10.03.1971
Neðri deild: 59. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

13. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir, er flutt til staðfestingar á brbl. nr. 73 frá 1. júní 1970, en með þeim brbl. var útflutningsgjald af freðfiskflökum og öðrum afurðum samkv. 1. tölul. 2. gr. hækkað úr 1360 kr. í 1500 kr. á tonn. Þá var gjald samkv. 2. tölul. hækkað úr 3% í 4% af fob-verði frá 1. jan. 1971, og frá sama tíma var heimilað að draga frá fob-verðmæti saltsíldar vegna umbúðakostnaðar kr. 300 fyrir hver 100 kg innihalds. Með þessu frv., eins og það lá upphaflega fyrir hv. Ed., var gert ráð fyrir þeirri breytingu frá brbl. og áður gildandi ákvæðum, að útflutningsgjald af óverkuðum saltfiski lækki og verði magngjald eins og af freðfiski í stað 7% gjalds af fob-verðmæti. Jafnframt hækki magngjald úr 1500 kr. í 1900 kr. á lest. Talið er, að með þessari breytingu ættu útflutningsgjöldin í heild að hækka lítillega að krónutölu, en þó um mun lægra hlutfall en nemur hækkun á verðlagi afurða.

Þegar útflutningsgjöld voru ákveðin með l. nr. 79 31. des. 1968, að afstaðinni gengisbreytingu, var höfð hliðsjón af því, að saltfiskframleiðsla var talin búa við hagstæðari rekstrarskilyrði en freðfiskvinnsla. Á þeim grundvelli var útflutningsgjald af saltfiski ákveðið mun hærra en gjald af freðfiski. Þessi munur er ekki talinn vera fyrir hendi nú og því eðlilegt að jafna gjöldin.

Önnur breyting frá brbl. og fyrri ákvæðum er sú, að útflutningsgjald af söltuðum grásleppuhrognum verður nú 6% af fob-verði. Hækkar það um 1.7% miðað við 1500 kr. á tonn í magngjald áður. Útflutningsgjöld af grásleppuhrognum hafa verið lág miðað við útgjöld Tryggingasjóðs vegna báta, sem stunda grásleppuveiðar, en auk þess er breytingunni ætlað að stuðla að frekari vinnslu hrognanna innanlands, þ. e. a. s. niðurlagningu. Sú atvinnugrein er talin geta átt mikla framtíð, en á við að etja harða samkeppni af hálfu erlendra aðila, sem vinna úr íslenzku hráefni.

Ég vil enn fremur geta þess, til viðbótar við það, sem ég hef nú rakið, að í meðferð hv. Ed. á þessu máli var gerð sú breyting, að saltsíld, sem áður hafði verið í 8% gjaldflokki, var færð í 6% gjaldflokk, og í stað þess, að áður hafði verið gert ráð fyrir, að draga mætti frá vegna umbúðakostnaðar saltsíldar 300 kr. á tunnu, var sú tala í meðförum Ed. hækkuð í 500 kr. á tunnu. Ég vil enn fremur leyfa mér að rifja upp, hvernig gjald, sem á er lagt samkv. þessum l., skiptist eða til hvaða þarfa útvegsins það rennur. Í fyrsta lagi fara til greiðslu á vátryggingariðgjöldum fiskiskipa samkv. reglum, sem sjútvrh. setur, 80%. Í öðru lagi til Fiskveiðasjóðs 12.7%. Í þriðja lagi til Fiskimálasjóðs 3.5%. Í fjórða lagi til byggingar haf- og fiskirannsóknarskips 2%. Í fimmta lagi til bygginga Rannsóknastofnunar sjávarútvegsins 0.8%, og í sjötta lagi til Landssambands ísl. útvegsmanna 0.5% og í sjöunda lagi til samtaka sjómanna samkv. reglum, sem sjútvrn. setur, 5%. Það er á þessari upptalningu auðsætt, að þetta gjald er með nokkuð sérstökum hætti. Meginpartur af því, eða þau 80%, sem renna til þess að greiða tryggingagjöld fiskiskipa, eru á lögð samkv. óskum frá útvegsmönnum, sem hafa viljað hafa þann hátt á greiðslu tryggingagjalda af fiskiskipum, að gjald til þess að standa undir þeim væri tekið sem útflutningsgjald. Að öðru leyti sést af upptalningunni, að allt, sem þetta gjald gefur, rennur í einu eða öðru formi til þarfa sjávarútvegsins sjálfs.

