12.11.1970
Neðri deild: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

101. mál, atvinnuöryggi

Björn Pálsson:

Herra forseti. Mér var sagt það, — ég hef nú ekki sjónvarp — að hæstv. viðskmrh. hefði verið í sjónvarpinu og þar hefði verið talað um þessa verðstöðvun. Hann hefði verið spurður, hvort fólkið yrði ekki að borga þessar niðurgreiðslur, þessi 6 stig beint eða óbeint, sem um var talað. En hann hefði verið fljótur til svars, nei, nei, nei, það væri ekki. Þann 10. þ. m. las ég í leiðara Morgunblaðsins, sem maður skyldi ætla, að væru mjög merkar ritsmíðar, svofellda klausu viðvíkjandi þessari verðstöðvun og viðvíkjandi þessum tveimur vísitölustigum:

„Þar er einungis lagt til, að launþegar fresti því að fá greidd tvö vísitölustig til 1. sept. 1971, en það er framlag þeirra til að hefta verðbólguna. Á móti þessari frestun fá launþegar stórhækkaðar fjölskyldubætur, lægra verð á brýnustu lífsnauðsynjum, svo sem mjólk og öðrum búvörum.“

M. ö. o. er ekki hægt að skilja annað á þessu skrifi en það, að á móti þessari frestun á þessum 2 stigum fái þeir þessi fríðindi. En þessi fríðindi koma á móti 4 öðrum stigum og raunar meira, 5½ stigi, því að eftir því, sem grg. segir, á þetta að þurrka út 7½ vísitölustig. Þau koma ekki á móti þessum 2 stigum, svo að þarna er um algerlega villandi áróður að ræða. Nú er það mannlegt og eðlilegt, að hver reyni að tala máli fyrir sinn flokk o. s. frv., en það er bezt að ganga ekki lengra en satt og rétt er, því að hitt kemur manni venjulega í koll síðar.

Einkennilegt er það með þessar blessaðar verðstöðvanir, að það vill þannig til, að þær eru alltaf fyrir kosningar. Ég man það, og stjórnarliðar eru nú oft og mörgum sinnum búnir að ræða það, þegar vinstri stjórnin fór frá. Satt að segja var ég ekkert sérstaklega ánægður með það, en það var vitað, að ekki var þingmeirihluti orðinn fyrir hendi. Þeir voru búnir að semja, sjálfstæðismenn og kratar, og kratar undu ekki hjá Framsókn og Alþb.-mönnunum af því einfaldlega, að þeir voru ekki nógu vei fóðraðir. Hversu dýrir þeir verða á fóðrunum hjá sjálfstæðinu, skal ég engu spá um nú, en ég hygg, að það geti endað með því, að þeir verði þeim fulldýrir. En þetta var ekki fyrir hendi. Hitt er annað mál, að það má deila um það, hvort Hermann Jónasson og Framsfl. átti sem slíkur ekki að leggja fram ákveðnar till., hvað þeir vildu gera, og persónulega hefði ég heldur álitið það, að þeir hefðu átt að gera það og láta þá þingið fella þær. Þá vissi þjóðin, hvað þeir vildu, og það var hægt að kjósa um það. En það var ekki gert, og það þýðir ekki að tala um það. En það er bara einkennilegt með þessar verðstöðvanir, að þær koma alltaf fyrir kosningar. 1959 var sagt, að kratar væru búnir að stöðva verðbólguna. Þegar gerðar voru upp sakirnar fyrir það ár, hefur aldrei orðið lakari útkoma. Erlendar skuldir eða skuldir þjóðarinnar í heild út á við uxu á því eina ári um 1000 millj. kr., og það er miðað við núverandi verðgildi líklega eitthvað 4 milljarðar. Þetta er hægt að sjá í gömlum hagskýrslum. Þá var búið að stöðva verðbólguna með einu pennastriki.

