25.02.1971
Efri deild: 54. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (803)

14. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil nú aðeins leiðrétta það í upphafi, að það var nú ekki svo, að n. klofnaði um afstöðu til frv. Öll n. mælir með samþykkt þess, en við 3 nm. flytjum hér eina brtt. við frv. og það er eingöngu til þess að mæla nokkur orð fyrir henni, sem ég kvaddi mér hljóðs.

brtt. er á þskj. 391 og fjallar um það, að framlag ríkissjóðs til aflatryggingasjóðs verði helmingur á móti öðrum tekjum sjóðsins, eins og segir í frv., í stað fjórðungur. Ég tel að vísu ástæðu til þess að taka það fram, að það voru nokkur önnur ákvæði í þessu frv., sem mjög kom til mála að flytja brtt. við, en okkur sýndist samt að athuguðu máli rétt að leggja áherzlu á þetta atriði eitt, en sleppa öðrum, m. a. með hliðsjón af því, að hér er um að ræða frv., sem hefur verið allrækilega undirbúið og reynt að ná samkomulagi, allvíðtæku samkomulagi um ýmis vafa- og deiluatriði og þess vegna nokkuð viðurhlutamikið að fara að gera brtt. þar við þau atriði, sem með töluverðri vinnu hefur tekizt að ná samkomulagi um milli þeirra aðila, sem þar eiga sérstaklega hagsmuna að gæta. En eins og hv. frsm. n. gat um, var það einróma álit allra þeirra, sem sendu umsagnir um þetta frv., að framlag ríkissjóðs, sem er nú 1/4 á móti öðrum tekjum aflatryggingasjóðsins, sé óviðunandi lágt. Upphaflega, þegar aflatryggingasjóðurinn var stofnaður, var framlag ríkissjóðs jafnhátt öðrum tekjum sjóðsins. Síðar — ég hygg, að það hafi verið 1962 eða 1963 — var gerð á þessu breyting á þann veg, að framlag ríkissjóðs skyldi vera helmingur á móti öðrum tekjum sjóðsins. Loks gerði hæstv. ríkisstj. í fyrra enn breytingu hér á og ákvað, að ríkissjóðsframlagið skyldi nú vera 1/4 af tekjum sjóðsins, og það er þetta ákvæði, sem ætlunin er að lögfesta hér í þessu frv. Og það fer algerlega í bág við þær till., sem sú n., sem undirbjó þetta frv., lagði til, og það fer algerlega í bág við vilja þeirra aðila, sem umsagnir hafa sent um málið, og ég hygg, að rökstuðningurinn fyrir nauðsyn þess, að hér sé a. m. k. ákveðið, að ríkisframlagið skuli vera helmingur á móti öðrum tekjum, rökstuðningurinn komi bezt fram með því að lesa hér nokkur aðalatriðin úr umsögnum þriggja aðila að þessu leyti um þetta atriði. Þessir þrír aðilar eru Alþýðusamband Íslands, Landssamband ísl. útvegsmanna og Fiskifélag Íslands. Rétt er að taka það fram, að við flm. þessarar till. hefðum vissulega vel getað hugsað okkur að koma til móts við þau tilmæli, sem koma fram hjá a. m. k. sumum þessara aðila, að ríkisframlagið yrði að nýju jafnhátt og aðrar sjóðstekjur, en við höldum, að meiri líkur kynnu að vera til þess, að hægt yrði að fá fram breytingu um það, að þetta skuli vera jafnhátt og það hefur verið allmörg síðustu árin, eins og í fyrra, eða helmingur á móti öðrum tekjum og förum þar að þessu leyti heldur varlega í sakirnar. Um þetta mál segir svo í umsögn frá Alþýðusambandi Íslands:

„Eins og lagafrv. var úr garði gert frá n. hendi, var stefnt að því, að starfsemi aflatryggingasjóðs yrði verulega aukin, og gæti sjóðurinn betur en áður jafnað metin og bætt tjón, sem að höndum ber í sjávarútveginum á ýmsum stöðum á landinu, þegar tilfinnanlegur aflabrestur verður. Í því formi, sem frv. er nú lagt fram og verði það þannig samþ., mundi sá tilgangur ekki nást nema að litlu leyti og endurskoðun laganna bera minni árangur en til var ætlazt og brýn þörf er fyrir. Frá því að hlutatryggingasjóður tók til starfa 1950 og til 1962, var framlag ríkissjóðs jafnt tekjum sjóðsins af útflutningsgjaldinu. Árið 1962 var lögunum breytt og m. a. stofnuð sérstök deild fyrir togarana og svonefnd jöfnunardeild. Var þá framlag ríkissjóðs lækkað frá því, sem það var frá byrjun, í helming á móti útflutningsgjaldinu. öll árin síðan hafa verið góð aflaár að undanskildum e. t. v. árunum 1967 og 1968. Sjóðurinn hefur þó ekki getað safnað á þessum góðu árum umtalsverðum inneignum til lakari ára, ef að höndum bæru, sem alltaf vofir þó yfir þessum atvinnuvegi.“

Og síðar í þessari umsögn er lagt eindregið til, að sú breyting verði gerð á frv., að ríkisframlagið verði jafnhátt eins og tekjurnar af útflutningsgjaldi.

