12.11.1970
Neðri deild: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

101. mál, atvinnuöryggi

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er nú sérstaklega út af orðum hv. síðasta ræðumanns, að ég kveð mér hljóðs við þessa umr., kannske sérstaklega vegna þess, að mín er sérstök ánægjan, að siðferðisvitund hans hefur vaxið svo á 14 árum, sem kemur í ljós í orðum hans, þegar hann og reyndar fleiri hv. þm. telja, að með þessari löggjöf sé verið að ráðast þannig gagnvart verkalýðshreyfingunni, að ekki aðeins hafi aldrei slíkt áður verið gert, heldur sé það slíkt víti, að til varnaðar megi verða, og herör skuli upp skorin samkvæmt ósk þeirra, sem að þessum samþykktum hafa staðið, sem birtar hafa verið.

Það hefur nokkuð verið minnzt á árið 1956. Þessi hv. síðasti ræðumaður hefur m. a. gefið ákaflega glögga og rétta skýringu á því, sem þar fór fram, en hann auðvitað gleymdi því, sem auðvitað er grundvallaratriði, var grundvallaratriði þá og er nú, og það er, að samningsrétturinn er hjá hverju einu stéttarfélagi í þessu landi. Árið 1956 hafði skapazt pólitísk samstaða innan svokallaðs Alþb., meðal allra forystumanna verkalýðsins hér á landi. Það var kallað til þeirra, en ekki til stéttarfélaganna sjálfra eða almennra funda, sem hafa með samningsréttinn að gera, til þess að samþykkja það, sem vinstri stjórnin lét gera í sambandi við frestun vísitölunnar og loforð um greiðslu síðar, sem reyndar var svikið. Og ég get vel skilið þá menn, sem studdu þá stjórn á sínum tíma, að þeir óttist það, að núv. ríkisstj. muni ekki standa við greiðslu þeirra 2 vísitölustiga, sem nú er talað um að fresta fram á næsta ár, að þau muni ekki verða greidd þá, vegna þess að þeir hafa fordæmi fyrir sér í þeim svikum, sem þá urðu í sambandi við vísitölustigin frá 1956.

Ég held, að það sé rétt, sem kom fram hjá síðasta ræðumanni og reyndar hefur verið margundirstrikað af hæstv. forsrh., að auðvitað er það kaupmátturinn, sem er aðalatriðið. Það er ekki nokkur vafi á því. Ef ríkisstj. og sérfræðingar hennar og um leið stuðningsflokkar ríkisstj. hér á Alþ. telja, að þetta sé rétta leiðin, þá auðvitað fylgja þeir þessu frv. eftir. Ég hefði hins vegar persónulega kosið, að það hefði tekizt samkomulag um það við þessi sterku og voldugu samtök, að mátt hefði fá einhverja lausn á þessu viðkvæma og vandasama máli, sem við á margan hátt höfum góð tækifæri til þess að ná í dag. En það var ekki ríkisstj., sem rauf þær viðræður nú fyrir skömmu, heldur voru það aðrir aðilar.

Það er eitt atriði, sem mér hefur ekki þótt koma nægilega fram í þessum umr., og það er tímabilið, sem fram undan er. Ég heyri ekki betur en að hæstv. ráðh. séu búnir að lýsa yfir því, að þeir muni, hvað þeir geta, — reyna að tryggja þennan kaupmátt til launþeganna hér í landi þetta tímabil. Ég fæ ekki betur séð en ef verðhækkanir verða þá, t. d. á neyzluvörum á erlendum markaði, að ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar, meðan þeir fara með völdin í landinu, verði að gera svo vel og gera einhverjar ráðstafanir til þess að halda kaupmættinum þrátt fyrir verðhækkanir, a. m. k. eins og hægt er, halda þeim þannig í skefjum, að kaupmátturinn haldist. Þetta vil ég segja, að komi þarna þó töluvert á móti. Ég skal hins vegar viðurkenna það fúslega, eins og hér hefur verið bent á, að það eru bæði einstaklingar og þeir, sem eru með börn eldri en 16 ára og kannske í skóla, sem fara kannske ekki út úr þessu dæmi á sama hátt og vísitölufjölskyldan með börnum. Hitt tel ég alveg sjálfsagt þá, að þingheimur allur skoði það dæmi við endurskoðun skattalöggjafarinnar, sem fram undan er, og það er vel hægt að gera það þá.

En út af síðustu ræðu hv. 9. þm. Reykv. og reyndar ræðu hv. þm., Lúðvíks Jósefssonar, líka, þá datt mér í hug saga, sem ég heyrði, þegar ég var unglingur, og það var, á meðan hús nokkurt, sem Uppsalir nefndist, stóð hér úti á horni Aðalstrætis og Túngötu. Gamall hafnarverkamaður, sem átti heima á Grímsstaðaholti, hafði fengið sér reiðhjól til þess að flýta fyrir sér, þegar hann fór til vinnu. Hann var einu sinni að fara til vinnu að morgni og kom niður Suðurgötuna. Þá var sælgætisverzlun í kjallara Uppsala. Hann náði ekki beygjunni fyrir Herkastalann og lenti inn um gluggann í sælgætisverzluninni. Þegar hann var að bjástra í brjóstsykurkassanum, þá heyrðist uml frá honum, og hann sagði: „Ekki er ég vel góður enn.“ Ég held, að þessir tveir hv. þm. gætu tekið þetta hvort tveggja í sinn munn og munað sinn fífil fegri, þegar þeir voru ráðh. í vinstristjórninni, þegar hv. 9. þm. Reykv. margendurtekur í ræðum sínum hér, að hér sé aðeins verið að taka af láglaunafólki í sambandi við vísitölustigin. Hann er kannske búinn að gleyma því, að það er ekki aðeins láglaunafólk hér á landi, sem fær kaup sitt greitt með vísitöluálagi, heldur og hátekjumenn. Það er auðvitað hans reikningsdæmi að reikna út, af hvorum sé meira tekið í krónutölu, láglaunamanninum eða hátekjumanninum. Og það mætti þá kannske líka minna hv. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, á það, þegar hann var að berjast gegn verðbólgunni, þegar bæði yfirmenn á farskipum stóðu í verkfalli 1957 og Dagsbrún 1958, þá gaf hann heimild til þess á bak við, að viðsemjendur þessara stéttarfélaga fengju að hækka sína vöru og þjónustu.