1967 var búið að stöðva verðbólguna. Það voru sett eitthvað hliðstæð lög og þetta, dálítið öðruvísi raunar. Þá var vísitölunni haldið í skefjum með niðurgreiðslum, en sumarið eftir var allt komið í öngþveiti. Þá var vitanlega ekki meira fé fyrir hendi til niðurgreiðslna, og þá þurfti að fella gengið 1967 og svo aftur 1968 enn meira en 1967. Og hvað er gengislækkun? Það er að taka af sparifjáreigendunum, það er að eyðileggja traustið á peningunum í hverju þjóðfélagi. Það er stærsti þjófnaður, sem framkvæmdur er í nokkru þjóðfélagi. Ég hef tekið eftir því í lífinu, þegar unglingar eru að eigast við, eins og oft vill nú til, ef unglingur kankar í kinnina á félaga sínum, þá er hann viss með að hjóla í hann. En ef aflsmunur er mikill og annar er sleginn um koll, þá vanalega hreyfir hann sig ekki. Þetta kemur fram í öllu lífinu. Þetta kemur fram í viðskiptum milli landa, og þetta kemur fram í viðskiptum hér innan þessa salar, þegar þessi stóra gengislækkun er gerð 1968 og það er mesta kjaraskerðing, sem launþegar hafa nokkurn tíma orðið fyrir, og það dróst í 2 ár, að þeir fengju leiðréttingu, en við því steinþögðu þeir. En þegar farið er að fikta við kinnina á þeim eins og nú að næla 2 stigum af þeim, þá ætlar allt vitlaust að verða. Það er búið að tilkynna, að allir samningar séu lausir af Alþýðusambandinu. Ég er ekki að mæla því bót. Það má deila um það, hversu samningafrelsið á að vera mikið, og við getum gert okkur það alveg ljóst, lýðræðisþjóðirnar, að ef við kunnum okkur ekki hóf í kröfugerð, — ég á ekkert frekar við verkamenn en aðra, þeir eru sízt ósanngjarnari en aðrir, við getum alveg eins tekið bændur og embættismenn og yfirleitt allar stéttir, — þá getum við ekki verndað þetta frelsi, sem við búum við. Rússar viðurkenna eigi verkföll. Rússar senda þá í fangabúðir, sem reyna að gera verkföll. Það er ekki leyft. Það eru deilur í veröldinni. Þeir vilja færa út sitt valdsvið, kommúnistarnir, og við viljum vernda okkar þjóðskipulag, og ef við högum okkur ekki skynsamlega, þá getum við ekki verndað frelsið.

En við skulum gera okkur það ljóst, hvort fólkið verður raunverulega ekki að borga þetta, hvort það er ekki kjaraskerðing, þessi 7½ stig, sem nú á að fresta. Við skulum reyna að gera okkur það ljóst. Og við skulum líka reyna að gera okkur ljóst í örfáum orðum, — ég skal vera stuttorður —, hverjir það eru, sem raunverulega borga.

Í fyrsta lagi koma fjölskyldubæturnar. Það á að hækka þær. Það á að hækka þær með fjórum börnum um 11 048 kr., en alþýða manna á nú tæpast svo mörg börn, en með þremur börnum við skulum segja, að það sé meðaltalið, — eru það 8580 kr. En nú eru sumir, sem ekki eiga börn, en þetta á að koma inn í vísitöluna. Þetta þýðir því kauplækkun, líklega um 8000 kr. hjá öllum þeim, sem ekki eiga börn og fá þess vegna engan barnalífeyri, þetta þýðir það. Ég er ekki að segja, að þetta sé vitleysa, og ég er heldur ekki að segja, að þetta sé ósanngjarnt, því að það á fyrst og fremst að borga þeim, sem eiga börnin, svo hátt kaup, að þeir geti lifað sómasamlegu lifi. En það hefur bara ekki verið gert undanfarin fjögur ár, og það er mál út af fyrir sig. Heimilin hafa getað komizt prýðilega af, hafi konan getað unnið líka úti, en þar sem mikið er af ungum börnum og maðurinn eina fyrirvinnan, þá vægast sagt hefur verið mjög þröngt í búi undanfarin tvö ár, og þar að auki eru slíkir menn beittir ósanngjörnum skattaálögum, því að frádráttur til útsvars með börnum er langsamlega of lítill, en hins vegar hefur konan, ef hún vinnur úti, skattfríðindi, þannig að hún þarf ekki að telja til skatts hluta af launum sínum þannig að afkoma fjölskyldumannanna, þar sem konan hefur ekki getað unnið úti, fjölskyldumanna, sem hafa venjuleg laun, hefur verið of slæm s. l. tvö ár, og þeir menn hefðu sannarlega þörf fyrir kauphækkun. Þess vegna ætla ég ekki að deila út af þessum barnalífeyri, en við skulum gera okkur það ljóst, að þetta þýðir skerðingu á launum vissra manna í þjóðfélaginu. Þetta þýðir 6–8 þús. kr. lækkun hjá öllum, sem ekki fá barnalífeyri. Látum það vera. Þetta er hagsýni, og sannleikurinn er sá, að frv. er ekki illa samið og ekki heldur heimskulega samið, enda gert af mjög hæfum manni. Hins vegar gæti grg. verið stuttorðari, en skýrari.

Þetta er það fyrsta. Það á að lækka um 1½ vísitölustig. Þá eru 6 stigin eftir. 2 stigin á að taka með því að fresta greiðslu á þeim þangað til 1. sept. að ári, en „hvað tekur þá við?“ spurði okkar ágæti forsrh. danska forsrh., og báðir brostu. Ég veit ekki, sennilega á að kjósa í Danmörku í vor, en ætli standi betur á að greiða þessi stig þá? Vitanlega á aldrei að greiða það fram að þeim tíma, það verða gerðar einhverjar aðrar ráðstafanir, en þetta á að gera.

Ég verð að segja, að mér finnst varla taka því að vera að brjóta samninga við fólkið fyrir þessi 2 stig, og ég held, að það sé verst fyrir stjórnarliðana sjálfa. Við vitum, að þetta er kosningamál. Við þekkjum þennan skrípaleik, sem alltaf er fyrir kosningar. Það á alltaf að stöðva verðbólguna, og svo er komið til fólksins og sagt: „Við erum búnir að stöðva verðbólguna.“ Svo er kosið og svo er aldrei meiri skriður á verðbólgunni heldur en á eftir. Við þekkjum þetta. Ég talaði við ágætan vin minn í Sjálfstfl., — ég á nú marga kunningja þar, — í gærkvöld, og við vorum að tala um þetta. „Þetta tókst síðast,“ sagði hann. Það má vel vera, að þetta takist enn. En við vitum þetta, og stjórnarliðar vita þetta sjálfir. Við vitum, að þetta er skrípaleikur.

