlilegar verðhækkanir og hvað óeðlilegar. Ég fyrir mitt leyti lít þannig á málið, að allar verðhækkanir, sem urðu, eftir að það var boðað á þennan hátt af forsrh., að til stæði að stöðva verðlagið, hafi verið óeðlilegar. Það hafi átt að koma í veg fyrir þær. Það kom einnig fram í viðtölum við verðlagsstjóra, að eftirlit verðlagsskrifstofunnar nær í rauninni eingöngu til þeirra vörutegunda, sem falla undir verðlagsákvörðun n. En hins vegar vita menn, að hér er um heila vöruflokka að ræða, sem ekki falla undir þetta eftirlit n. Og þegar verðlagsstjóri var um það spurður, hvort skrifstofa hans hefði sæmilegt yfirlit um það, hvernig verðbreytingum væri háttað á þeim vörutegundum, sem falla ekki sérstaklega undir eftirlit n., þá svaraði hann því, að skýrslur verðlagsnefndarinnar um það væru mjög ófullkomnar. Ég tel því, að því fari alls fjarri, að nú liggi fyrir einhverjar sannanir um það, að sú tilkynning, sem hæstv. forsrh. gaf í sjónvarpsviðtali sínu 13. okt. um það, að til stæði að framkvæma verðstöðvun, hafi ekki haft sín áhrif til þess að ýta á eftir ýmsum verðlagshækkunum í landinu. Það á enn eftir að fara fram athugun á því, hver hafa raunverulega orðið áhrif þessarar tilkynningar. Það liggur alveg ljóst fyrir, að á þessu tímabili, frá 13. okt. og til mánaðamóta, hafa orðið ýmsar verðlagshækkanir í landinu. En það liggur hins vegar ekki ljóst fyrir, hversu margar verðhækkanir hafa átt sér stað og hversu miklar. Verð á innlendum iðnvarningi er yfirleitt frjálst, þ. e. a. s. aðilarnir geta ákveðið það sjálfir, eftir því sem þeir telja sér fært, miðað við samkeppnisaðstöðu við innfluttar vörur. Það er einnig upplýst, að margs konar þjónusta er frjáls í verðlagningu. Aðilarnir ráða því sjálfir, hve þeir ákveða þjónustugjöldin há. Það liggur einnig fyrir, að þær vörur, sem eru undir verðlagsákvæðum, eru á mjög misjöfnu verði í verzlunum í landinu, vegna þess að þær eru fluttar inn á misjöfnum tíma, innkaupin eru gerð á misjafnlega hagstæðum grundvelli, og því er verð á sams konar varningi mjög mismunandi. Ég hygg, að það sé dómur þeirra, sem hafa gengið í verzlanir og hafa þurft að kaupa vörur á þessu tímabili, að þeir hafi sannarlega orðið þess varir, að einmitt á þessum tíma áttu sér stað margar og miklar verðhækkanir í verzlunum í landinu.

Um aðstöðu verðlagseftirlitsins svo að öðru leyti til þess að geta sagt eitthvað um það, hvernig verðlaginu er háttað, eru svo dæmi eins og það, að verðlagseftirlitið hefur í sinni þjónustu utan Reykjavíkur fjóra til fimm fastráðna starfsmenn samkv. því, sem verðlagsstjóri upplýsti á þessum fundi með fjhn., en tæki stundum nokkra aukamenn til vinnu, eftir því sem aðstæður væru til. Trúir því nú nokkur maður, að eftirlit þessara manna um alla landsbyggðina sé eitthvert öryggi fyrir því, að verðlagsreglum sé fylgt eftir?

