27.01.1971
Efri deild: 41. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

183. mál, Vatnsveita Vestmannaeyja

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Eins og hv. þdm. er öllum kunnugt, þá hafa Vestmanneyingar fyrir nokkrum árum ráðizt í það mikla mannvirki að leiða vatn frá landi til Eyja, og er það langsamlega stærsta vatnsveita, sem ráðizt hefur verið í hérlendis og alveg einsdæmi. Af þessum ástæðum hefur þótt vert að veita Vestmanneyingum aðstoð með ýmsum hætti. Samkvæmt hinum almennu heimildarákvæðum vatnsveitulaga er gert ráð fyrir að veita megi styrk og ábyrgð, er nemi allt að 85% af stofnkostnaði vatnsveitukerfa, og hefur það verið gert í mörgum tilfellum, en þó ekki í sambandi við hin stærri sveitarfélög nema Vestmannaeyjar og Seyðisfjörð, sem einnig lagði í stóra vatnsveituframkvæmd. Á undanförnum árum hefur verið veittur mjög verulegur styrkur árlega til Vatnsveitu Vestmannaeyja með hliðsjón af því, hvað hér er um geysilegt mannvirki að ræða, og sömuleiðis hafa verið veitt sérstök tollfríðindi í sambandi við leiðsluna til Eyja, þar sem telja má ólíklegt, að það skapi sérstöðu neins staðar annars staðar á landinu. Heimildir þær, sem eru í lögum um ríkisábyrgðir, lúta hinum almennu reglum ríkisábyrgðarlaga og þar sem um einfaldar ábyrgðir er að ræða, gat ekki orðið um að ræða að hagnýta þá ábyrgðarheimild í sambandi við það mál, sem nú liggur fyrir hv. d. En frv. það, sem hér er lagt fram, felur í sér, að ríkisstj. verði heimilt að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð á láni að upphæð allt að 60 millj. ísl. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt vegna Vatnsveitu Vestmannaeyja til þess að leggja aðra vatnsleiðslu frá Landeyjasandi til Vestmannaeyja, en það hefur þegar komið í ljós, að brýna nauðsyn ber til að hraða þeim framkvæmdum, því að sú eina vatnsleiðsla, sem nú liggur til Eyja, nægir ekki til að fullnægja þörfum Eyjabúa. Vestmanneyingar eiga kost á að fá lán, svo sem getið er um í grg. með frv., og þar sem, eins og ég sagði, bæði skortir heimild til þess að ábyrgjast lán þetta sem sjálfskuldarábyrgð og enn fremur óvíst, að það fylgi að öllu leyti hvað greiðsluskilmála snertir þeim almennu reglum, sem krafizt er í sambandi við ríkisábyrgðir, þá þykir nauðsynlegt að fá sérstaka lagaheimild í þessu sambandi.

Ég vil taka það fram til frekari skýringar umfram það, sem segir í grg. frv., að það hefur áður verið heimiluð á Alþ. ríkisábyrgð vegna Vatnsveitu Vestmannaeyja, en sú ríkisábyrgð var aldrei hagnýtt, þannig að sú ábyrgð, sem hér er farið fram á, er þá fyrsta ábyrgðin, sem veitt er Vestmanneyingum í þessu skyni. Ég leyfi mér að vænta þess, að hv. þd. geti fallizt á að veita ábyrgðarheimild þessa, þar sem um svo mikilvæga framkvæmd er að ræða og telja má auk þess ótvírætt, að hér sé ekki um áhættuábyrgð að ræða fyrir ríkissjóð. Tel ég ekki þörf á frekari skýringum um málið, en að sjálfsögðu standa hv. fjhn. til boða frekari upplýsingar um heildarkostnað við þetta mannvirki, ef þess verður óskað, þegar málið verður meðhöndlað í n. En vegna þess að það liggur nokkuð á að taka þetta lán, þá mundi ég vilja óska þess, að hv. fjhn. sæi sér fært að hraða frekar afgreiðslu málsins.

Ég leyfi mér svo að leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.