12.11.1970
Neðri deild: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

101. mál, atvinnuöryggi

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Það er öllum kunnugt, að verkalýðshreyfingin hefur út af fyrir sig ekki keppt að því að fá svo og svo margar krónur í tímakaup, mánaðarkaup eða annað kaup fyrir sitt félagsfólk, ef þau verðmæti, sem við fengjum fyrir þetta kaup, verða ekki að sama skapi meiri. Kaupmátturinn er að sjálfsögðu höfuðatriðið. Það er aldeilis rétt, sem hæstv. forsrh. hér tók fram áðan. Um þetta getum við sjálfsagt verið sammála. En það er í rauninni aldeilis þýðingarlaust fyrir menn að vera að ræða saman, þegar annar segir, að með þessu frv. fylgi óbein kjarabót, en hinn segir, að það sé kjaraskerðing. Ég held, að það sé augljóst, að hér verður hvor að hafa sitt. Það þýða held ég ekki öllu meiri rökræður um málið. Sú spurning, sem borin var fram af hv. síðasta ræðumanni, er ákaflega eðlileg og fróðlegt verður að fá svar við henni, sannarlega fróðlegt.

Hæstv. forsrh. segir, að allar mótmælaályktanir gegn þessu frv. séu byggðar á misskilningi á efni frv. Ég held, að það sé engan veginn rétt, jafnvel þótt hæstv. ráðh. hafi þessa skoðun, að þeir menn, sem fjallað hafa um þetta frv. og staðið að mótmælasamþykktum, lesi frv. svona rangt. Þau efnisatriði, sem við höfum mótmælt, eru tekin upp svo til orðrétt úr frv., og það eru þau, sem við erum að mótmæla. Þar er málið ekki afflutt, ekki nokkurn hlut, og á grundvelli afstöðu til þessara efnisatriða eru mótmælin mörkuð. Og það liggur fyrir nú, að æðsta stjórn verkalýðssamtakanna á Íslandi hefur markað stefnu sína í þessum efnum og telur, að með samþykkt þessa frv. séu úr gildi forsendur þeirra samninga, sem síðast voru gerðir, og að verkalýðsfélögin séu ekki bundin af kaupgjaldsákvæðum þeirra. Menn geta velt vöngum yfir því, hvort þetta sé löglega hægt eða ekki. Menn geta hlaupið í hin og þessi skjól. En ef þetta verður almenn skoðun verkalýðshreyfingarinnar í landinu, þá duga slík skjól ekki neitt, ekki nokkurn skapaðan hlut. Hér verður aldrei neitt að lögum í þessu landi, sem brýtur algerlega í bága við siðferðisvitund almennings í landinu. Það er það, sem úr sker.

Það er aldeilis rétt hjá hæstv. forsrh., að kaupmáttur launanna þarf ekki að verða meiri, þótt kaupið hækki frá 26.5 og upp í 40%, vegna þess að alveg eins í framhaldinu og hingað til er það verðlagið, sem er orsökin, það er verðlagið sjálft, sem er orsökin. Ef verðlagið verður látið fara þetta gönuskeið áfram, þá fáum við ekkert meira fyrir kaupið, sem við fáum í hendur, fáum ekki meira vörumagn. Út af fyrir sig eru allir sammála um það, að þessa óheillaþróun þurfi að stöðva. Um það höfum við Alþb.-menn a. m. k. flutt till. En spurningin er, hvernig eigi að gera það. Og um það erum við a. m. k. ekki sammála núna, og ef haldið verður áfram á þeirri braut, sem mörkuð er með þessu frv., þá þurfa menn ekki að halda, að málinu sé lokið. Ekki ætla ég að fara að nefna hér neinar dagsetningar, en það er áreiðanlega ekkert betra að vera í þeirri óvissu um öll samningamál í landinu varðandi kaupgjaldsatriðin, sem hlýtur að skapast, ef þetta frv. verður samþ. óbreytt, eins og það liggur nú fyrir, heldur en hitt.

Ég verð nú að taka undir orð hv. þm. hér í dag. Þessi 2 stig eru í raun og veru svo lítill hlutur til þess að koma slíkum ófriði af stað, en þetta er miklu meira, kannske prinsippmál, það er ekki neinum ósköpum, sem munar í fjármunum. En ef verkalýðshreyfingin lætur á þennan hátt troða ávallt á rétti sínum, þá geta menn ósköp vel séð, hvar það endar og það ætlar hún ekki að gera. Þess vegna er það ekki hollt ástand fyrir efnahagslífið í landinu eða þróun efnahagsmálanna yfirleitt, að annar aðilinn á vinnumarkaðinum sitji um tækifæri, fullur hefndarhugar, að ná fram hefndum, það er ekki hollt ástand.