03.03.1971
Efri deild: 56. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (715)

38. mál, alþjóðasamningur um stjórnmálasamband

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Á 14. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1959 var ákveðið að kveðja saman alþjóðaráðstefnu í Vínarborg til að fjalla um reglur þjóðréttarins um stjórnmálasamband ríkja. Áður höfðu Sameinuðu þjóðirnar árið 1952 samþykkt ályktun um að fela þjóðréttarnefnd samtakanna að skrásetja reglur þjóðréttarins um stjórnmálasamband ríkja. N. gekk frá frumdrögum að samningi og sendi þau út til aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna. Þessi fundur eða alþjóðaráðstefna, sem haldin var í Vínarborg dagana 2. marz til 14. apríl 1961, samdi uppkast fyrst og síðan ákveðnar tillögur um þetta mál og var það samþykkt svo að segja í einu hljóði, og það er það frv., sem hér liggur fyrir til lögfestingar. Á þessari ráðstefnu í Vínarborg sátu fulltrúar frá 81 ríki og voru, eins og ég sagði, nokkurn veginn sammála um, hvað í þessum samningi skyldi felast. Samningurinn ásamt tveimur bókunum, sem honum fylgdu, gekk í gildi 24. apríl 1964, þegar 22 ríki höfðu gerzt aðilar. 92 ríki eru nú aðilar að samningnum. Þessi samningur er allítarlegur og fjallar aðallega um fulltrúa erlendra ríkja utan síns heimalands hjá þeim þjóðum, sem stjórnmálasamband hafa tekið upp. Samningurinn er prentaður hér bæði á íslenzku og ensku og ég tel ekki ástæðu til að fara að rekja hann gr. fyrir gr., því að í þessu fskj. er samningurinn prentaður og hann er mjög ítarlegur og þarf ekki frekari skýringa við. Hann skýrir sig að öllu leyti sjálfur, í fyrsta lagi um það, hvernig stofnað er til stjórnmálasambands á milli ríkja, hver verkefni sendiráðanna skulu vera, hvaða réttindi sendiráðsmenn hafa, hvaða skyldur þeir þurfa að uppfylla og annað þess háttar. Um friðhelgi sendiráðsmanna eru líka æðimargar greinar, og því er lýst, í hverju sú friðhelgi sé fólgin og með hvaða undantekningum. Eins og ég segi, ég sé ekki ástæðu til þess að rekja gr. Þær skýra sig algerlega sjálfar. Ég tel, að það sé æskilegt fyrir Ísland að verða aðili að samningnum og legg eindregið til, að það verði gert. En að lokinni þessari umr. vildi ég leggja til, að málinu yrði vísað til hv. allshn. og 2. umr.