Í umsögn frá Landssambandi ísl. útvegsmanna segir um þetta atriði, með leyfi hæstv: forseta: „Hér (þ. e. a. s. í brtt., sem stjórn Landssambandsins lætur fylgja með þessari grg.) er lagt til, að framlag ríkissjóðs samkv. 8. gr. frv. verði aukið verulega og er það gert m. a. með tilliti til þess, að útgjöld sjóðsins munu aukast, ef frv. þetta verður samþykkt. Vísum vér á bug þeirri fullyrðingu í aths. við frv., að þeir tekjustofnar, sem sjóðnum er ætlað að hafa, séu nægilegir til að standa undir útgjöldum sjóðsins. Í fyrsta lagi veit enginn fyrir fram um útgjöld sjóðsins og því þörf sjóðsmyndunar í góðu árferði. Í öðru lagi er ekki hægt að hafa hækkaðar tekjur í krónutölu sem ástæðu til að lækka framlag ríkissjóðs. Gengisbreytingin veldur hækkuðum útgjöldum sjóðsins vegna hækkaðs útgerðarkostnaðar og hærra fiskverðs og kemur því ekki til með að bæta afkomu sjóðsins. Til viðbótar ofangreindu vísast til þess, er segir um þetta atriði í áliti n. þeirrar, sem að frv. vann.“

Og eins og ég sagði áðan, leggur stjórn Landssambands ísl. útvegsmanna til, að 8. gr. frv. verði breytt á þann veg, að framlag ríkissjóðs skuli vera jafnhátt tekjum samkv. 1. tölul. þessarar gr. Loks er það atriði úr umsögn Fiskifélags Íslands, sem fjallar um þetta sérstaka mál. Þar segir:

„Í umræddu frv. til breytinga á l. um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, sem á ný hefur verið lagt fyrir hv. Alþ., er gert ráð fyrir allmiklu minni fjárframlögum ríkissjóðs en núgildandi lög aflatryggingasjóðs mæla fyrir um. Í þessu sama efni eru tillögur n. þeirrar, er vann að endurskoðun laganna, virtar að vettugi. Þessi ráðstöfun er rökstudd með því, að hagur sjóðsins hafi mjög batnað við gengisbreytinguna 1968, svo og við hagstæð aflabrögð og batnandi afkomu útvegsins 1969 og 1970. Þessi málflutningur þarfnast nánari skýringa, því að þessu má ekki rugla saman. Vissulega jukust tekjur sjóðsins að krónutölu við gengisbreytinguna. Hins vegar aukast útgjöldin samsvarandi þegar frá gengisbreytingunni, því að fiskverð hækkar. Bætur úr sjóðnum til útvegsins miðast við fiskverð hverju sinni, eins og ákveðið er af verðlagsráði sjávarútvegsins. Aftur á móti hefur gott árferði, þ. e. góð aflabrögð undanfarin tvö ár orðið til þess, að útgjöld hafa verið með minna móti. Ef byggja má á reynslu áranna 1967 og 1968, þegar allverulegur greiðsluhalli varð hjá aflatryggingasjóði, þarf heildarsjóðseign að nema a. m. k. 200 millj. kr. miðað við núgildandi verðgildi krónunnar, til þess að unnt verði að mæta álíka áföllum og þá skullu yfir. Af þessari ástæðu er beinlínis hættulegt að skerða fjárframlög ríkisins til aflatryggingasjóðs. Á það má og benda, að frv. gerir ráð fyrir auknum útgjöldum sjóðsins. Ef umrædd tekjuskerðing verður framkvæmd, þarf jafnframt að nema á brott þau ákvæði frv., sem gera ráð fyrir útgjaldaaukningu, svo sem í 3. gr., 5. gr. og 9. gr. frv.“

Þetta var úr umsögn Fiskifélags Íslands. Ég tel, að í umsögnum þessara aðila, sem gerst ættu að mega þekkja, hvers er þörf í sambandi við aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, séu færð svo sterk rök fyrir því, að a. m. k. þurfi að ákveða, — eins og brtt. okkar mælir fyrir um — að ríkissjóður leggi fram helming á móti öðrum tekjum sjóðsins, ef það á að vera sæmilega tryggt, að sjóðurinn geti starfað með eðlilegum hætti og mætt þeim áföllum, sem hann á að geta mætt, ef aflabrestur verður á einhverju svæði.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að hafa fleiri orð um brtt. okkar, en vænti þess, að hv. d. sjái nauðsyn þess að samþykkja hana.