25.02.1971
Efri deild: 54. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (700)

155. mál, Útflutningsmiðstöð iðnaðarins

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um Útflutningsmiðstöð iðnaðarins hefur nú hlotið afgreiðslu í Nd., og það hefur verið mjög ánægjulegt, að það hefur verið góð samstaða um afgreiðslu málsins. Ég tel ekki, að ég þurfi að hafa mörg orð um frv. hér og sízt af öllu að endurtaka það, sem er í grg., þar sem gerð er nákvæmlega grein fyrir því, sem á undanförnum árum hefur verið að því unnið að efla hér útflutningsiðnað og aðstöðu til útflutningsiðnaðar og hafa nokkur mið af fyrirkomulagi nágrannaþjóða okkar í því sambandi. Og það var einmitt í framhaldi af slíkri viðleitni iðnrn. í samráði við iðnþróunarráðið og samtök, sem að því standa, að nokkrir menn voru fengnir til þess að gera uppköst að því frv., sem hér liggur fyrir, þeir, sem taldir eru í grg. og eru frá iðnrekendum, Sambandi ísl. samvinnufélaga og rn., sem mundu aðallega eiga hér hlut að máli, utanrrn., viðskrn. og iðnrn.

Megintilgangurinn er að koma upp útflutningsmiðstöð, eins og segir þar í 1. gr., og síðan er í 3. gr. tíundað hlutverk þessarar útflutningsmiðstöðvar. Það er að verulegu leyti, má segja, í líkingu við það, sem tíðkast bæði hjá Dönum og Norðmönnum, og segja má, að það sé framhald einnig af tilraunum iðnrekenda með sína útflutningsskrifstofu, sem studd hefur verið af opinberu fé nú 2–3 síðustu árin og hefur, að ég hygg, gefið góða raun. En hér er um víðtækari starfsemi að ræða og almennari samvinnu á milli aðila, bæði Félags ísl. iðnrekenda og Sambands ísl. samvinnufélaga í þessari samvinnu við rn., sem þarna er gert ráð fyrir. Það er gert ráð fyrir því í 5. gr., að kostnaður af rekstri Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins skuli greiðast fyrst um sinn af árlegri fjárveitingu ríkissjóðs og framlagi annarra stofnenda. Ég get sagt, að í aðalatriðum er hugsunin á bak við þetta sú, að við höfum verið yfirleitt sammála um það, að fyrst í stað þurfi að gefa slíkri stofnun nokkra uppbyggingu frá opinberri hálfu til þess að komast í ganginn, en það er, held ég, sameiginlegt álit okkar allra, sem unnið höfum að þessum málum og tilgreindir eru í grg., að síðar beri að stefna að því, að hún sem sjálfstæð stofnun geti borið sinn kostnað af þjónustugjöldum, sem til hennar eru greidd, og þá e. t. v. af útflutningsgjöldum frá iðnaðinum, þegar hann væri orðinn einhvers megnugur.

Þetta eru, að ég hygg, meginatriðin í þessum málum og það hafa reyndar komið fram till. frá þm. úr öðrum flokkum um einhverja svipaða eflingu eða stuðning við iðnaðinn eins og uppbyggingu útflutningsmiðstöðvar og ég leyfi mér þess vegna að vænta þess, að um þetta verði lítill ágreiningur eða enginn helzt hér í þessari d. Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta, en vænti þess, að hv. iðnn., sem ég legg til, að málið fari til, reyni eftir föngum að hraða afgreiðslu þess, þar sem verulega er liðið á þingtímann, og leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að málinu verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr.