13.11.1970
Neðri deild: 18. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

101. mál, atvinnuöryggi

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Við 2. umr. málsins og þá sérstaklega í síðari hluta umr. lögðu hv. stjórnarandstæðingar megináherzlu á það sjónarmið sitt, að þetta frv., ef að l. yrði, ryfi gerða samninga stéttarfélaga. Hér væri um svo alvarlegt atriði að ræða, að í raun og veru væru samningar stéttarfélaganna fallnir úr gildi, og stéttarfélögin hefðu rétt til þess að líta á þá sem óskrifað blað og fara sínu fram, eins og engir samningar væru í gildi. Þegar leið á 2. umr. bar meir og meir á þessari röksemdafærslu hv. stjórnarandstæðinga, að þetta frv., ef að l. yrði, felldi samningana, sem gerðir voru í júní s. l. úr gildi, og hefðu því báðir samningsaðilar, að því er manni skildist, frjálsar hendur um nýja samninga eða hverjar þær aðgerðir, sem samræmist því ástandi, er engir samningar séu í gildi á vinnumarkaðinum. Hér er um alvarlegan misskilning að ræða. Hér er um að ræða svo gersamlega staðhæfulausar fullyrðingar, að ómögulegt er annað en að andmæla þeim skýrlega, þannig að það komi ljóst fram, að það er skoðun ríkisstj. og þingmeirihlutans, að þessar staðhæfingar hafi ekki við minnstu rök að styðjast. Því aðeins gætu þessar staðhæfingar verið réttar, því aðeins gæti verið vottur af réttmæti eða sannindum í þeim, að sýna mætti fram á, að þessi löggjöf bryti í bága við stjórnarskrána, að einhver ákvæði þessa frv. brytu þau ákvæði stjskr., sem eiga að vernda samningsfrelsi og samningsrétt einkaaðila í þjóðfélaginu. Engum hefur dottið í hug að halda þessu fram. Þetta eru einu rökin, sem renna mætti undir þá staðhæfingu, sem nokkrir stjórnarandstæðingar, að ég held í hita umr., en ekki að yfirveguðu máli, hafa leyft sér að viðhafa í þessu sambandi. Slík lagasetning er auðvitað engan veginn brot á stjskr. Um þá staðreynd ber það gleggst vitni, að sams konar löggjöf hefur verið margsett á Íslandi og að ég held, í öllum nálægum löndum eða flestum nálægum löndum a. m. k. Í þeim umr. eða eftir slíka lagasetningu hefur því sjónarmiði vitanlega aldrei verið hreyft, að slík lagaákvæði, eins og dæmi eru um í þessu frv., væru brot á stjskr. Hliðstæð dæmi mætti finna í nálægum löndum, t. d. nú nýlega frá Danmörku og Svíþjóð, þar sem um hefur verið að ræða hliðstæð atriði og hér er flutt lagafrv. um, en því sjónarmiði hefur mér vitanlega aldrei verið hreyft, að ákvæði sem þessi væru brot á stjskr. En ef þau eru ekki brot á stjskr., þá eru þær fullyrðingar, sem settar hafa verið fram um þetta efni, algjör markleysa.

Auðvitað eru í þessum l. ýmis ákvæði, sem breyta fjölmörgum samningum, sem eru í gildi í þjóðfélaginu. Mér liggur við að segja, að önnur hver lagasetning, sem löggjafarsamkoman setur, breyti að einhverju leyti einhverjum samningsákvæðum eða einhverri réttarstöðu, sem í gildi hefur verið, áður en l. voru sett. Um þetta mætti nefna mýmörg dæmi frá Íslandi og frá nálægum löndum. Ég skal láta við það eitt sitja að nefna tvö atriði úr þessu frv. sjálfu, sem mætti segja með alveg sama rétti, að breyttu samningi eða breyttu réttarstöðu annarra aðila en þeirra, sem hv. stjórnarandstæðingar segjast hafa verið að tala fyrir.