Þarna koma 2 stig. Þá eru komin 3½ stig. Og þá eru eftir 4 stigin. Hverjir borga þau? Það á að leggja 2% launaskatt á atvinnurekendur. Það á að gera 245 millj. á 9 mánuðum. Það er nú fyrir 1% launaskattur, sem var samið um, að atvinnurekendur borguðu, og það átti að byggja hús fyrir þann skatt, aðallega hér í Reykjavík. Ég taldi þetta heimskuflan, fyrst að leggja skatt á atvinnurekendurna, svo þegar þeir geta ekki risið undir allri skattbyrðinni, þá að fella gengið og svo að leggja á nýja skatta. Ég hef alltaf verið á móti gengislækkunum, ef hægt væri að komast hjá þeim. Ég réð stjórnarliðum heilræði 1960, þegar ég sagði þeim, að þeir skyldu ekki fara lengra með að fella gengið en eins og krónan stæði, og hún stóð þá í 30–32 kr. dollarinn. Það er sjálfsagt að viðurkenna það, sem rétt er, að það var rangt gengi, 16 kr. dollarinn, þegar þessi ágæta stjórn tók við. En það var nú ekki komið lengra niður en það. Og ég réð þeim frá því að hækka vextina, og sannleikurinn er sá, að vaxtahækkunin er það versta og vitlausasta verk, sem stjórnarliðar hafa nokkurn tíma gert. Í gegnum allt heila kerfið hefur þetta skapað vaxandi útgjöld. Þeir fóru upp í 12%, víxlavextirnir. Föstu lánin voru hækkuð um 2 og 2½%, þegar eftir gengislækkun, og víxlavextirnir eru núna um 10%, en voru ekki nema 7. Í gegnum allt heila kerfið gengur þetta. Hvað ætli þetta hafi íþyngt verzluninni mikið og þeim, sem byggja hús og annað slíkt? Og það er fáránlegt að fara að reikna þetta bara af útgerðarlánum. Þetta verða allir að borga. Þeir verða að fá hærra kaup fyrir það. Og þetta átti sinn þátt í að auka verðbólguskriðuna, meira en nokkuð annað og of mikil gengislækkun. Svo var Seðlabankinn látinn skapa rekstrarfjárskortinn, svo að við bjuggum í gegnum öll góðærin við rekstrarfjárskort og vaxandi verðbólgu. Sem sagt, rekstrarfjárskorturinn og verðbólgan eru að miklu leyti heimatilbúin hjá stjórnarliðinu. Þó að vafalaust mætti nú eitthvað að stjórninni finna milli 1950 og 1960, þá var skriðan ekki nærri eins hröð. Og þeim hefur tekizt að gera okkar ágæta foringja og stjórnmálamann, Eystein Jónsson, að miklum fjármálamanni. Það er þannig, að þegar menn athuga hans fjármálastjórn, þá verður það mjög glæsilegt tímabil, hvað vizku snertir, borið saman við þessa síðustu tíma. Hitt er annað mál, að það hafa verið betri veiðiár og betra árferði á ýmsan hátt þessi s. l. 10 ár.

Svo kemur einn liðurinn enn. Þarna eru komin 2%, sem atvinnurekendur eiga að borga. Mér virðist þetta hálfgerður skrípaleikur. Ég álít, að atvinnurekendur geti alveg eins borgað 2% hærra kaup. Þetta er ekkert nema skrípaleikur. Látum þá bara borga 2% hærra kaup, og leggjum engan launaskatt á þá. Ég vil alls ekki vera með þessum síauknu og fjölgandi sköttum á útgerðina, vegna þess að ég hef reynslu fyrir því, að þegar skattur er lagður á einhverja aðila, þá er honum aldrei breytt, þeir sitja með hann. Ég taldi hér upp fyrir tveimur árum 25 skatta á útgerðinni, það er mikið verk að tína þá saman. Ég hygg, að það sé varla nokkur maður í þjóðfélaginu, sem gæti þulið þá upp. Ég dreg það í efa. Og síðan er búið að bæta á 4–5, þeir eru að nálgast 30, — stórum sköttum í viðbót. Ég ætla að tína þetta saman einhvern tíma í vetur og lofa ykkur svo að heyra þuluna. Ég ætla þess vegna ekkert að vera með þessu 1½%, vegna þess að það er engan veginn tryggt, að það verði nokkurn tíma afnumið. Ég er ekki farinn að sjá, að það verði gert. Þó að það sé sagt, að það eigi að falla úr gildi síðasta ágúst að sumri, þá verður vafalaust fundin einhver leið til þess að halda þessum skatti. Og svo þarf vafalaust að fella gengið eftir 1–2 ár vegna þess hvað útvegurinn þarf að borga mikil og margþætt gjöld.

Þarna eru 2%. Hvernig á svo að afla hinna teknanna? Hækkun á víni og tóbaki, 143 millj. og það um leið tekið út úr vísitölunni. Ég er ekki að segja, en menn gera þetta, og launþegar gera þetta alveg jafnt og aðrir menn. Það á að taka þennan lið út úr vísitölunni, en þetta nálgast það að vera heilt vísitölustig miðað við aðrar vörur, því að til að halda niðri heilu stigi þarf eitthvað um 180 millj. Þarna er gert ráð fyrir 143 millj., og má vera, að það verði meira. Það er vafalaust varlega áætlað. Þarna er vísitölunni breytt frá því, sem verið hefur, og það er vitanlega kjaraskerðing fyrir launþega. En látum vera með svona smábrellur, tiltölulega saklausar, eins og með vín og tóbak og barnalífeyrinn og þetta sé látið lækka vísitöluna. Ég hygg, að launþegar gerðu ekkert veður út af því. En ég held, að það taki því satt að segja ekki að vera að rífast um þessi 2%.

