03.03.1971
Neðri deild: 55. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

187. mál, Hótel- og veitingaskóli Íslands

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Á nokkrum s. l. árum hefur orðið mikil aukning á hvers konar gisti- og veitingahúsastarfsemi hér á landi. Stendur þetta að verulegu leyti í sambandi við stóraukinn ferðamannastraum, og er nú flutningur ferðamanna og þjónusta við þá, þ. á m. hin vaxandi hótel- og veitingaþjónastarfsemi, orðin veigamikil atvinnugrein og gjaldeyristekjustofn hér á landi. Undanfarin ár hafa verið reist mörg stór og glæsileg gistihús, svo og mörg minni gistihús og veitingahús víðs vegar um landið, og hafa hundruð manna fengið þar atvinnu. Þessi uppbygging mun hafa tekizt mjög vel, m. a. hefur verið til íslenzkt starfslið menntað til þess að taka við flestum eða öllum störfum á þessu sviði. Ég tel, að þakka megi Matsveina- og veitingaþjónaskólanum að svo hefur verið. Starf hans undanfarin ár hefur leitt til þess, að við vorum við því búnir að auka hótel- og veitingastarfsemi svo ört sem raun ber vitni nú undanfarin ár.

Lög um Matsveina- og veitingaþjónaskólann voru samþykkt á Alþ. árið 1947. Það var þó ekki fyrr en 1949, sem skipuð var fyrsta skólanefnd, og ekki fyrr en 1. nóv. 1955, sem skólinn var settur í fyrsta skipti. Má segja, að það hafi markað tímamót í sögu iðnfræðslu hér á landi, því að Matsveina- og veitingaþjónaskólinn var fyrsti sériðnskólinn, sem stofnaður var í landinu. Á fyrstu árum skólans sóttu hann mjög fáir nemendur, en s. l. 10 ár hefur þetta gerbreytzt, nemendum hefur fjölgað ört og hann hefur menntað og brautskráð mikinn hluta þess fólks, sem stýrir hinum nýju gisti- og veitingahúsum í landinu. Á þessum árum hefur skólinn brautskráð 123 matreiðslumenn, 127 framreiðslumenn, 82 matsveina fyrir fiski- og flutningaskip. Þá hafa verið haldin í skólanum námskeið fyrir framreiðslustúlkur s. l. 3 ár, og hafa 42 þeirra lokið slíkum námskeiðum. Skólinn starfar nú í 3 deildum, matreiðsludeild til sveinsprófs, framreiðsludeild til sveinsprófs og námskeiðsdeild. Nemendur til sveinsprófs sækja skólann þrisvar sinnum í fjóra mánuði. Námskeið fyrir matsveina á fiski- og flutningaskipum standa í 8 mánuði. Námskeið fyrir framreiðslustúlkur standa í 8 vikur. Nú starfa við þennan skóla 3 fastakennarar og 7 stundakennarar. Á núlíðandi kennslutímabili skólans, frá 1. jan. til 30. apríl í ár, eru í 1. bekk 27 nemendur, í 2. bekk 7 nemendur, í 3. bekk 30 nemendur, en á námskeiði fyrir fiskiskipamatsveina eru 24 nemendur.

Ég tel því, að rík ástæða hafi verið til þess að semja og flytja frv. til nýrra laga fyrir þennan skóla, þar sem starfssvið hans er nokkuð fært út og honum ætluð betri aðstaða en hann hefur haft til þessa. Hann hefur verið til húsa í Sjómannaskólanum og búið við mjög þröngan kost, auk þess sem hann hefur þrengt að öðrum skólum, sem eru í því húsi. Nú er verið að koma þessum skóla fyrir í Hótel Esju, og vænti ég, að hann muni fá þar mun betri aðstöðu.

Ég mun ekki rekja frv., sem fyrir liggur, ítarlega, það hefur þegar verið gert við 1. umr., en vil aðeins geta þess á ný, að það gerir ráð fyrir því að auka starfssvið skólans, styrkja og bæta aðstöðu hans á allan hátt. Ég vil þó leyfa mér að taka eitt atriði út úr, 3. gr., um hlutverk skólans, og benda mönnum á það sérstaklega. Þegar talað er um hótel- og veitingaskóla, hafa menn gjarnan í huga hin miklu gistihús fyrir erlenda ferðamenn, en muna þó eftir því, að þarna eru líka menntaðir matsveinar og brytar fyrir fiski- og farskip okkar. En í 6. lið stendur þessi setning: „Enn fremur er skólanum heimilt að starfrækja deild eða efna til námskeiða fyrir matráðskonur.“ Ég veit ekki, hvort menn gera sér ljóst, hversu atvinnuhættir hafa breytzt í þéttbýli á Íslandi og hversu mörg þúsund manns það eru, sem nú fara ekki eða geta ekki farið heim til sín til hádegisverðar, heldur borða á vinnustað, og matstofur hinna stærri fyrirtækja eða hinna stærri bygginga hér í Reykjavík eru orðnar fyrirferðarmikill og mjög mikilvægur atvinnurekstur. Þeir, sem standa fyrir opinberum stofnunum og stórum einkastofnunum, munu vafalaust gera sér þetta ljóst, og ég vil benda á, að það skiptir miklu máli fyrir líðan og aðstöðu starfsfólksins og þar með vinnu í fyrirtækinu, að þessi starfsemi takist vel. Ég tel því vera mikilvægt, að gert skuli vera ráð fyrir því að mennta ekki aðeins fólk til þess að þjóna hinum gjaldeyrisgefandi erlendu ferðamönnum, heldur einnig til þess að rekstur á matstofum og kaffistofum fyrir vinnandi fólk hér á landi geti orðið sem beztur í framtíðinni og til verði fólk, sem sé til þess menntað að annast þau störf. Í þessu sambandi sakar ekki að skjóta því inn, að einn stærsti markaðurinn fyrir íslenzkan fisk, t. d. í Bandaríkjunum, er ekki á kvöldverðarborðum heimilanna, heldur einmitt í matstofum fyrirtækja og kannske alveg sérstaklega í matstofum skólanna. Það eru hinir stóru kaupendur, sem kaupa fiskblokkirnar íslenzku og nota þær.

Ég mun ekki hafa fleiri orð um þetta frv., herra forseti. Menntmn. hefur fjallað um það og leitað álits frá þeim, sem hún taldi að ættu hlut að máli. Álitsgerðir hafa undantekningalaust verið mjög jákvæðar. Ein eða tvær till. frá Félagi bryta, sem að öðru leyti mælti með frv., eru þess eðlis, að það má ýmist verða við þeim með reglugerð eða ekki var talin ástæða til þess að taka þær upp, t. d. að fjölga í skólanefnd skólans.

Herra forseti. Menntmn. leggur til, að þetta frv. verði samþ.