Það er auðvitað enginn vafi á því, að þegar um er að ræða ráðstöfun eins og verðstöðvun með lögum, þá ber að standa þannig að því máli, að það sé lagt þannig fyrir, að hinir ýmsu aðilar, sem hafa með verðlagsmál að gera, geti ekki notfært sér tilkynningar um málið sér í hag. Það ber að standa þannig að afgreiðslu málsins á Alþ., að verðstöðvunin verði a. m. k. miðuð við þann tíma, sem frv. um málið er lagt fyrir Alþ. En að tilkynna sérstaklega um það, að verðstöðvun sé í aðsigi með meira en hálfs mánaðar fyrirvara, hlýtur eðli málsins samkvæmt að leiða til þess, að þeir, sem hafa aðstöðu til, reyni að nota sér slíka tilkynningu. Þetta álítum við Alþb.-menn, að hafi verið algerlega óforsvaranlegt í vinnubrögðum ríkisstj. í sambandi við þetta mál.

Hv. formaður fjhn., talsmaður meiri hl. n., eyddi hér löngu máli í það að lýsa því, hvernig frv. okkar Alþb.-manna um verðstöðvun hefði borið hér að á Alþ., og hann hélt því hér fram, að við hefðum flutt þetta verðstöðvunarfrv. okkar til þess að reyna að koma af stað verðhækkunarskriðu í landinu. Hann virðist álíta það, að það sé tekið mikið tillit til till. frá okkur, og því rjúki allir til að hækka verð, en þó forsrh. segi það sama, að þetta standi til, þá taki nú enginn mark á því, og þá bregðist enginn við til þess að hækka verðlag.

Því fer víðs fjarri, að við höfum lagt okkar frv. fram um verðstöðvun, sem hér var útbýtt á Alþ. þann 15. okt. sem afleiðingu af viðtali hæstv. forsrh. í sjónvarpi. Því fer víðs fjarri. Strax í upphafi þings á þessu hausti, þegar hæstv. forsrh. gerði hér nokkra grein fyrir stefnumálum ríkisstj. og þeim vandamálum, sem við var að glíma, þá lýsti ég yfir því fyrir hönd okkar þingflokks, að við teldum, að það, sem nú þyrfti brýnast að gera í verðlagsmálum í landinu, væri að ákveða verðstöðvun hið allra fyrsta. Við höfðum síðan, bæði áður en þing kom saman og eins eftir, margsinnis undirstrikað þessa skoðun okkar í Þjóðviljanum og gert kröfu um það, að þannig yrði tekið á þessum málum, að ekki yrðu leyfðar frekari verðlagshækkanir en þá voru orðnar. Afstaða okkar til þessara mála lá því skýrt og greinilega fyrir öllum. Við þurftum auðvitað eins og aðrir menn nokkurn tíma til þess að ræða flutning á slíku máli, sem verðstöðvunarfrv. er, í okkar þingflokki, og eftir að við höfðum samþ. að flytja málið í þingflokknum og lögðum það fram, þá tók það þá eins og venjulega einnig nokkurn tíma að fá frv. prentað og því útbýtt á Alþ., eins og hv. formaður fjhn. hefur nú sannarlega reynt hér á þessum fundi, að þótt þingskjöl hafi verið lögð fram í því máli, sem hér er til umr., þá er ekki enn búið að prenta þau. Það hefur þurft að vélrita þau á sérstakan hátt, af því að þetta tekur allt saman sinn tíma.

Það er vitanlega sagt gegn betri vitund, að það hafi verið tilgangur okkar með okkar verðstöðvunarfrv., þar sem miðað var við það, að verðstöðvun skyldi gilda frá þeim degi, að frv. var lagt fram á Alþ., að koma á óróa í verðlaginu í landinu. Við vorum hreinlega á þeirri skoðun, að verðhækkanirnar væru þegar orðnar allt of miklar og þarna yrði að nema staðar og snúa síðan að því að gera varanlegri ráðstafanir gegn verðbólguvandamálinu.

Við þm. Alþb. áfellumst ekki ríkisstj. fyrir það, að koma fram með frv. um verðstöðvun. Og ég áfellist hæstv. forsrh. ekki heldur fyrir það að hafa lýst yfir þeirri skoðun sinni, að rétt væri að grípa til verðstöðvunar, í viðtali sínu við sjónvarpsmenn 13. okt. En ég álít, að það hefði verið siðferðileg skylda ríkisstj. að miða frv. sitt um verðstöðvun við 13. okt., við þann dag, þegar hæstv. forsrh. skýrði frá því, að ætlunin væri að grípa til verðstöðvunar, en ekki, eins og gert er í þessu frv., að miða verðstöðvunina við 1. nóv., en vera þó búinn að tilkynna um þessa aðgerð með 18 daga fyrirvara. Það er að þessum vinnubrögðum, sem við erum að finna.

