15.03.1971
Efri deild: 63. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í B-deild Alþingistíðinda. (660)

23. mál, framleiðnisjóður landbúnaðarins

Kristján Ingólfsson:

Herra forseti. Ég held, að það hvíli nú nákvæmlega sama skoðun að baki hjá mér og hv. 5. þm. Sunnl., báðir viljum við framleiðnisjóð sem mestan, þannig að hann geti staðið í stykkinu gagnvart því hlutverki, sem honum upprunalega var ætlað. Hins vegar get ég ómögulega séð, að sjóðurinn geti gert það með þeirri fjárveitingu, sem honum er ætluð, 10 millj. árlega miðað við þann traustleika íslenzkrar krónu, sem við þekkjum mætavel. Við Ásgeir Bjarnason flytjum hér við umr. um þetta mál í Ed. hliðstæðar brtt. og Stefán Valgeirsson og Vilhjálmur Hjálmarsson fluttu við afgreiðslu málsins í Nd. og fengu þar neikvæða afgreiðslu.

Fyrri brtt. okkar er við 1. gr. frv. og hún er um það, að inn í lögin komi ákvæði um, að tilraunir með innlenda fóðuröflun og heyverkun sitji fyrir öðrum tilraunaverkefnum um fyrirgreiðslu. Það þarf ekki að rökstyðja það mál lengi né mikið, að svo til allur landbúnaður okkar Íslendinga byggist á nægilega mikilli og nægilega góðri heyöflun. Heyin hafa alla tíð verið og munu verða hér í þessu landi undirstaða góðra afurða í landbúnaði. Hins vegar hefur oft orðið mikill misbrestur á, að heyöflun yrði sem skyldi, og síðustu ár, þrátt fyrir allar framfarir, hefur t. d. kalið gert íslenzkum landbúnaði margan óleikinn. Enn er margt á huldu um orsakir kalsins og deildar meiningar. Hins vegar líður ekki svo vetur, að þessi gróðureyðir skilji ekki eftir sig fleiri eða færri eyðispildur, þar sem annars skyldi vera gróðurlendi. Frá hagrænu sjónarmiði koma afleiðingar kalsins bæði niður á bændunum sem einstaklingum og þjóðarbúskapnum í heild. Aukin kjarnfóðurkaup leggjast á efnahag bóndans, en hluti þeirra kjarnfóðurkaupa er afleiðing kals og slæmrar heyjanýtingar. Sú er skoðun okkar flm. brtt., að rannsóknir á kalinu varði eins og fyrr segir alla undirstöðu íslenzks landbúnaðar, þar með talda alla heyöflun og framleiðni og því beri Alþ. að veita þessu atriði augljósa aðild að aðstoð úr framleiðnisjóði og þar með forgangsaðild. Á sama hátt beri að lögfesta ákvæði um stuðning við nýjungar í heyverkun. Það er engum að kenna hér í hv. Ed., að lengst af hefur bóndinn átt sitt undir veðri og vindum. Á síðustu áratugum hefur tæknin komið hér nokkuð til aðstoðar, en hagnýting þeirrar tæknikunnáttu hefur aftur á móti reynzt alldýr og ekki á allan hátt hagkvæm og því rík ástæða til að leita betri úrræða um þetta mikilvæga atriði. Ég vil í sambandi við þessa brtt. okkar leyfa mér að vitna í samþykkt, sem gerð var í Félagi ísl. búfræðikandídata á aðalfundi þess árið 1970, með leyfi hæstv. forseta. En þar segir:

„Fundur í Félagi ísl. búfræðikandídata leggur til, að landbrh. og stjórn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins efli sérstaklega hagnýtar rannsóknir á fóðuröflun, fóðurverzlun og fóðrun, og telur fundurinn, að slíkar rannsóknir verði bezt staðsettar á Hvanneyri vegna afnota af túnum, búfé og véltækni. Kalrannsóknir verði stórefldar og höfuðstöðvar þeirra verði við tilraunastöðina á Akureyri.“ Á sama hátt hefur Búnaðarþing árið 1968 samþykkt, með leyfi forseta:

„Búnaðarþing ályktar, að brýnustu verkefni, sem vinna beri að af fullum krafti, séu að vinna að lausn kalvandamálsins á breiðum grundvelli og leggja stóraukna áherzlu á allar þær rannsóknir, sem að henni geta stuðlað.“

Að öðru leyti og þessu til viðauka vildi ég leyfa mér að höfða til þeirrar almennu þekkingar, sem við öll höfum á höfuðatvinnuvegi þjóðar okkar, og leyfi mér að fullyrða, að sú almenna þekking hlýtur að stuðla að samþykkt þessarar brtt. okkar.

Síðari brtt. okkar Ásgeirs Bjarnasonar fjallar um hina fjárhagslegu hlið framleiðnisjóðsins. Upprunalega var stofnframlag sjóðsins ákveðið 50 millj. og hafa undanfarið 10 millj. verið látnar sjóðnum í té á fjárl. ár hvert, eftir að stofnfjárframlagið, 20 millj., var goldið. Ekki þarf mikla hagspeki til að sjá, að 10 millj. í dag eru léttvægari á peningamarkaðinum en þær voru árið 1967. Rýrnun íslenzka gjaldmiðilsins hefur komið hér við sögu eins og annars staðar. Hins vegar er þörfin fyrir getu sjóðsins ekki minni en hún áður var, þar sem fram undan eru stór og mikil verkefni eins og endurskipulagning sláturhúsakerfisins, sem á er minnzt í grg. þeirri, er frv. ríkisstj. fylgir, fyrir utan öll þau miklu verkefni önnur, sem bíða úrlausnar og áður hefur verið að vikið. Í grg. með frv. segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Miklu máli skiptir, að einhver aðili sé starfandi, er hafi þann sveigjanleika í starfsemi sinni, sem framleiðnisjóðurinn hefur, til að stuðla að könnun og eflingu mikilvægra nýjunga.“

En það er engu líkara en þeir, er þetta sömdu, hafi gleymt veikindum íslenzkrar krónu. A. m. k. fæ ég ekki séð, hvernig sjóðurinn á að sinna þeim stórverkefnum, sem fram undan bíða hans, með sama krónufjölda og lagður hefur verið til hans undanfarin ár, en fyrir því er gert ráð í frv., 10 millj. kr., sem því miður, ef byggja má á reynslunni, verða smækkandi krónur. Það er þess vegna, sem við flm. brtt. flytjum tillögur um, að eigi skuli veitt minna en 20 millj. kr. árlega til framleiðnisjóðs. Loks leggjum við til, að leitað verði umsagnar Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands um, hver verkefni séu brýnust hverju sinni, þar eð við teljum nauðsyn til bera, að starfsemi sjóðsins sé jafnan í sem lífrænustu sambandi við landbúnaðinn í landinu. Það má efalaust kalla þetta yfirboð eins og hvað annað, en ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að ekkert gruggugt eða ónormalt hugarfar liggi hér til grundvallar, heldur einungis það, að við flm. brtt. viljum, að framleiðnisjóður verði fær um að standa við það hlutverk, sem honum er ætlað, og teljum, að svo margar séu þarfirnar fram undan, sem ekki verði hægt að komast hjá að leysa og einmitt framleiðnisjóðurinn eigi að hafa þann sveigjanleika, sem um getur í grg. með frv. ríkisstj.