Við skulum taka ákvæðin um launaskattinn. Um ákvæðin um nýjan 1½% launaskatt á atvinnurekendur gætu þeir sagt með alveg sama rétti: „Þetta hækkar launagreiðslu okkar um 1½% frá því, sem ákveðið var í samningunum í júní og þessa launahækkun er lögbannað að við fáum bætta.“ Ef samtök launþega kjósa að segja, að ákvæði frv. um það, að hækkun áfengis og tóbaks skuli ekki reiknuð í grundvöll vísitölu, að almannatryggingagjald sé ekki reiknað í vísitölu og að greiðslu 2% kauphækkunar skuli frestað í 9 mánuði, séu brot á þeim samningum, sem þeir gerðu fyrir sína hönd, þá gætu vinnuveitendur alveg eins sagt um launaskattinn: „Þetta er brot á þeim samningi, sem við gerðum fyrir okkar umburðarlyndi,“ sem auðvitað á ekki við rök að styðjast, en enginn hefur haldið því fram, að launaskattsákvæðið væri brot á samningum, hvað þá heldur á stjskr.

Ég skal í öðru lagi nefna ákvæði frv. um bann gegn álagningarhækkun. Kaupmenn mega, meðan l. eru í gildi, ef samþ. verða, ekki hækka sína álagningu. Það er ofurauðvelt að hugsa sér, að framleiðandi og kaupmaður hafi gert með sér formlegan viðskiptasamning, sem gilda skuli í 3 ár t. d., að framleiðandi skuli selja kaupmanni ákveðna vöru við verði, sem fari lækkandi með aukinni framleiðslu og meiri þekkingu á vörunni á markaðinum. Hins vegar skuli álagning kaupmannsins hækka, sem því svarar. Útsöluverðið skuli vera óbreytt í 3 ár. Svona hefði þetta verið, hefðu engin l. verið til, eins og hér er gert ráð fyrir. Verði þau hins vegar samþ., þýða þau tvímælalaust, að kaupmaðurinn má ekki hækka álagningu sína þrátt fyrir samninginn við framleiðandann. M. ö. o. mundi varan þá lækka, sem svarar lækkuðu framleiðsluverði framleiðandans. Engum dettur væntanlega í hug að telja þetta bann við álagningarhækkuninni ógilt, af því að það breyti samningi af þessari gerð, og hliðstæð dæmi gæti ég nefnt fjöldamörg, ef mér þætti nokkur ástæða til, en þetta eina einfalda dæmi dugir alveg.

Ég skal taka dæmi úr lagasetningu alveg almenns eðlis, lagasetningu, sem við hér á hinu háa Alþ. þekkjum mætavel og öll önnur lönd þekkja mætavel, að sett séu lög, kannske tímabundin, um gjaldeyrishöft, þ. e. að menn skuli ekki eiga rétt til þess að kaupa gjaldeyri í bönkunum að vild, heldur verða að sækja um leyfi til þess að kaupa gjaldeyri og þola það, þó að beiðninni sé synjað. Ekki er nokkur vafi á því, að í þjóðfélagi, þar sem t. d. um nokkurra ára skeið hafa verið í gildi frjáls gjaldeyrisviðskipti að mestu, þá eru í gildi þúsund samningar íslenzkra innflytjenda við erlenda kaupendur, sem gera ráð fyrir ákveðnum greiðslum á ákveðnum tímum frá innlenda kaupandanum til erlenda seljandans. Dettur nokkrum í hug, að vegna slíkra samninga þá hafi löggjafarsamkoma þjóðar ekki rétt til þess að setja löggjöf, sem kveður á um það, að menn verði að sækja um leyfi til þess að fá gjaldeyri og lúta jafnvel synjun? Við höfum búið við slíka löggjöf í áratugi. Það hafa hlotizt málaferli af einstökum þáttum sem afleiðing af slíkri löggjöf, en innlendi aðilinn hefur, að því ég held, undantekningarlítið, nema aðeins sérstakar ástæður hafi verið fyrir hendi, ekki unnið mál af þessu tilefni. Ef röksemdafærsla stjórnarandstæðinga í þeirra máli væri rétt, þá væri í raun og veru líka öll gjaldeyrishaftalöggjöf ólögleg, af því að hún rifti þúsundum samninga, sem í gildi væru.

