22.10.1970
Efri deild: 4. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (667)

13. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er eins og í aths. segir flutt til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin 1. júní s. l. En forsendur fyrir þessum brbl. voru þær, að undanfarin 2–3 ár hefur verið verulegur halli á svonefndum Tryggingasjóði fiskiskipa, sem aðallega hefur tekjur sínar af útflutningsgjöldum. Það var hins vegar til þess ætlazt, þegar þessi sjóður var stofnaður, að hann stæði undir sínum útgjöldum, sem hefur reynzt miklum erfiðleikum bundið á undanförnum árum og ríkissjóður þurft að hlaupa þar undir bagga ár eftir ár, og jafnframt er flutningur þessara brbl. ein afleiðing af erfiðleikatímabili, sem yfir gekk í sjávarútvegi. Það þótti því nauðsynlegt að auka tekjur þessa sjóðs, þannig að hann væri fær um að standa undir upprunalegum skyldum sínum og það er meginefni þessa frv. Ég tel ekki ástæðu til að hafa um frv. fleiri orð, nema tilefni gefist til, en legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.