17.03.1971
Efri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

187. mál, Hótel- og veitingaskóli Íslands

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Menntmn. hefur haft þetta frv. til meðferðar, og eins og álit n., sem útbýtt hefur verið, ber með sér, mælir n. með því, að frv. verði samþ., en einn nm., hv. 2. þm. Austf., skrifaði þó undir nál. með fyrirvara.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál, en vísa í því efni til grg. fyrir frv., en tel þó rétt að geta þess, að til viðtals við n. komu samkv. eigin ósk tveir fulltrúar frá Félagi bryta og bentu okkur á, að námskeið þau, sem haldin eru samkv. l. nr. 50 frá 1961 og vitnað er til í 4. lið 3. gr. frv., hefðu ekki verið haldin að undanförnu eða miklir erfiðleikar á því að halda slík námskeið vegna lítillar þátttöku. Við skildum það þannig, að í rauninni væri það ósk brytafélagsins, að þessi ákvæði l. frá 1961 væru afnumin, vegna þess að þau hefðu reynzt ekki framkvæmanleg. N. sá sér að vísu ekki fært að verða við óskum um það, enda hefði nokkuð verið í kringum það mál og áliðið þings að fara að gera till. um breytingu á öðrum lögum. En að sjálfsögðu verður að reyna, — og það held ég, að sé sameiginlegt álit n., — að koma til móts við þetta sjónarmið, eftir því sem unnt er. Ég vil jafnframt vekja athygli á því, að n. sú, sem fjallaði um málið í Nd., taldi, að með reglugerð væri hægt að ákveða lægri tölu þátttakenda en l. frá 196l gera ráð fyrir eða hingað til hefur verið gert ráð fyrir, þegar þessi námskeið hafa verið haldin, þannig að sú litla þátttaka, sem verið hefur og engin ástæða er til þess að vefengja það, sem brytafélagið segir um þá hluti, yrði því ekki til fyrirstöðu, að námskeiðin yrðu haldin. Ég held, að mér sé óhætt að segja það fyrir hönd n., að hún tekur undir ábendingar menntmn. Nd. varðandi þetta atriði.

Að öðru leyti hefur þetta frv. fengið allrækilegan undirbúning, eins og fram kemur í grg. fyrir frv., þannig að niðurstaða n. hefur verið sú að mæla með samþykkt þess, án þess að hún sem nefnd a. m. k. flytji við það brtt.