Það fer ekkert á milli mála, að verðhækkanir hafa orðið miklar og margvíslegar á undanförnum mánuðum. Og þær hafa í ýmsum greinum farið langt fram úr því, sem t. d. sú kauphækkun, sem samið var um um miðjan júnímánuð, gaf tilefni til, þótt menn vildu taka fullt tillit til þeirra auknu útgjalda, sem þeir samningar hlutu að leiða af sér. Ég skal nefna hér nokkrar verðlagshækkanir, sem mér er alveg kunnugt um úr skýrslum, en þó veit ég, að þar er um miklu fleiri verðhækkanir að ræða, sem hafa komið, eftir að þessi skýrsla var gefin, sem ég hef hér fyrir framan mig. En þessar verðhækkanir, sem ég nefni, eru allar dæmi um það, að það hafa verið í ýmsum tilfellum leyfðar verðhækkanir langt umfram það, sem hóflegt var. Verð á brauðum og brauðvöru hefur hækkað um 12.5%. Verð á smjörlíki hefur hækkað um 16.l%. Verð á ávöxtum hefur hækkað um 17.l%. Verð á hita og rafmagni almennt hefur hækkað um 11.5%. Almennir rafmagnstaxtar hafa hækkað um 19.1 %, og dettur nokkrum manni í hug, að rafmagnið hafi þurft að hækka svona mikið í verði vegna launahækkunar, sem samið var um á s. l. sumri? Dísilolía til húsakyndingar hækkaði um 11.2% og hefur aftur verið hækkuð síðan, en ég veit ekki nákvæmlega, hve sú hækkun nam miklu. Nú er ráðgert að hækka iðgjöld til almannatrygginganna, sem flestir landsmenn verða að greiða, sem nemur 30%. Almenn verkstæðisvinna í sambandi við viðhald og viðgerðir bifreiða hefur hækkað um 27.4%. Fatahreinsun og fataþvottur um 15.3%. Iðgjöld til Sjúkrasamlags Reykjavíkur hafa hækkað um 19.2%. Allar þessar hækkanir eru þannig, að það fer ekkert á milli mála, að hér hafa verið heimilaðar miklu, miklu meiri hækkanir á verðlagi en ástæða var til, jafnvel þótt fullt tillit hefði verið tekið til þeirrar kauphækkunar, sem samið var um á s. l. sumri. En hitt er svo aftur annað mál, að ég álít, að í langflestum tilfellum þá átti að gera atvinnurekendum það að skyldu að taka á sig aukin útgjöld vegna kauphækkunarinnar, og það átti ekki að leyfa þeim að velta að fullu og öllu af sér þeim aukna kostnaði, sem fylgdi í kjölfar hækkandi kaups. Símagjöld hafa verið hækkuð um 15%. Það er auðvitað enginn vafi á því, að þar er um meiri hækkun að ræða en sem samsvarar hækkuðum útgjöldum þeirrar stofnunar vegna launahækkunarinnar, og auðvitað átti hún beinlínis að taka á sig verulegan hluta af hækkun kaupsins. Hún átti ekki að fá að velta þessu út í verðlagið, og þeir sem staðið hafa að því að heimila þessar hækkanir, verða að gera sér grein fyrir því, að þeir verða að glíma á eftir við þann vanda, sem af þessum hækkunum leiðir. Sá vandi kemur m. a. fram í því, að framfærsluvísitalan hækkar og kaupgjaldsvísitalan hækkar. Launþegar í landinu eiga rétt á því að fá hækkað kaup á móti þessu hækkaða verðlagi. Það er svo að mínum dómi ekki siðaðra manna háttur að fara þannig að, að þegar þeir eru búnir að leyfa þessar verðhækkanir og þegar þeir eru búnir að semja áður um það, að launafólk í landinu skuli fá hækkandi verðlag bætt í hækkandi kaupi, að koma þá á eftir og hlaupa frá gerðum samningum, láta verðhækkanirnar standa, en neita mönnum um launauppbætur á móti. En það er einmitt það, sem hæstv. ríkisstj. er að gera með því frv., sem hér liggur fyrir.