Ég skal taka fjórða dæmið, lagasetningu, sem er alþekkt erlendis, en hefur ekki verið alveg í sama formi í gildi hér á landi, að sett séu til bráðabirgða ákvæði, sem banna tilteknar framkvæmdir, t. d. byggingu verzlunarhúsnæðis. Slík lög hafa verið sett með tímabundnu gildi, að því er ég held, á öllum hinum Norðurlöndunum og í Bretlandi. Þetta eru dæmi, sem ég beinlínis man eftir. Engum hefur dottið í hug, að slík löggjöf um bann gegn tilteknum framkvæmdum, t. d. byggingu verzlunarhúsnæðis, væri ólögleg, af því að í gildi væru samningar á milli manna, sem vildu byggja, og manna, sem áttu að byggja fyrir þá, um það, að tiltekið hús skyldi byggja á tilteknum tímum fyrir tiltekið verð. Löggjöfin frestar þessum samningum, frestar framkvæmd þeirra að sjálfsögðu.

Og síðasta dæmið, sem ég skal nefna, er líka alveg almenns eðlis, en líka algerlega ljóst. Við skulum segja, að hér á Íslandi, en mörg dæmi um þetta eru líka til annars staðar, sé breytt hlutafélagalöggjöf, sem skyldi einstaklingsfyrirtæki af vissri stærð og jafnvel samvinnufyrirtæki af vissri gerð til að verða hlutafélög, sem um gilda miklu strangari reglur, eins og allir vita, en einstaklingsfyrirtæki og samvinnufélög. M. ö. o. er vissum fyrirtækjum sem félögum skylt með lögunum að breyta formi sínu og lúta miklu strangari aðhaldsreglum en áður var. Slík hlutafélagalöggjöf riftir bókstaflega samningum, sem í gildi eru á milli einstaklingsfyrirtækja eins og annarra aðila, innbyrðissamningi í sameignarfélagi og innbyrðissamningi í samvinnufélagi. Um það mætti nefna ótal dæmi, að slík löggjöf hefði verið sett, án þess að nokkrum manni dytti í hug, að slík lagasetning væri brot á nokkurri stjskr. eða væri ógild og að engu hafandi, vegna þess að hún rifti samningum, sem gerðir hefðu verið í þjóðfélaginu eða í gildi væru.

M. ö. o. gildir um allt, sem ég nefndi, það sama og með rétti má segja um þetta frv. Ég tók það alveg skýrt fram í þeirri ræðu, sem ég flutti í upphafi 2. umr., að ef menn vildu halda sig að formshlið málsins einvörðungu, þá mætti auðvitað segja, að þessi lagasetning breytti tilteknum ákvæðum gildandi samninga. Mér er þetta algerlega ljóst. En ég sagði hins vegar og skal koma nánar að því í lok máls míns, að þetta teldi ég ekki skipta máli. Það, sem skipti máli, væri það, hvort efni samninganna væri breytt eða ekki. Ef efni samninganna væri breytt mætti með réttu segja, að frv. væri árás á stéttarsamtökin, vegna þess að þá sviptu þau stéttarsamtökin vissum rétti, sem samningarnir hefðu fært, og það teldi ég vera aðalatriði málsins.

