28.01.1971
Neðri deild: 40. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

187. mál, Hótel- og veitingaskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Lög þau, sem gilda um Matsveina- og veitingaþjónaskólann, eru frá árinu 1947 með smávægilegum breytingum, sem gerðar voru á árinu 1952. Frá því að lögin voru sett, hefur mikil breyting orðið á því sviði, sem skólanum er ætlað að þjóna. Hótelrekstur hefur orðið stóraukin atvinnugrein hér á landi vegna vaxandi þjónustu við erlenda ferðamenn, og í ljós hefur komið, að mikill skortur er á nægilega vel menntuðu eða nægilega sérmenntuðu fólki í hinum ýmsu greinum hótel- og veitingastarfseminnar. Með hliðsjón af þessu þótti orðið tímabært að endurskoða lögin um Matsveina- og veitingaþjónaskólann og fyrst og fremst í því skyni að gera hann að alhliða hótelskóla, gera hann að menntunarstofnun eða skólastofnun, sem mennti menn til starfa í þágu hótelmála og ferðamála.

Þess vegna varð það úr, að menntmrn. skipaði nefnd 4. maí 1970 til þess að endurskoða löggjöfina um skólann og færa hana í það horf, m. ö. o. stækka hlutverk skólans og breikka grundvöll hans. Í nefndina voru skipaðir Tryggvi Þorfinnsson, skólastjóri Matsveina- og veitingaþjónaskólans, Tryggvi Jónsson, sem tilnefndur var af Félagi matreiðslumanna, Jón Maríasson, sem tilnefndur var af Félagi framreiðslumanna, Sigurjón Ragnarsson, sem tilnefndur var af Sambandi veitinga- og gistihúsaeigenda, Óskar Hallgrímsson, formaður iðnfræðsluráðs, og Runólfur Þórarinsson, fulltrúi í menntmrn., sem jafnframt var formaður nefndarinnar.

Þetta frv. er samið af þessari n. og var hún einhuga um, að skólanum skyldi fengið það verkefni, sem honum er fengið í þessu frv., en auk þess, að skólinn mun fá, ef honum verður breytt samkvæmt þessu frv., þá aðstöðu, að hann geti veitt fræðslu öllu því starfsfólki, sem innir af hendi ýmiss konar þjónustustörf í hótel- og veitingastarfsemi, þar á meðal á farþegaskipum, í flugvélum, og enn fremur matráðskonum. Auk þess er það nýmæli í frv., að starfrækt verði framhaldsdeild, þ. e. meistaraskóli, fyrir framreiðslu- og matreiðslumenn, en til slíks er ekki heimild í núgildandi lögum. Enn fremur er gert ráð fyrir að heimila skólanum með samþykki menntmrn. að veita fræðslu í skyldum greinum matvælaiðnaðar, svo sem brauð- og kökugerð og kjötiðnaði, og væri bót að því að fá þessa heimild. Enn fremur er gert ráð fyrir heimild til handa ráðh. til að ákveða, að skólinn starfræki veitingahús, eða jafnvel hótel af hæfilegri stærð. Hér er auðvitað um kostnaðarsamt fyrirtæki að ræða, en það væri skóla sem þessum ómetanlegt að hafa aðstöðu í eigin veitingahúsi eða eigin hóteli til verklegrar kennslu. Er það því tvímælalaust til bóta, að slík heimild sé fyrir hendi.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.

Á 41. fundi í Nd., 1. febr., var fram aldið 1. umr. um frv.