Ég vil nefna eina ákveðna verðlagshækkun, sem samþ. var af ríkisstj. sjálfri og sem hafði býsna miklar og víðtækar afleiðingar í för með sér, en það var að heimila að hækka alla verzlunarálagningu í landinu um 12.1%, skömmu eftir að samið var um launahækkunina til verkafólks í sumar. Það fer auðvitað ekkert á milli mála, að þessi hækkun á álagningunni, sem þá var heimiluð, var miklu meiri en sem samsvaraði auknum útgjöldum verzlunarinnar í sambandi við hækkað kaup. Þarna var beinlínis verið að færa milliliðunum í landinu aukinn hagnað frá því, sem áður var, þeir máttu taka meira. Auðvitað hefur þetta síðan sagt til sín í hinu almenna verðlagi.

Hér hafa farið fram allmiklar umr. um þetta frv., og hér hafa verið talsvert miklar deilur um ýmis atriði þess. Það hefur m. a. verið deilt um það, hver hafi orðið aðdragandi þessa máls, hvernig hafi verið staðið að málinu, og ég hef þegar vikið að því. Það hefur einnig verið deilt um það hér í þessum umr., hvað ýmis ákvæði frv. þýði í raun og veru eða þegar allt kemur til alls fyrir launafólk. Ég held, að það geti ekki farið á milli mála, að í þessu frv. felst það, að launafólk á að fá á næstunni verðlagsuppbót á sín laun, sem verður reiknuð með þeim bætti, að úr verðlagsuppbótunum verða felld niður 3 vísitölustig miðað við það, sem launafólkið átti að fá. Hér verður raunverulega framkvæmd launalækkun, sem nemur rétt í kringum 3% miðað við gerða samninga. Það er auðvitað engin leið að ætla sér að standa á því til lengdar, eins og talsmenn hæstv. ríkisstj. hafa gert, að ætla að neita því, að afleiðingarnar af því að strika út 2 vísitölustig úr kaupgjaldsvísitölunni, greiða þau ekki á tilteknu tímabili, að þetta þýðir í reynd að minnka kaupgetuna, sem þessu nemur, frá því, sem um hafði verið samið. Og það er vitanlega á sama hátt algerlega þýðingarlaust að neita því, að með ákvæðum í þessu frv. er gert ráð fyrir því að fella út úr vísitölunni, sem nemur 1 vísitölustigi, á þann hátt að taka ekki tillit til tiltekinna verðlagshækkana, sem átti að taka tillit til samkv. vísitölugrundvellinum. Það er líka auðvitað alger blekking að halda því fram, að í staðinn fyrir þá skerðingu, sem fram kemur í sambandi við niðurfellingu þessara 2 vísitölustiga, og við það að taka ekki tillit til verðhækkana, sem nemur 1 vísitölustigi, þá fái launafólk hækkun á fjölskyldubótum og niðurgreiðslan á vöruverði eigi að jafnast á við önnur vísitölustig, sem líka eru felld niður. Launafólk er því í raun og veru látið borga hækkunina á fjölskyldubótunum og látið borga niðurgreiðsluna á vöruverði, af því að það átti samningsbundinn rétt á því að fá kauphækkun á móti þeim verðhækkunum, sem orðnar voru. Ég held líka, að það verði í raun og veru ekki um það deilt lengur, að þetta frv. ríkisstj. breytir þeim vísitölugrundvelli, sem ríkisstj. hafði gert samkomulag um við verkalýðshreyfinguna. Og það verður heldur ekki að mínum dómi deilt um það lengur, að þetta frv., ef að lögum verður, raskar þeim kaupgjaldssamningum, sem gerðir voru á s. l. sumri. Ég held líka, að þær umr., sem hér hafa farið fram, hafi leitt það alveg greinilega í ljós, að sá vandi, sem nú er við að glíma í efnahagsmálum, stafar ekki af of háu kaupi verkafólks í landinu eða þeim kaupgjaldssamningum, sem gerðir voru á s. l. sumri. Vandinn í efnahagsmálunum stafar af því, að stjórnarvöld landsins hafa heimilað allt of miklar almennar verðlagshækkanir í sumar og haust. Það hefur ekki verið staðið gegn verðlagshækkunum, eins og hefði átt að gera. Verðlagið hefur verið látið hækka of mikið, og afleiðingarnar eru svo sá vandi, sem við stöndum nú frammi fyrir. Það er því þessi gamla dýrtíðarstefna ríkisstj., sem vandanum veldur. Ég held, að t. d. hæstv. fjmrh., sem hér er nú staddur í deildinni, þurfi að átta sig á því, betur en mér finnst að hann hafi gert, að þegar hann stendur að því að láta hækka iðgjöld almannatrygginga til þess m. a. að afla þar fjár í tryggingakerfið, eða þegar hann stendur að því að heimila Pósti og síma að hækka sín gjöld, þá koma afleiðingarnar af slíkum verðhækkunum fram í hækkandi vísitölu og í hækkandi kaupgreiðslu í krónum talið í landinu. Og ég tel, að bæði hæstv. fjmrh. og aðrir ráðh. hafi ekki á undanförnum árum gætt að því nægilega vel, að það er nauðsynlegt að standa gegn verðlagshækkunum, því að annars kemur upp slíkur efnahagsvandi, eins og við erum jafnan að glíma hér við á hv. Alþ. Það dugir ekki að segja það með fögrum orðum hér á þingi, að það sé vilji til þess að standa gegn verðhækkunum, en heimila svo þessar verðhækkanir alltaf í hvert skipti, svo að segja, sem á reynir.