Ef það væri rétt, að þetta frv., ef að lögum verður, rjúfi svo mikilvæg ákvæði samninga, að það skapi samningsaðilum algerlega nýja réttarstöðu miðað við samningana og losi þá í raun og veru undan samningunum, þá hlaut það sama í ekki minna mæli að gilda um brbl. hv. þm. Hannibals Valdimarssonar, þáv. félmrh., haustið 1956. Með miklu sterkari rökum hefði mátt segja þá, sem þáv. stjórnarandstaða hafði vit á að gera ekki, að þar væri alveg skýlausum samningsákvæðum breytt með brbl., meira að segja með brbl. Um það er engin deila, að það, sem gert var með brbl., var það, að 6 vísitölustig, sem koma áttu til framkvæmda eftir 10 daga, voru felld úr gildi endanlega. Á móti komu að sjálfsögðu, — engum stendur nær að fallast á það eða rökstyðja það heldur en mér, sem var fylgjandi þessum brbl. á sínum tíma, — önnur fríðindi til launþeganna, sem ég þá og enn met svo mikils, að ég tel, að þessi lagasetning hafi verið launþegunum til hagsbóta, þegar yfir lengri tíma er litið. En hitt er jafnómótmælanlegt, að á þeim degi, sem l. voru gefin út, og um einhvern tíma fram á við skertu l. hag launþegans, af því að þau voru tvímælalaus rifting á skýlausum ákvæðum samninga. Svo kom annað hagræði á móti, sem vó þessa skerðingu upp að mínu viti, þannig að ég var ekki í nokkrum minnsta vafa um það, og er það ekki enn, að það var íslenzkum launþegum hagkvæmara, að l. voru gefin út, miðað við það ástand, sem hefði skapazt, ef þau hefðu ekki verið gefin út og hjólið hefði fengið að halda áfram að snúast.

Í grundvallaratriðum er skoðun mín hin sama á þessu frv. nú, og ekki er síður auðvelt að rökstyðja, að skoðunin er rétt núna, eins og hún var rétt þá. Þetta hafði ég bent á í ræðu minni við 2. umr. Um þetta höfðu hv. stjórnarandstæðingar það að segja og sérstaklega þeir, sem þá voru félagar mínir í ríkisstj., og raunar einnig hv. þm. Eðvarð Sigurðsson, að sá meginmunur væri á þá og nú, að þá hefðu stéttarfélög eða formenn allra stéttarfélaga samþykkt setningu þessara brbl. Nú lægju engar slíkar samþykktir fyrir, en þvert á móti mótmæli. En hér verð ég að biðja menn um að hafa í huga, að þeir mega ekki blanda saman gersamlega óskyldum hlutum. Það hefur auðvitað engin áhrif á réttargildi lagasetningar frá Alþ., hvort lagasetning breytir samningum í þjóðfélaginu, og ekki skapar það samningsaðilum nýja réttarstöðu, hvort einhver fundur úti í bæ mælir með lagasetningunni eða ekki. Það dettur auðvitað engum manni í hug, að geti verið rétt.

Hitt er mér auðvitað algerlega ljóst, að auðvitað var það pólitískur styrkur fyrir þáv. ríkisstj. að hafa meðmæli stéttarfélaganna með þessari lagasetningu. En sú þýðing, sem meðmæli þeirra hafa, er eingöngu pólitísks eðlis. Hún styrkir aðstöðu þáv. ríkisstj. miðað við það, sem ella hefði verið, og þáv. ríkisstj. var auðvitað alveg bráðnauðsynlegt að hafa slíkt samþykki, vegna þess að hún hafði nokkrum mánuðum áður verið mynduð með því yfirlýsta markmiði að hafa fullkomið samráð við stéttarfélögin um allt, sem hún gerði. Stjórnin hefði orðið að fara frá, ef hún hefði ekki fengið, nokkrum mánuðum eftir að hún tók við völdum, samþykki verkalýðsfélaganna fyrir þessari ráðstöfun sinni. Og það var verkalýðsfélögunum ljóst, að stjórnin hefði farið frá eftir fárra mánaða setu, ef stéttarfélögin hefðu ekki veitt þetta samþykki. Það að neita um samþykki haustið 1956 var það sama fyrir stjórnina og að segja af sér, alveg eins og það Alþýðusambandsþing, sem lét stjórnina segja af sér haustið 1958 með því að neita að fallast á 17 vísitölustiga skerðingu þá. Það var sú samþykkt, sem lét stjórnina segja af sér, ekki af því að það væri lögformlega skylt fyrir hana að gera það, ekki af því að henni bæri nokkur stjórnarfarsleg skylda til þess að gera það, heldur af því að málefnasamningur hennar var þannig, að hún gat ekkert gert nema það, sem hún hafði stuðning stéttarfélaganna fyrir. Þess vegna hafa ályktanir úti í bæ, hversu virðulegar og mikilvægar stofnanir, sem þær gera, enga þýðingu fyrir réttargildi lagasetningar frá hinu háa Alþ., og þær skapa engum samningsaðila úti í bæ neitt frelsi frá þeim samningum, sem þeir þegar hafa gert.

