22.03.1971
Efri deild: 71. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

138. mál, iðnfræðsla

Frsm. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Menntmn. hefur haft frv. um iðnfræðslu, 138. mál Nd., til athugunar. Frv. þetta var flutt á síðasta Alþ. og er nú endurflutt með breytingum. Menntmrn. fól iðnfræðslunefnd endurskoðun l. og samningu frv. Menntmn. Nd. hefur svo gert nokkrar breytingar á frv., sem án efa eru til bóta. Aðalefni frv. kveður á um, að einstök sveitarfélög, eitt eða fleiri saman, geti stofnað til iðnskóla skv. 12. gr. iðnfræðslulaganna, með heimild ráðh. En staðreyndin er, að ítrekaðar tilraunir hafa verið gerðar til þess að koma á samstarfi milli sveitarfélaga um stofnun og rekstur skóla í samræmi við lögin. Þessar tilraunir hafa ekki borið tilætlaðan árangur, og hefur ekki náðst samstaða um staðsetningu skólasetra, en með nýju iðnfræðslulögunum frá 1966 var iðnskólum í landinu fækkað úr 22 niður í 10. Persónulega tel ég, að svo mikil fækkun iðnskólanna, sem lögin frá 1966 ákveða, hafi ekki verið sú rétta lausn, enda kemur á daginn með þessari lagabreytingu, sem hér er gerð, að þegar er nauðsynlegt að gera undanþágur frá þeim lögum. Nd. gerði veigamiklar breytingar á þessu lagafrv., m. a. að nemar skuli fá aðild að skólanefnd iðnskólanna. Skv. 1. gr. lagafrv. skal ráðh. skipa 5 manna skólanefnd, þar af einn skv. tilnefningu nemenda og er það algert nýmæli, sem ber að fagna. Skv. 5. gr. er að till. menntmn. Nd. mjög rýmkuð undanþága ákvæðis til sveinsprófs fyrir þá, sem hafa unnið 10 ár eða meira í viðkomandi iðngrein, án iðnskólanáms. Menntmn. mælir samhljóða með þessu frv. og skv. þskj. 605 mælir hún með samþykkt frv. eins og það barst deildinni frá hv. Nd.