Þá er eftir það, sem ríkissjóður á að greiða, og svo er gert ráð fyrir lækkun á útflutningsuppbótum, 130 millj. En það þarf 135 millj. í 9 mánuði til að það nægi í vísitölustig, 130 millj., takið þið eftir, lækkun á útflutningsuppbótum. Og það er ekki hægt að neita því, að EFTA-aðildin, — það er líklega það mesta gagn, sem hún hefur gert okkur enn — hefur gert það auðveldara að selja kindaketið, þeir fengu tolla lækkaða eða afnumda á hluta af kindaketinu í Svíþjóð og jafnvel í Noregi líka, og mér er sagt, að þetta muni hafa aukið tekjur af kjötsölu um 40 millj. kr., og það létti þá á útflutningsuppbótunum eða bætti hag bænda, annaðhvort var. Í öðru lagi, með því að greiða smjörið niður sennilega eitthvað um 100 kr. í viðbót á kg, þá selst miklu meira af smjörinu, því að við vitum það, að fjöldi af fólki var hætt að borða smjör, vegna þess að það hafði ekki efni á því, en ef smjörið væri flutt út, þá fengist ekki meira fyrir það, uppbæturnar yrðu alveg jafnmiklar og niðurgreiðslunni nemur, þegar þessi viðbót er komin, þannig að ríkissjóður vinnur bæði beint og óbeint við að greiða niður smjörið allt að því, sem þessum útgjöldum nemur. Það eru þá eftir um 126 millj., sem ríkissjóður segist sjálfur verða að taka á sig, og hann mun vinna það að mestu leyti upp með því, að útflutningsuppbæturnar lækka, þannig að ég hygg, að þetta þrengi í raun og veru hér um bil ekkert hag ríkissjóðs. Og þá erum við komnir að því, sem ég sagði áðan, að frv. er engan veginn bjánalega samið fyrir hönd ríkissjóðs. Bein framlög ríkissjóðs, þegar búið er að taka tillit til þess, sem hann græðir óbeint á þessum ráðstöfunum, eins og ég er búinn að benda á, með því að greiða niður smjörið, verða sáralítil.

Svo komum við að þriðja aðilanum, og það eru bændurnir. Það kemur fram í grg., að að á ekki að taka tillit til hækkana á fóðurvörum. s. l. ári voru flutt inn 46 þús. tonn af fóðurvörum eða sem svarar 9 tonnum á bónda í landinu, og auk þess hafa verið notaðar innlendar fóðurvörur, talsvert magn af þeim. En tökum bara það erlenda. Það er gert ráð fyrir, að það hækki um 2 þús. kr. tonnið af fóðurvörum. Það þýðir 18 þús. kr. á bónda, sem bændurnir eiga að taka á sig, svo framarlega sem ekkert tillit er tekið til þessarar hækkunar, án þess að fá einhver meðalvegur farinn þarna, því að þetta kemur ekki beint fram í l., þetta kemur fram í grg. En ef þetta verður framkvæmt, — ég hef heyrt, að það sé meira að segja búið að ræða um þetta í Stéttarsambandinu og jafnvel að það sé að einhverju leyti búið að fallast á þetta, ég skal ekki fullyrða neitt um það, ég hef heyrt svo lauslega um það, — þá taka bændurnir þessar byrðar á sig. Ég er ekki að segja, að það sé ekki eðlilegt, að þeir geri það, vegna þess að það er að mörgu leyti hyggilegt að draga úr fóðurvörunotkun, og í öðru lagi má vel vera, að þessi niðurgreiðsla greiði fyrir sölu á þeirra vörum, þannig að þeir að einhverju leyti vinni þetta upp. En þeir taka þetta samt sem áður á sig og þarna hygg ég, að komi það, sem eftir er, að ríkissjóður þurfi að borga, þannig að ríkissjóður taki í raun og veru engar byrðar á sig vegna þessara ráðstafana. En fólkið gerir það.

