12.11.1970
Neðri deild: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

101. mál, atvinnuöryggi

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. gat þess áðan og endurtók það, sem bæði hann og viðskmrh. hafa áður sagt, að það verði ekki skertur kaupmáttur launanna með þessum ráðstöfunum. Mér finnst þetta mjög merkileg tíðindi og ekkert hégómamál, ef þetta er svona í raun og veru, þó að þurrkuð verði út 3 vísitölustig kaupgjaldsvísitölunnar, bótalaust fyrir launþega, þá verði samt ekki skertur kaupmáttur launanna. Og ef svo er, þá þykir mér merkilegt, að hæstv. ríkisstj. í allri þessari verðbólgu á undanförnum 10 árum skuli aldrei hafa gripið til þessa „þjóðráðs“ fyrr. En ég vil spyrja hæstv. ráðh. og ætla ekki að lengja þessar umr. að öðru leyti: Verður þá sami kaupmáttur launanna 1. des. eins og hann var 1. sept.? Hér gagnar ekkert að miða við maí, því að þá var ekki búið að semja um kaup. Ég skal endurtaka spurninguna: Verður sami kaupmáttur launanna 1. des. eins og 1. sept.?