Frá því að þetta mál var hér til 1. umr., eru nú komin fram ummæli nokkurra þýðingarmikilla stofnana í landinu um frv., og ég tel, að umsagnir, sem nú liggja fyrir, t. d. frá verkalýðshreyfingunni í landinu, um málið, séu þess eðlis, að það sé ómögulegt annað en hæstv. ríkisstj. verði að endurskoða alla afstöðu sína til þessa máls með tilliti til þeirra umsagna. Nú liggur það fyrir, að stjórn Alþýðusambandsins hefur lýst því yfir, að hún telur, að samþykkt frv. jafngildi því, að kippt sé á brott þeim grundvelli, sem samningarnir um kaupgjald frá 19. júní í sumar voru byggðir á. Alþýðusambandsstjórnin hvetur með samþykkt sinni öll sambandsfélög sín, þ. e. a. s. öll verkalýðsfélög í landinu, til þess að tilkynna viðsemjendum sínum, að þau telji, að samningarnir, sem gerðir voru í júní í sumar, séu úr gildi, hvað kjaraákvæðum viðvíkur. Það er því alveg augljóst mál, að það hefur farið þannig strax og reyndi á í þessu máli, eins og við sögðum hér ýmsir við 1. umr. um þetta frv. hér á Alþ., að hér væri verið að stefna að því að rjúfa þá kjarasamninga, sem í gildi hefðu verið, og ég sagði þá, að ég teldi, að með samþykkt þessa frv. leystist miklu minna en líklegt væri, að upp kæmi af nýjum vandamálum, við samþykkt þess. Nú sýnist mér það alveg augljóst, að samþykkt frv. leiðir til þess, að öll stéttarfélög í landinu muni á næstu vikum og mánuðum tilkynna sínum viðsemjendum, að kaupgjaldssamningarnir séu fallnir úr gildi að þeirra dómi eða m. ö. o., komið fram nýtt tímabil samningaleysis, en það þýðir að sjálfsögðu, að verkalýðsfélögin í landinu geta boðað til vinnustöðvunar, hvenær sem þau telja sér henta, með viku fyrirvara. Ég tel það ástand, sem þarna er komið upp, enn þá hættulegra en það, sem yfirleitt skapast, þegar samningar renna út með eðlilegum hætti. Það er ljóst, að verkalýðsfélögin telja, að samningarnir falli úr gildi, en þeirra viðsemjendur, atvinnurekendurnir, ætla að standa á því, að samningarnir séu í gildi. Á meðan það ástand varir, eru ekki miklar líkur til þess, að þessir aðilar setjist að samningaborði og reyni að leysa málin. Þetta stefnir því að mínum dómi út í algert öngþveiti. Þetta stefnir út í vinnustöðvanir, sem torvelt er að sjá, hvernig muni leysast eða hvenær muni leysast. Nú vitum við það allir hér á Alþ., að fyrir dyrum standa allviðamiklir samningar um kjaramál sjómannastéttarinnar í landinu, en kjör sjómanna hafa versnað stórlega að undanförnu í hlutfalli við aðra, þeir hafa verið að dragast aftur úr. Ekki þætti mér ólíklegt, að þetta færi á þann veg, að sá erfiði hnútur, sem upp kann að koma í sambandi við kjaramál sjómanna nú um áramótin, reyrðist enn þá fastar með því að hin almennu verkalýðsfélög og launþegafélög önnur í landinu kæmu inn í þessar deilur og hér yrði eitt allsherjarstopp á vinnumarkaði í kringum áramótin. Ætlar hæstv. ríkisstj. sér þá að standa þannig að þessum málum að lemja höfðinu raunverulega við steininn að mínum dómi og segja: „Samningar eru í gildi, við höfum ekki breytt samningum, þetta er allt í lagi?“ Ætlar hún að standa við bakið á atvinnurekendum og halda einhverju slíku fram, á meðan allt framleiðslulíf þjóðarinnar stöðvast? Ég held, að undir þessum kringumstæðum væri miklu nær, að hæstv. ríkisstj. setti inn í frv. sitt ákvæði um það, eins og hér hefur verið bent á fyrr í þessum umr., að með samþykkt frv. væru allir kjarasamningar niður fallnir, svo að það gæti þá legið alveg skýrt og glöggt fyrir báðum samningsaðilum, að þeir ættu að taka til við sína samningagerð að nýju og reyna að leysa þann vanda, sem upp er kominn.

Það má hæstv. ríkisstj. vita í þessum efnum, að það stoðar ekki til þess að leysa slíkan vanda að segja: „Við höfum félagsdóm og hann dæmir bara það, að þessir samningar séu í gildi.“ Það leysir engan vanda. Ef verkalýðshreyfingin í landinu almennt telur, að samningar hafi verið brotnir á þann hátt, að þeir séu úr gildi fallnir, þá verður að taka tillit til þeirrar skoðunar, og þá verður að reyna að finna nýja lausn á málinu, en þrjózkast ekki að ástæðulausu, því að það mun aðeins valda þjóðarbúinu sem heild auknum útgjöldum. Það liggja hér einnig fyrir umsagnir fleiri aðila en stjórnar Alþýðusambands Íslands.

Það liggja hér einnig fyrir mótmæli gegn þessu frv. frá Starfsmannafélagi ríkisstofnana. Þeir telja líka, að á sér séu brotnir samningar. Það liggur líka fyrir, að stjórn verkalýðsfélagsins Dagsbrúnar, stærsta verkalýðsfélagsins í landinu, hefur mótmælt þessu frv. harðlega, og það hafa miklu fleiri verkalýðsfélög þegar gert. Það liggur fyrir, að ýmsir kunnir stuðningsmenn ríkisstj., sem hafa á hendi trúnaðarstörf í verkalýðshreyfingunni, hafa opinberlega lýst yfir því, að þeir muni berjast gegn þessari lagasetningu, þeir standi með þeirri yfirlýsingu, sem miðstjórn Alþýðusambandsins hefur gert. Ætlar hæstv. ríkisstj. virkilega ekki að taka tillit til þessara aðvarana, sem hún hefur þegar fengið? Er meiningin að reyna að reka þetta mál í gegnum þingið með atkvæðamagni, eða ætlar hæstv. ríkisstj. að meta að nýju þá stöðu, sem nú er upp komin í þessu máli og breyta að einhverju leyti um afstöðu í málinu? Ég held, að ríkisstj. gerði hyggilegast að fresta nú þessu máli um sinn og endurskoða alla sína afstöðu til málsins.