Það er ástæða til þess að vara alvarlega við því sjónarmiði, að samtök utan Alþ. geti haft þau áhrif, að meiri hl. Alþ. verði að beygja sig fyrir þeim. Með því móti væri hið raunverulega löggjafarvald flutt út fyrir þessa sali, þar sem það á heima og þar sem það á einungis heima, til annarra aðila utan Alþ. Það er í raun og veru þetta, sem hér örlar á, því er nú verr og miður, og er alvarlegur hlutur, að það dugi, að mikilvæg samtök í landinu geri ályktanir um það, að viss lagasetning sé ógild, að þar með sé hún ógild, og menn muni fara sínu fram, eins og hún væri ógild. Þetta er stórkostlega alvarlegt sjónarmið, sem hér örlar á, og er rétt fyrst að undirstrika það, að það er algerlega rangt og ekki aðeins rangt, það er varhugavert, það er hættulegt.

Ég sagði áðan, að ástæða þess, að stjórn Hermanns Jónassonar hafi leitað eftir stuðningi stéttarfélaga eða formanna þeirra við brbl. frá því í ágúst 1956, hafi verið sú, að það hafi verið pólitísk nauðsyn, og það er rétt. Þessi stjórn hefur engar slíkar yfirlýsingar gefið um það, að hún muni haga gerðum sínum eða binda gerðir sínar við samþykki einna eða neinna samtaka utan Alþ., hvorki launþegasamtaka né vinnuveitendasamtaka né samvinnusamtaka eða nokkurra annarra samtaka. Hún hefur engar slíkar yfirlýsingar gefið. Þess vegna hefur það enga pólitíska eða siðferðilega þýðingu fyrir hana, hvað stéttarfélög, vinnuveitendasamtök, samvinnusamtök eða samtök opinberra starfsmanna segja um mál eins og þetta. Það, sem hún hugsar um að gera, stenzt lagalega séð, er lögformlega rétt og það, sem hún telur vera skyldu sína að gera í þágu alþjóðar.

Ég ætla að undirstrika enn frekar það, sem ég sagði við 2. umr., að frá okkar sjónarmiði, sem stöndum að þessu frv., er það meginatriði, að það er trú okkar og vissa, að með samþykkt frv. sé ekki verið að rýra efni samninganna frá júní s. l., að frv., ef að lögum verður, skerði í engu þau raunverulegu kjör, sem launþegar þá sömdu um, og í sannleika sagt er efni frv. nákvæmlega við það miðað, að svo verði ekki. Upphæð niðurgreiðslnanna er beinlínis við það miðuð, að sá kaupmáttur varðveitist, að frv. samþykktu, sem var raunverulegt innihald samninganna frá í júní. Og þetta tel ég vera aðalatriði málsins, en ekki formshliðina, þótt segja megi með réttu, að vissum samningsákvæðum sé breytt.

