18.03.1971
Neðri deild: 64. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

119. mál, Innheimtustofnun sveitarfélaga

Frsm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Frv. þetta til laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga er flutt fyrir tilstilli Sambands ísl. sveitarfélaga og fjallar um það, að sérstakri innheimtustofnun á vegum sveitarfélaga verði falið það verkefni að innheimta meðlög, en sú innheimta hefur gengið mjög erfiðlega eins og komið hefur fram hér í umr. á Alþ. og víðar. Það er gert ráð fyrir því í frv. þessu, að sérstök stofnun, sem hafi heimilisfang í Reykjavík, annist það að innheimta þau meðlög með börnum, sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir samkv. meðlagsúrskurðum eða skilnaðarleyfisbréfum. Einhverjum kann að virðast, að þarna sé á ferðinni algerlega ný stofnun á vegum ríkisins og verða andvígir henni af þeim sökum, en tekið skal fram, að þegar starfar á vegum Reykjavíkurborgar innheimtustofnun, sem fjallað hefur um þessi mál fyrir Reykjavíkurborg og einnig nærliggjandi sveitarfélög, og samkv. því, sem framkvæmdastjóri þessarar stofnunar tjáði n., þegar álits var leitað hjá honum um þessi mál, þá upplýsti hann það, að þó að öll þessi innheimta kæmist á eina hönd fyrir öll sveitarfélög í landinu, þá mundi ekki þurfa að bæta teljandi við þann mannafla, sem þegar væri á þeirri skrifstofu, sem Reykjavíkurborg rekur í sambandi við þetta. En svo er ráð fyrir gert, að annaðhvort þessi stofnun, sem þegar er á höndum Reykjavíkurborgar, eða önnur alveg hliðstæð og eingöngu þá rekin undir stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, annist þessi mál, eins og fyrr getur.

Ég þarf sjálfsagt ekki að gera grein fyrir því, hvernig þessi mál eru nú, en eins og allir munu vita, þá annast Tryggingastofnun ríkisins greiðslu svokallaðs endurkræfs barnalífeyris, sem er greiddur samkv. meðlagsúrskurðum til ógiftra mæðra, en skilnaðarleyfisbréfum til fráskilinna kvenna, og síðan er þessi greiðsla innheimt hjá því sveitarfélagi, sem faðirinn á sveitfesti í. Ef þessi innheimta gengur ekki fyrir sveitarfélögunum hjá feðrunum, þá kemur greiðslan með fullum þunga á sveitarfélagið. En þar sem Tryggingastofnunin greiðir þessi meðlög mánaðarlega yfirleitt eftir meðlagsúrskurði og skilnaðarleyfisbréfi, þá getur liðið eitt og jafnvel upp í tvö ár, frá því að Tryggingastofnunin innir þessar greiðslur af hendi, þar til það fær greiðslurnar endurgreiddar úr hendi sveitarfélags og enn þá lengri tími þangað til sveitarfélagið fær það greitt úr hendi föðurins, ef það þá nokkurn tíma fær þær greiðslur. Sökum þess hve þessar innheimtur hafa gengið erfiðlega og farið síversnandi, þá er það einróma ósk Sambands ísl. sveitarfélaga, að þessi nýi háttur verði tekinn upp, eins og hér er lagt til samkv. frv. til l. um Innheimtustofnun sveitarfélaga. Það er líka, þótt það komi kannske ekki glögglega fram í frv. til l. um Innheimtustofnun sveitarfélaga, en má lesa út úr fylgifrv., máli 120 og 119, sem fylgja þessu, að nú er gert ráð fyrir því, að ekki verði lengur átt við það að fá svokallaðan sveitfestisúrskurð fyrir barnsföðurinn, heldur verði Jöfnunarsjóður sveitarfélaga að greiða til Innheimtustofnunar sveitarfélaga það, sem ekki innheimtist af meðlögunum, alveg án tillits til þess, hvar faðirinn á í raun og veru lögheimili. Í fljótu bragði gæti virzt svo, að þetta kæmi ranglátlega og ójafnt niður á sveitarfélögin, en eftir könnun þeirra og eftir einróma ósk er þessi háttur lagður til samkv. þessu frv. Til þess að spara mér tíma ætla ég um leið að geta þeirra breytinga, sem lagðar eru til hér í þeim frv., sem fylgja þessu, frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar, mál 120, og frv. til l. um breyt. á l. um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna, mál nr. 121. Höfuðbreytingarnar, sem þar er lagt til, að gerðar verði, eru þær, að það er styttur sá tími, sem Tryggingastofnuninni er gert að skyldu að greiða meðlög aftur fyrir sig og þessi stytting er miðuð við það, að ekki dragist óhóflega lengi, að krafa sé gerð til Innheimtustofnunarinnar um endurgreiðslu, því að reynslan hefur sýnt, að því lengur sem dregst að krefja föður um endurgreiðslu og því hærri upphæðir sem safnast saman, því erfiðara reynist að ná meðlaginu aftur úr hendi hans.

N. leggur til smávægilegar breytingar á öllum þessum þremur frv. og eins og ég segi, til þess að spara tíma, þá ætla ég að lýsa þeim öllum í einu. Það er í fyrsta lagi, að við frv. til l. um Innheimtustofnun sveitarfélaga er lagt til, að gerð verði smávægileg breyting á síðustu mgr. 5. gr., þar sem stendur: „Innheimtustofnunin skal hafa sama rétt og einstakar sveitarstjórnir samkv. 45. gr. framfærslulaga, nr. 80 1947, til að krefja skattayfirvöld, banka og sparisjóði um upplýsingar um tekjur og eignir barnsfeðra.“ Hér leggur n. til, að niður falli orðin „banka og sparisjóða“ og látið sé nægja að segja: „til að krefja skattayfirvöld“.

Varðandi frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar, þá stendur í 1. gr., 2. mgr.: „Tryggingastofnuninni er ekki heimilt að greiða meðlög lengra aftur í tímann en 3 mánuði.“ Félag einstæðra foreldra óskaði eftir lengri fresti, en það varð samkomulag í n. að mæta óskum þess að nokkru leyti og lengja frestinn úr þremur mánuðum upp í sex. Og í frv. til l. um breyt. á l. um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna, þar sem stendur í 2. gr. 3 mánuðir, er lagt til, að það verði lengt í 6 mánuði. Sumir nm. tóku fram, að þeir vildu áskilja sér rétt til að flytja brtt. við einmitt þetta atriði, hafa frestinn lengri, en eins og ég sagði áðan, þá varð samkomulag um það í n. að leggja þetta þó til.