Mér finnst rétt, að þetta komi fram til þess að blekkingar hverfi, að það sé ekki fólkið, sem taki þetta í raun og veru á sig, því að auðvitað tekur það öll útgjöld á sig, beint eða óbeint. Afstaða mín til þessa frv. er þess vegna þessi: Ég vil ekki vera að leggja á þennan launaskatt, það er ekkert nema skrípaleikur. Ég vil ekki ganga inn á þessi gjöld, af því að ég er búinn að margreka mig á það um skatta, sem eru lagðir á aðila, hvort það eru atvinnurekendur eða aðrir, að það má heita ógerlegt að fá þeim aflétt, og það er alveg eins gott fyrir atvinnurekendur að borga þá 2 stigum meira í kaup.

Í öðru lagi vil ég ekki greiða atkv. með því að taka þessi 2 stig af launafólkinu, og það er ekki hægt að neita því. Þótt það séu ekki vinnuveitendur, sem breyta þessu, það er löggjafinn, sem gerir það, skal ég ekkert segja um, hvernig það færi í dómi, hvort þetta yrðu talin svik eða ekki. Það er ekki minnzt á það í samningum. En þetta er óbeint að standa ekki við samninga, og það tekur því ekki fyrir þessa smámuni. Við eigum að vera sanngjarnir í samningum, en við eigum að reyna að standa við þá samninga, sem við gerum, svo framarlega sem það er mögulegt. Og stjórnarliðar geta ekki ætlazt til þess, að við greiðum atkv. með því, geta ekki ætlazt til þess. Það er þeirra mál, hvort þeir knýja þetta fram og standa þar með ekki við þá samninga, sem þeir vildu samþykkja á s. l. vori. Það hefur ekkert sérstakt komið fyrir, það er ekkert verðfall á vörum, það er enginn aflabrestur. Það er þeirra mál, og þá hlýtur það að bitna á þeim. Þeir geta ekki búizt við, að við greiðum atkv. með því. Það eru þessir tveir liðir, sem ég get ekki greitt atkv. með. Ég get ekki greitt atkv. með frv. í heild, vegna þessara tveggja liða sérstaklega.

Nú vil ég taka það fram, að ég er með verðstöðvun, ég tel hana nauðsyn. Ég hef verið á móti þessum gengislækkunum, og ég skrifaði grein í Vísi, áður en gengið var fellt 1968, og þar spáði ég því, að skriðan kæmi öll á eftir þeim, og eftir visst tímabil mundu launþegar líklega ná sinni kauphækkun. Þá stæðum við aðeins gagnvart því, að krónan væri orðin helmingi minni en hún var. Nú þarf t. d. helmingi fleiri krónur til þess að kaupa skip en var. Þetta eykur rekstrarfjárskort og erfiðleika, og svo er búið að eyðileggja traustið á krónunni, og ef karlmennska hefði verið til, þá þurfti enga gengislækkun að gera 1968, en það varð að lækka ríkisútgjöldin, og það var þá alveg eins gott að fara hreinlega til launþeganna, segja þeim sannleikann og lækka kaupið með lögum, það er betra en að lækka það með prettum, eins og gert er, þegar gengi er fellt. En núv. ríkisstj. er orðin svo vön gengislækkunum, að þetta er eins og höfrungahlaup fyrir henni, það er bara stokkið. Svo koma þeir niður á fæturna. Þetta er orðið eins og íþrótt. Æfingin er orðin svo mikil og allt er tilbúið, og allt á að vera í góðu lagi. En svo eftir dálítinn tíma er allt komið í sama öngþveitið.