Það var að því fundið, að ég hefði sagt, að kaupmáttaraukning sú, sem samið hefði verið um í samningunum, hafi verið 17%, og sýna mætti fram á, að þegar þessi ákvæði í frv. væru komin til fullra framkvæmda, væri kaupmátturinn 17% meiri en í maí s. l., og það var fundið að þessu, vegna þess að þá taldi ég með auðvitað báðum megin þá vísitöluhækkun, sem varð í mal og kom til framkvæmda samtímis grunnkaupshækkuninni, sem um var samið. Mér er auðvitað algerlega ljóst, hvað þessar tölur mínar þýddu, og þetta er sá samanburðargrundvöllur, sem venjulegast er gerður. En það er enginn vandi að gera samanburð líka á grunnkaupshækkuninni í júní, sem var um 17–18% og þeirri kjarabót, sem hún út af fyrir sig átti að færa launþegum og hefði fært þeim, ef allt hefði orðið með eðlilegum hætti og þeirri launabót, sem eftir verður miðað við kaupið í júní, á vísitöluhækkunina í maí. Sá samanburður liggur líka fyrir útreiknaður. Niðurstaðan er sú, að grunnkaupshækkunin, sem samið var um, átti að skila og hefði skilað 14% kaupmáttaraukningu. M. ö. o. þegar búið er að fá þetta ofan á allt annað, sem var samningsatriði, og þegar tekið er tillit til tímadráttarins, þá skilar sér þessi 17–18% grunnkaupshækkun sem 14% kaupmáttaraukning. Og ef athugað er, hvað er eftir af þessu grunnkaupi, nú þegar ákvæði l. eru komin til framkvæmda, þá verða þau 14%. Það er auðvitað ekki við því að búast, að nokkur mismunur yrði á niðurstöðunni, hvort sem miðað er við grunnkaup plús vísitölu í maí, júní, eða bara hvort miðað er við grunnkaupið eitt. Enda sýna útreikningar, sem n. geta átt aðgang að, að staðreyndin er þessi. Þetta er því eingöngu formsleg mótbára, sem kom aðallega, að því er ég hygg, frá hv. þm. Lúðvík Jósefssyni og einnig frá hv. þm. Eðvarð Sigurðssyni, ef sá reikningsmáti er tekinn, sem þeir óska eftir, þ. e. a. s. að athuga kaupmáttaraukningu grunnkaupshækkunarinnar og þá kaupmáttaraukningu, sem núna er eftir, sambærilega, þá er mér alveg sama. Þá á við 14%, í báðum tilfellum auðvitað, í stað 17%.

Þetta rennir enn stoðum undir þá grundvallarskoðun okkar, sem málinu fylgja, og það skulu verða síðustu orð mín, að samþykkt frv. tryggir framkvæmd samninganna frá því í júní s. l. Þess vegna mundi ég segja, að engum aðila í þjóðfélaginu sé samning þessa frv. jafnmikið hagsmunamál og einmitt launþegunum, sem gerðu mjög hagstæða samninga í júní s. l. Ef við hefðum ekkert gert, ekkert viljað gera í ríkisstj., þá hefði dýrtíðarhjólið haldið áfram að snúast og á því er ekki nokkur vafi, að á því hefðu engir tapað meir en launþegarnir í landinu. Aðgerðarleysi af okkar hálfu hefði verið það versta, sem gat gerzt, fyrir íslenzka launþega. Þetta gerðum við okkur ljóst, og þess vegna undirbjuggum við, eins vel og vandlega og við höfðum vit á, þessar ráðstafanir. Við erum heppnari að því leyti en stjórn Hermanns Jónassonar var haustið 1956, að við höfum búið við mjög gott árferði, mikinn og vaxandi afla, stórhækkandi verðlag erlendis og góðan hag ríkissjóðs. Þetta setur okkur í betri aðstöðu en stjórn Hermanns Jónassonar haustið 1956 og þetta gerir okkur kleift að hafa ráðstafanirnar þannig, að það á að vera alveg óumdeilanlegt meðal viti borinna manna, að í þessu frv. felst ekki kjaraskerðing hjá launþegum, ef á nokkurn tíma er litið, heldur þvert á móti tryggir það ekki aðeins hag launþeganna framvegis, heldur einnig heilbrigðan rekstur hjá atvinnuvegunum.