Ég hef leyft mér að flytja tvær brtt. við frv. Þær eru fluttar á þskj. 133. Þær eru um það, að 4. og 5. gr. frv. falli niður. Í þessum gr. er að finna þau ákvæði, sem aðallega valda ágreiningi og sem verkalýðshreyfingin í landinu m. a. mótmælir harðast. Ég tel, að það megi samþykkja þetta frv., ef þessar tvær gr. væru felldar niður. Þá stæði eftir verðstöðvunin, og þá stæðu út af fyrir sig eftir ákvæðin um það að leggja á launaskatt. Þó að það sé mjög sérkennileg till. að leggja á þennan launaskatt og láta hann renna fyrst í ríkissjóð í staðinn fyrir það, að hann átti samkv. samningum að renna til launþega og ríkissjóður noti síðan þennan launaskatt til niðurgreiðslna, og jafnvel þó að það liggi fyrir, að ríkisstj. takist með þessum niðurgreiðslum að skekkja vísitöluna lítið í framkvæmd, þá tel ég út af fyrir sig ekki ástæðu til þess að standa hart gegn því, að þessi launaskattur sé lagður á og í staðinn fyrir hann komi hækkun á fjölskyldubótum og einhver lækkun á vöruverði. Það er skoðun mín, að ríkisstj. hafi haft fulla heimild til þess að greiða niður vöruverð. En auðvitað hefur verið til þess ætlazt, að slík niðurgreiðsla yrði ekki til þess að skekkja þann grundvöll, sem byggt var á. Ég tel fyrir mitt leyti, að það sé vel hægt að samþykkja það atriði ásamt verðstöðvuninni, þó að ég sé engan veginn hrifinn af þessu ákvæði, mér finnst það heldur ankannalegt. Ég tel einnig, að það sé sjálfsagt að hafa í frv. ákvæði um það, að gert sé ráð fyrir því, að vöruverð verði greitt niður. Þar kemur hvort tveggja til, að ríkisstj. getur notað þann tekjuafgang, sem nú mun verða hjá ríkissjóði til niðurgreiðslna, og einnig þær tekjur, sem gert er ráð fyrir að innheimta m. a. með launaskattinum í þessu skyni, en hitt er mér ljóst, að þó að frv. yrði samþ. í þessum búningi, þá leysir það ekki þann meginvanda, sem hér er við að glíma. Þar verður fyrst og fremst um frestun á vandamáli að ræða, og þar á eftir þarf vitanlega að nota frestunartímann til þess að reyna að koma sér saman um ráðstafanir, sem gætu verið haldbetri. En við Alþb.-menn höfum bent þar á nokkur ráð, sem við teljum, að sé auðvelt að grípa til í því skyni að vinna að lækkun á nauðsynjavörum og til þess að hamla gegn verðhækkunum á næstunni.

Ég skal svo ekki að sinni ræða frekar um þetta mál. Það eru þegar orðnar hér alllangar umr. um málið, en ég hef gert grein fyrir afstöðu okkar Alþb.-manna til málsins, en vil aðeins endurtaka það að lokum, að ég vænti þess, að með tilliti til nýrra upplýsinga, sem nú eru komnar fram í þessu máli, fallist ríkisstj. á það, að það sé rétt að fresta málinu a. m. k. um skeið og huga betur að því, hvað ráðlegast sé að gera miðað við þær aðstæður, sem nú eru komnar upp.