Ég talaði við einhvern mesta íhaldsmanninn í Austur-Húnavatnssýslu, þegar kaupsamningarnir voru gerðir í vor, einhvern mesta sparsemdarmanninn, einhvern mesta peningamanninn. Hann sagði: „Það er ekki til neins annað en eyða peningunum. Það endurtekur sig bara sama sagan.“ Þetta þýðir, að traustið á peningunum er horfið.

Ég er með verðstöðvun, ef hún er framkvæmd skynsamlega, og það er hálfaumingjalegt í góðæri, eins og nú er, að vera í vandræðum að leysa hlutina. Það hlýtur að vera eitthvað að. Það vantar kjarkinn til að gera það, sem þarf að gera. En spurningin er: Ef við stöðvum án þess að taka þessi 2 vísitölustig, sem á að snuða launþegana um, hvað eigum við þá að gera? Ég vil hreinlega, að ríkissjóður borgi þessi 2 stig. Og ef eigi er nægilegt fé fyrir hendi í ríkissjóði til að gera það, þá á bara að lækka fjárl., þá á að lækka útgjöldin. Það þarf bara karlmennsku til þess. Það er hver stofnun full af launamönnum, og sumar stofnanirnar má leggja niður, og öðrum má fækka í. Það má reka þjóðarbúskapinn af meiri hagsýni en gert er. Vitanlega er þetta dálítið erfitt fyrir kosningar. Þó að þið létuð það þá dragast fram yfir kosningarnar og þrifuð þá almennilega til í flórnum, en fengjuð lán hjá Seðlabankanum á meðan. Ríkið á hann. Það eru alltaf nógir peningar, þegar stjórnin þarf á þeim að halda. En það á að reka ríkisbúskapinn af meiri hagsýni. Ég held, að þjóðfélagið mundi varla riða mikið til, þó að prófessorunum væri fækkað, sem hæstv. menntmrh. er búinn að fjölga ótrúlega eða allt þetta skólakerfisbákn. Ég las það einhvers staðar, að það ætti að fara að gera þær kröfur til Kennaraskólans, að stúdentspróf væri skilyrði fyrir inngöngu. Í sannleika sagt eru stúdentar ekkert betri barnakennarar en venjulegir menn. Við höfum haft í minni sveit barnakennara, sem hefur aldrei á kennaraskóla farið, bezti barnakennari, sem við höfum haft. Með þessum reglum og réttindum, sem þessar stéttir hafa, þá er hann rekinn úr starfi. Þannig er það í okkar þjóðfélagi. Það er ekki nóg að sitja í skólum í 10–20 ár og verða svo orðinn svo uppgefinn og latur að nenna ekkert að kenna, eins og er um marga kennara við skólana, nenna ekkert að kenna og nemendurnir læra litið hjá þeim.

Það er ekki hægt að neita því, að ríkisstj. var þessum samningum samþykk s. l. vor, sem gerðir voru við launafólkið. Það á að standa við gerða samninga. Vilji stjórnin stöðva þetta verðlag í landinu, sem nauðsynlegt er, þá eiga þeir að greiða þessi 2 stig úr ríkissjóði í bili, og búa betur og skynsamlegar. Það var launaskerðing 1968, og það áttu allir að spara, en ríkissjóður mátti ekkert spara. Það mátti ekki þrífa til í neinu húsi. Ég er enn það töluglöggur, þó að ég sé farinn að eldast og ekki eins fljótur að reikna og ég var, en það væri velkomið, að ég ynni kauplaust í 1 eða 2 mánuði fyrir hæstv. ríkisstj., og ég skyldi finna ótal liði, sem hún gæti lækkað fjárl. á, og ég skyldi gera þetta fyrir ekki neitt, ef hún bara þyrði að framkvæma það á eftir. En ég get ekki verið að leggja fram brtt. hér um lækkanir, sem ég veit fyrirfram að verða felldar. Það eru nógar leiðir til. Góðir búmenn geta alltaf búið, en búskussar geta aldrei lifað.