Herra forseti. Sjútvn. hefur kynnt sér þetta frv. og orðið sammála um að mæla með samþykkt þess, en einstakir nm. hafa þó áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. Ég vil láta það koma fram, að vegna þess, hve stór hluti af gjaldi þessu rennur til Tryggingasjóðs fiskiskipa, fékk n. á sinn fund forstjóra sjóðsins, Jón Erling Þorláksson, og fékk hjá honum upplýsingar um stöðu sjóðsins. Þær upplýsingar sýna, að á s. l. ári hafa tekjur og gjöld sjóðsins í fyrsta skipti staðizt á, eða því sem næst. En þegar rakið er aftur til ársins 1966, byrjaði þessi sjóður á þann veg, að tekjur hans voru um 6 mánuðum á eftir gjöldunum, og sá hali hefur að staðaldri haldizt hjá sjóðnum og heldur farið vaxandi. Samkv. því, sem forstjóri sjóðsins upplýsti sjútvn. um, svarar þessi hali nú til 7 mánaða mismunar tekna og gjalda. Ástæðan til þess að brbl., sem vitnað var til hér áðan, voru sett, er einmitt sú, að það þótti ástæða til að gera ráðstafanir til að bæta nokkuð hag þessa sjóðs. Ég vil geta þess út af framkominni brtt. frá hv. 4. þm. Austf., að það hefur verið nokkuð til umr. hjá sjútvn. að undanþiggja niðursoðnar og niðurlagðar vörur algerlega þessu gjaldi. Á móti því mælir sú röksemd, þótt menn séu í sjálfu sér hlynntir því að stuðla að eflingu þess iðnaðar, að þetta gjald er, eins og ég áðan sagði, á lagt til þess að standa fyrst og fremst undir greiðslu á tryggingagjöldum fiskiskipa. Þess vegna mætti segja, ef einhver ein grein sjávarútvegsins væri algerlega undanþegin gjaldinu, að þá greiddu þeir bátar, sem veiða fyrir þá framleiðslugrein, engin tryggingagjöld. Ég hef þess vegna fyrir mitt leyti ekki viljað taka undir þessa tillögu, en það stendur þannig á, að sjútvn. hefur til meðferðar annað frv., þ. e. frv. um Aflatryggingasjóð, þar sem gert er ráð fyrir tvenns konar útflutningsgjaldi. Það er í fyrsta lagi 1.4% útflutningsgjald á fob-verðmæti sjávarafurða, sem rennur í Aflatryggingasjóð sjálfan, og í öðru lagi 1.5% útflutningsgjald, sem rennur í svokallaða áhafnadeild Aflatryggingasjóðs. En segja má, að áhafnadeildin sé svipað fyrirbrigði eins og tryggingasjóðurinn. Þar er um það að ræða, að teknar eru af útveginum í heild miklar upphæðir til þess að standa undir ákveðnum hlutum, þ. e. a. s. fæðiskostnaði sjómanna, eða þeim hluta af fæðiskostnaði, sem útvegsmenn hafa skuldbundið sig til að greiða. Ég hef í sambandi við þessi tvenn gjöld gert á því athugun, að það geti komið til greina hvað þau snertir að taka tillit til niðursuðu og niðurlagningar þannig, að álagningu gagnvart þeirri starfsemi verði hagað þannig, að gjöldin til Aflatryggingasjóðs og áhafnadeildar verði ekki hærri en svarar því magngjaldi, sem greitt er til Tryggingasjóðs fiskiskipa og þeirra annarra aðila, sem þess gjalds eru aðnjótandi. Það er mun vægara gjald en prósentugjöldin til Aflatryggingasjóðs og áhafnadeildar, sem samanlagt nema 23/4 úr prósentu. Með tilliti til þessa treysti ég mér ekki fyrir mitt leyti til þess að mæla með fram kominni brtt. hv. 4. þm. Austf., en ég mun, eins og ég hef þegar sagt, taka þetta mál upp í sambandi við Aflatryggingasjóð og áhafnadeildina.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, fyrir hönd sjútvn. að mæla með samþykkt frv.