15.03.1971
Efri deild: 63. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

23. mál, framleiðnisjóður landbúnaðarins

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta mál, en ég vil þó aðeins lítils háttar koma að aths. í sambandi við þær tillögur tvær, sem hér eru fluttar til breytingar, og þau ummæli, sem fyrri flm. þeirra viðhafði hér í ræðu núna rétt áðan. Það er vikið að því í fyrri till., að við 1. gr. frv. verði aukið þessari setningu: „Þó skulu tilraunir með innlenda fóðuröflun og heyverkun sitja fyrir öðrum tilraunaverkefnum með fyrirgreiðslu.“ Ég tel í fyrsta lagi þessa mgr. og þennan viðauka algerlega óþarfa, fyrst og fremst fyrir þá sök, að ég tel, að lög um framleiðnisjóð eigi einmitt að hafa þann sveigjanleika í sér, sem ræðumaður talaði um hér áðan, með því að taka ekki þetta út úr sérstaklega, því að maður veit ekki fyrir fram, hver eru talin brýnustu verkefnin á næstu árum. Sama má segja um niðurlagið á seinni brtt., þar sem talað er um að leita umsagnar Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands um, hvaða verkefni séu brýnust hverju sinni. Þetta tel ég einnig óþarft, og ef maður lítur aðeins á það, hvernig stjórn framleiðnisjóðs er uppbyggð, þá eru þar tveir stjórnarmenn samkv. tilnefningu Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda og eiga þess vegna af sjálfu sér innangengt og eru í stjórnunarsambandi við þær stofnanir, sem gert er ráð fyrir með brtt. að leita til, til þess að finna út, hvaða verkefni séu brýnust hverju sinni.

Ég vildi nú aðeins láta þetta tvennt koma fram, að ég teldi þetta óþarft hvort tveggja, og ég álít, að það sé hagkvæmara og eðlilegra, að það sé ekki tekið fram í lögunum, hver séu brýnustu verkefnin. Þegar um er að ræða atvinnugrein í örri þróun, hvort sem það er framleiðsluatvinnugrein eða aðrar, þá verður ekki séð fyrir fram, hvaða verkefni eru brýnust hverju sinni. Ég deili ekki um það við neinn, að það sé brýnt verkefni eins og sakir standa að efla tilraunir með innlenda fóðuröflun og heyverkun. Við getum verið sammála um það, en ég vænti þess, að það verkefni verði leyst og þá þurfum við ekki að láta það standa í lögunum, að það skuli vera ævarandi brýnasta verkefni framleiðnisjóðs.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta frv., en eins og ég gat um áðan, legg ég til, að það verði samþ. óbreytt.